18.10.2009 | 22:15
Fjögra systra bröns
Sunnudagur 18. október 2009
Í dag voru fjórar systur hjá okkur fjölskyldunni í "bröns". Þetta voru systurnar frá Áshóli í Grýttubakkahreppi. Nánar tiltekið er þessi bær við Grenivík í Eyjafirði (rét hjá Akureyri ). Tvær þeirra, Sigga og Anna Bára og fjölskyldur þeirra eru vinafólk okkar, en um helgina fengum við að kynnast hinum tveimur systrunum (heldur betur vel
). Þær systur, sem allar nema ein búa fyrir norðan, voru í "systra-kaupstaðarferð" í höfuðborginni og tóku helgina með stæl. Í dag voru þær á norðurferð aftur eftir velheppnaða helgi og fengu hjá okkur hressingu áður en haldið var af stað.
Mynd dagsins er af "brönsinum" í dag hjá okkur í Hrafnshöfðanum þegar systurnar fjórar frá Áshóli voru í heimsókn. Á myndinni eru frá vinstri Sigga, Berglind, Anna Bára, Ásdís og Inga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.10.2009 | 21:49
Í kulda og trekki...
Laugardagur 17. október 2009
Í morgun dreif ég mig snemma á fætur. Ætlunin var að skella mér í fjallaferð með félaga mínum Gunnlaugi B. Ólafssyni (sjá blogvinir hér til hliðar) og fleirum. Á stefnuskránni var gönguferð á hæsta topp Kálfstinda (824 m) sem eru fjallgarður við Lyngdalsheiðina milli Laugarvatns og Þingvalla. Hinir þekktu Laugavatshellar (sjá færslu 30. júlí 2009) er í þessum fjallgarði. Það viðraði ekkert sérstaklega vel á okkur Gunnlaug og sjö aðra ferðafélaga, þegar lagt var í hann. Engin sólarvörn var tekin með í ferðina og hennar var svo sem heldur ekki saknað. Þó hlýtt hafi verið í byrjun ferðar rigndi meira og minna allan tímann og þegar upp á fjallgarðinn var komið, var kominn ansi hressilegur kuldatrekkur sem fylgdi okkur upp á topp. Skyggnið var ekkert en ferðin var hressandi (er að reyna að vera jákvæður ). Í einni nestispásunni (sem stóð bara yfir í eina mínútu vegna veðurs) einhvers staðar ofarlega í fjallgarðinum náði ég að týna símanum mínum. Ég sé hann víst ekki meir. Það er þó lán í óláni að síminn var eiginlega ónýtur og um helgina stóð til að skipta yfir í nýjan. Símanúmerin 169 sem voru í minninu er þó verra að missa en ég hlýt að lifa þetta af.
Mynd dagsins er tekin í gönguferð dagsins á Kálfstinda. Eins og sjá má var alveg nóg af rigningu en galsann vantaði nú ekki hópinn. Þessi mynd er tekinn upp á fjallgarðinum og þarna var brugðið á leik á háum steini sem varð á leið okkar. Gunnlaugur félagi minn er þarna appelsínugulur lengst til hægri. Þó útsýnið hafi alveg verið að skornum skammti var þetta bara hressandi og skemmtileg ferð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2009 | 20:16
Nýr fótboltaþjálfari kynntur
Föstudagur 16. október 2009
Seinni partinn í dag var mér boðið á fund hjá Knattspyrnudeild Aftureldingar. Ég er fyrrverandi formaður deildarinnar en í dag er ég þó bara í baklandinu við að aðstoða (sjá nokkrar fyrri færslur í sumar og vor). Í dag var var það meistaraflokkur karla sem bauð mér á fund ásamt leikmönnum og nokkrum velgjörðarmönnum þar sem verið var að kynna nýjan þjálfara. Nýji þjálfarinn heitir Izudin Daða Dervic. Dervic lék m.a. með KR, Val og FH á ferli sínum sem leikmaður á árum áður auk þess sem hann á að baki 14 landsleiki með íslenska A-landsliðinu. Eftir að hann lagði skóna á hilluna hefur hann einbeitt sér að þjálfun en hann var m.a. þjálfari hjá Haukum í 1.deildinni fyrir nokkrum árum. Nú er bara að sjá hvort Afturelding nær sér ekki að strik í fótboltanum undir stjórn hins nýja þjálfara.
Mynd dagsins er frá kynningarfundi meistraflokks karla hjá Knattspyrnudeild Aftureldingar þar sem ég kíkti við seinni partinn í dag. Á fundinum var nýr þjálfari kynntur. Á myndinni eru Hilmar formaður meistaraflokksráðs karla, nýji þjálfarinn Daði Dervic og Gyða, framvæmdastjóri Aftureldingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)