Afmælisboð hjá pabba!

Þriðjudagur 17. nóvember 2009

Í dag á pabbi afmæli - er 74 ára í dag kappinn! Í tilefni þess fórum við fjölskyldan nú í kvöld í heimsókn á Skagann til pabba og mömmu og fengum gómsætan kvöldmat. Pabbi fékk auðvitað að velja afmælismatinn og fyrir valinu varð lambalæri með brúnuðum karöflum. Það fór vel ofan í afmælisgestina og í eftirrétt fengum við nýbakaðar pönnukökur með rjóma að hætti mömmu SmileSmileSmile 

IMG_6280[1]

Mynd dagins er úr afmælisveislu pabba nú í kvöld - til hamingju með daginn!!!


Fundahöld í Hvalfirði

Mánudagur 16. nóvember 2009

Eftir hádegi í dag var ég staddur á hótelinu Glymur í Hvalfirði, tengt vinnu minni. Þar var ég vinnufundi á þessu skemmtilega hóteli. Það var skítakuldi og góður trekkur í Hvalfirðinum í dag en sól, þannig að fjörðurinn skartaði sínu fegursta. Ég hef aðeins örsjaldan komið inn í Hvalfjörð síðan Hvalfjarðargöngin opnuð 1998 en fram að því hafði ég nú verið amk vikulegur "gestur" í firðinum. Hvalfjörður er hins vegar mjög fallegur og nú hinn síðari ár er maður virkilega farinn að njóta hans sem slíks.

IMG_6277[1]

Mynd dagsins er tekin á fundinum á hótel Glym þar sem ég var staddur í dag. Á myndinni eru Harpa og Alma samstarfskonur mínar. Alveg hið fínasta hótel í gríðarlegum fallegum firði Cool


Heimsendirinn 2012!

Sunnudagur 15. nóvember 2009

Nú í kvöld fór ég í bíó með Ágústi Loga syni mínum. Fyrir valinu varð stórslysamyndin 2012 sem nýbúið er að frumsýna hér á landi. Þetta er sannkölluð stórmynd. Söguþráðurinn er á þá leið að vísindamenn reikna það út að vegna sérstakrar stöðu himintunglanna 21. desember 2012 muni jarðskorpan bráðna meira og minna bráðna sem þýðir auðvitað að endalok jarðarinnar eins og við þekkjum hana í dag. Svo fylgjumst við með aðalhetjunum reyna að lifa af þegar heilu stórborgirnar hverfa í iður jarðar og risastórar fljóðbylgjur ferðast um heiminn. Þó söguþráðurinn hafi sína galla verð ég nú bara að viðurkenna að ég skemmti mér konunglega. Myndin hefur að geyma einhverjar flottustu tæknibrellur sem ég hef séð og í góðu hljóðkerfi nær maður virkilega að vera spenntur meira og minna alla myndina því hvert stóratriðið rekur annað þá tvo og hálfan tíma sem myndin tekur í sýningu.

2012

2012

Mynd dagsins er auglýsingin af myndinni 2012 sem við Ágúst Logi sáum í kvöld. Hún gefur til kynna þvílíkar hamfarir kvikmyndin bíður uppá - alveg hin fínasta skemmtun og við feðgar skemmtum okkur vel! 


Fótbolti í 12 klukkutíma!

Laugardagur 14. nóvember 2009

Í hádeginu í dag var ég mættur í íþróttahúsið að Varmá, hér í Mosfellsbænum. Þar var Ágúst Logi sonur minn að fara að spila fótbolta-maraþon ásamt félögunum sínum í 4. flokki Aftureldingar. Í vikunni höfðu strákarnir gengið í hús í bænum og safnað áheitum en ætlun piltanna var að spila fótbolta í 12 klukkustundir samfellt. Það var vaskur hópur drengja sem mætti og auðvitað stóðu þeir við stóru orðin. Margir voru reyndar orðnir ansi þreyttir um miðnættið þegar síðasti leikurinn endaði en dagurinn var örugglega mikið ævintýri fyrir þá.

IMG_6273[1]

Mynd dagsins er af hinum vaska hóp strákanna í 4. flokki Aftureldingar sem spiluðu fótbolta-maraþon í 12 klukkkutíma í dag til að safna fyrir keppnisferð næsta sumar - flott hjá þeim!!!   Ágúst Logi er í svörtum bol merktum "Carlsberg", fjórði frá hægri í miðröðinni.


Félagsmálaráðherra í heimsókn

Föstudagur 13. nóvember 2009

Í dag var skemmtilegur dagur í vinnunni minni. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra heimsótti þá mig og samstarfsfólk minn á einn af vinnustöðum mínum, Hrafnistu í Reykjavík. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun taka við málaflokknum öldrunarmál um næstu áramót og því mikilvægt að ég og mitt fólk séum í góðum tengslum við ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins.
Í heimsókninni var Árni Páll fyrst og fremst funda með yfirstjórn Hrafnistu en auðvitað var honum boðið í skoðunarferð um húsið þar sem hann m.a. heilsaðu upp á heimilisfólk. Ráðherra virtist bara nokkuð ánægður með okkar störf og það sem við höfðum fram að færa, þannig að þetta var hinn ánægjulegasti dagur.

felagsmalaradherra

Mynd dagsins er tekin á Hrafnistu í Reykjavík í dag, einum af vinnustöðum mínum. Þarna er ég ásamt Árna Páli félags- og tryggingarmálaráðherra að skoða eitt af herbergjunum á Hrafnistu.


Gengur þú til rjúpna?

Fimmtudagur 12. nóvember 2009

Seinni partinn í dag fékk ég merkilegt símtal. Í mig hringdi maður og þegar hann var búinn að kynna sig spurði hann mig hvort ég gengi til rjúpna. Ég sagði svo ekki vera en væri meira fyrir að borða rjúpur og annan fiðurfénað. Erindi þessa ágæta manns var að upplýsa mig um að hann hefði verið í rjúpnaleiðangri á Lyngdalsheiði og nágrenni og gengið þar fram á farsímann minn þar lengst upp á fjalli. Þessum ágæta síma tapaði ég í gönguferð sem ég var í þann 17. október s.l. (sjá nánar í færslu um þann dag). Hið ótrúlega gerðist, að ekki einungis er merkilegt að maðurinn hafi gengið fram á símann sem er svartur og nokkuð samlitur umhverfinu heldur hafði líka kviknað á honum þegar það var athugað. Maðurinn ágæti, er Jón Árni heitir, fann svo í skrá símanns símanúmerið "heima" og með hjálp ja.is fann hann út hver ég væri. Það er hreint ótrúlegt að sími sem legið hefur í heilan mánuð upp á fjalli í roki, rigningu og snjó sé bara í fínasta lagi. Ég þakkaði Jóni Árna kærlega fyrir og færði honum lítinn konfektkassa í þakklætisskyni enda kostar síminn töluverða fjárupphæð. Ekki var síður mikilvægt fyrir mig að endurheimta öll símanúmerinn sem geymd voru í minni símans.

IMG_6269[1]

Mynd dagsins er af fundvísa manninum, Jóni Árna, sem fann símann minn á Kálfatindum við Lyngdalsheiði þar sem síminn hafði legið í heilan mánuð í öllum mögulegum veðrum - en var í finu lagi eftir volkið Cool


Lestrarhestur á heimilinu

Miðvikudagur 11. nóvember 2009

Það er kominn lestrarhestur á heimilið. Á mánudaginn fékk Magnús Árni í fyrsta skipti, lestrarbækur heim með sér úr skólanum. Hann er í fyrsta bekk í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum og undanfarið hefur hann verið að læra starfina. Nú er hins vegar komið að stóru stundinni - að byrja að lesa. Magnús Árni var hins vegar orðinn læs þegar hann byrjaði í skólanum. Hann fær því alltaf tvær bækur með sér heim úr skólanum; sú fyrri er "lestrarbókin" sem byggir á einföldum lestraræfingum en svo fær hann líka að lesa aukalega í venjulegri bók. Það er ekkert slegið slöku við hjá drengnum því á hverjum degi fær hann nýja "lestrarbók" og hverja bók les hann þrisvar yfir. Það er því nóg að gera á heimilinu í kringum kvöldmatartímann þessa dagana þegar Magnús Árni les um Sísí og Lóló fyrir okkur foreldrana - þrisvar sinnum Smile

IMG_6281[1]

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna lestrarhesti. Í dag var það bókin "Í vali" sem við feðgar lásum og það mjög vel!


Bloggfærslur 17. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband