12.10.2009 | 23:53
Karókí í Ölver
Föstudagur 9. október 2009
Í kvöld kíkti ég við á hinum sögufræga veitinga- og skemmtistað Ölveri en staðurinn er staðsettur í verslunarmiðstöðinni Glæsibæ fyrir þá sem ekki vita. Um 100 félagar í starfsmannafélagi Hrafnistu í Reykjavík (vinnustaður minn) voru þar með æsispennandi karókí hátíð. Dagskráin hófst á ljómandi góðum kvöldverði og síðan voru dregnir út nokkrir happdrættisvinningar. Á staðinn voru mættar idol-stjörnurnar Heiða og Anna Hlín en báðar bera þær þann heiður að hafa orðið í öðru sæti í þessari merku keppni. Anna Hlín er reyndar starfsmaður hjá okkur líka. Þær komu fjörinu heldur betur í gang með því að taka nokkur lög áður en viðstaddir sýndu snilli sína. Þetta var mjög skemmtilegt en þær stöllur komu mér þó í mikil vandræði um mitt kvöldið með því að kalla mig upp á svið til að taka lagið fyrir fólkið. Ég hef nú reyndar frekar takmarkaða sönghæfileika og sérstaklega ekki þegar ég veit ekki fyrirfram hvaða lag ég er að fara að syngja. Það má þó ekki taka lífið of alvarlega og eftir að samstarfólkið hafði skemmt sér við að láta mig taka eitt lag var ég klappaður upp til að taka annað Ég var þó komin snemma heim enda bara ætlunin að kíkja aðeins við og kanna stemminguna sem var mjög góð!
Mynd dagins er tekin í kvöld í Ölveri í Glæsibæ á Karókíhátíðinni. Myndin sýnir nokkrar samstarfskonur mínar í banastuði enda var fólk fljót farið að syngja og dansa um allan sal með "listamönnunum"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2009 | 23:27
Stjórinn!
Fimmtudagurinn 8. október 2009
Það fer ekki milli mála hjá neinum sem kíkir reglulega á þessa ljósmyndadagbók að fótbolti er ofarlega á lista yfir áhugamál hjá mér og sonunum. Fyrir nokkrum árum var gefið út íslenska knattspyrnuspilið "Stjórinn" og gengur út á að leikendur eru að stjórna hver sínu knattspyrnuliði. Spilið er að sjálfsögðu til á mínu heimili og einstaka sinnu dregið fram.
Mynd dagsins er af Ágústi Loga og Magnúsi Árna að spila "Stjórann". Mikið stuð!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2009 | 23:14
Guðbrandur Víðir
Miðvikudagur 7. október 2009
Einn af vinnustöðum mínum er hjúkrunarheimilið Víðines sem staðsett er á Alfsnesi milli Mosfellsbæjar og Kollafjarðar. Ég kem þar öðru hverju. Í Víðinesi býr einn feistasti köttur landsins, Guðbrandur Víðir. Hann er þó hvers manns hugljúfi á staðnum og blíður og góður við alla. Maður reynir að kíkja á kappann þegar maður er á ferðinni en eins og katta er siður er Guðbrandur ekki alltaf heimavið. Í dag var ég á ferðinni í Víðinesi og náði aðeins að klappa gleðigjafanum Guðbrandi Víði.
Mynd dagsins er af kettinum mikla, Guðbrandi Víði, í Víðinesi. Hann lá í makindum í körfunni sinni þegar ég hitti hann í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2009 | 23:08
Tekið á því í World Class
Þriðjudagur 6. október 2009
Tíminn eftir vinnu í dag fór í íþróttir. Fyrst var ég gestur á fundi hjá nýrri stjórn í meistaraflokksráðs Aftureldingar í knasttpyrnu (sjá nokkrar færslur fyrr í sumar um tengsl mín við knattspyrnudeildina). Að þeim fundi loknu var skundað á foreldrafund hjá 4. flokki Aftureldingarí knattspyrnu þar sem Ágúst Logi sonur minn æfir og spilar (sjá einnig nánar í nokkrum færslum fyrr í sumar). Loks fór ég sjálfur í íþróttir og tók aðeins á því. World class rekur þessa fínu æfingastöð við Lágafellslaug. Þetta er í göngufjarlægð frá heimilinu þannig að það er enginn afsökun lengur fyrir að vera ekki duglegur að mæta í ræktina. Þegar stöðin opnaði 2007 keypti ég strax fasta áskrift og þá getur maður mætt í æfingastöðina og/eða sund eins oft og maður vill. Það er alveg meiriháttar.
Mynd dagsins er tekin í World Class við Lágafellslaug nú í kvöld. Þarna er ég á hlaupabrettinu að rembast við brenna nokkrum kalóríum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)