Færsluflokkur: Bloggar

Sniglast í jarðaberjunum!

Föstudagurinn 8. ágúst 2014

Seinni partinn í dag fór ég með Magnúsi Árna til foreldra minna upp á Akranes. Þar vorum við að aðstoða við ýmis störf í garðinum hjá þeim.

Þau hafa yfir að ráða nokkuð stóru jarðaberjasvæði sem smá saman hefur verið að ræktast upp í tímans rás og er farið að gefa vel af sér. Nú er jarðaberjatíminn að byrja og því alltaf gaman að koma í heimsókn og fá glæný jarðaber.

Eitt af því sem þarf að gera ef maður er að rækta jarðaber er að verja þau vandlega því margir fleiri en við mannfólkið erum sólgin í þau. Meðal annars þarf að veiða snigla. Magnús Árni kallaði mig sérstaklega til að skoða risastóran snigil sem afi hans hafði veitt í sniglagildru en þessi snigill er með þeim stærri sem maður hefur séð, amk þarna í garðnum.

snigill 

Mynd dagsins er af sniglinum stóra sem var að sniglast í jarðaberjagarðinum hjá foreldrum mínum á Skaganum nú í dag. Því miður fyrir hann var hann veiddur í sérstaka snigla-gildru áður en hann gat gert mikinn óskunda í jarðaberjunum. Stærð snigilsins er áhugaverð, með þeim stærri sem maður hefur séð þarna í garðinum. Til að róa dýraverndunarsinna skal skýrt tekið fram að sniglarnir fá frelsi annars staðar í garðinum eftir að þeir veiðast í sniglagildrurnar Smile


Brúðkaupsafmæli þjófstartað!

Fimmtudagurinn 7. ágúst 2014

Á morgun eigum við Inga brúðkaupsafmæli. Af praktískum ástæðum var ákveðið að halda upp á það í kvöld, frekar en annað kvöld. Ég reyndi að vera eitthvað smá rómantískur og eftir vinnu hjá Ingu í dag bauð ég henni í smá ferðalag og út að borða, sem bara heppnaðist ágætlega held ég Smile

Það var árið 1998 eða fyrir 16 árum sem við gengum upp að altarinu á blíðviðrisdegi út í Viðey. Þar áttum við góða stund í faðmi fjölskyldu og vina. Það var því gaman að minnast þess í kvöld og allra þessara ára sem við höfum átt saman. Ansi margt gerst á þessum tíma, langflestallt mjög skemmtilegt, og því hefur þetta liðið mjög hratt.

brúðkaupsafmæli 

Mynd dagsins er af henni Ingu minni en í kvöld bauð ég henni út af borða í tilefni af 16 ára brúðkaupsafmæli okkar sem er reyndar á morgun (08.08.98). Ég er lukkunar pamfíll að hafa náð í þessa einstöku konu Cool 


Að láta koma sér á óvart...

Miðvikudagurinn 6. ágúst 2014

Í kvöld ákváðum við Magnús Árni að horfa á eina bíómynd saman. Magnús valdi fyrir okkur mynd sem ég man nú ekki eftir að hafa heyrt um áður en myndin heitir "Now you see me" og skartar ýmsum stórleikurum. Hún frumsýnd fyrir um ári síðan.

Í stuttu máli gengur söguþráðurinn út á að hópur ofursnjallra töframanna notar hæfni sína til að ræna banka og fleira, og eltingaleik lögreglunnar við að hafa hendur í hári þeirra. Handritið er kannski ekkert voðalega gott en fyrir unnendur góðra töfrabragða er myndin mjög áhugaverð. Við Magnús Árni erum báðir miklir áhugamenn um töfrabrögð og því var þessi mynd bara þrælskemmtileg. Fyrirfram bjóst ég ekki við neinu og því kom myndin skemmtilega á óvart og úr varð hin besta skemmtun.

Töfrasýningar hafa verið að komast nokkuð í tísku aftur hin síðustu ár, sérstaklega eftir nokkur frábær atriði í sjónvarpsþáttum eins og "America's got talent" og "Britain's got talent". Ég hef alltaf haft gaman að því þegar mér er komið á óvart. Það gerist gjarnan þegar maður sér gott töfraatriði og botnar ekkert í því hvernig maður plataður upp úr skónum.

Töfrasýningar og myndin sjálf, varpa svo alltaf upp áhugaverðum spurningum um mannlegt eðli og mannshugann. Þá á ég við hvernig hægt er að blekkja augað og fá fólk til að trúa, jafnvel þó það viti betur. Stórleikarinn Woody Harrelson, sem fyrst varð frægur í sjónvarpsþáttunum Staupasteini, leikur til dæmis ansi slunginn hugsanalesara. Handritshöfundarnir hafa greinilegt lagt nokkra vinnu í þessa persónu þar sem skýrt kemur fram í myndinni að hann les auðvitað ekki hugsanir fólks, heldur er gæddur afburðahæfni að lesa úr viðbrögðum fólks við því sem hann segir. Um þetta fyrirbæri í mannlegum samskiptum gæti ég svo skrifað langan pistil en læt hér staðar numið Smile

nowyouseeme

Mynd dagsins fengin af láni af veraldarvefnum og er kynningarmynd fyrir kvikmyndina "Now you see me" sem við Magnús Árni horfðum á saman nú í kvöld. Alltaf gaman þegar manni er komið á óvart og þrátt fyrir ýmsa galla kom þessi mynd mér skemmtilega á óvart svo úr varð hin besta kvöldskemmtun! 


Gleðigjafinn 79 ára!

Þriðjudagurinn 5. ágúst 2014

Í dag fagnar Ingimar Einarsson, tengdapabbi minn, 79 ára afmælisdeginum. Í tilefni dagsins bauð hann sínum allra nánustu til matarveislu þar sem í boði voru lambalæri með öllu tilheyrandi. Við fjölskyldan létum okkur auðvitað ekki vanta enda aðeins um klukkustundarakstur í Reykholt í Biskupstungum þar sem kappinn hefur búið síðustu árin.

Það var líf og fjör í veislunni eins og við var að búast. Það verður seint sagt að það sé ekki líf og fjör í kringum tengdapabba. Hann er án efa með merkilegri mönnum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni og margt um lífið, tilveruna og önnur mál sem gaman er að ræða við hann.

Gleðigjafinn 79 ára 

Mynd dagsins er af gleðigjafanum sjálfum, Ingimar tengdapabba, sem fagnaði 79 ára afmæli í dag. Oftar en ekki tekur hann aðeins í nikkuna ef gesti ber að garði og hann spilaði sjálfur undir afmælissöngnum í veislunni í kvöld. Merkismaður þarna á ferðinni og sannarlega gleðigjafi! 


Algerir sykurpúðar!

Mánudagurinn 4. ágúst 2014

Þá er Verslunarmannahelgin á enda þetta árið. Við fjölskyldan höfum verið í miklu fjöri en góðu yfirlæti í Biskupstungum (sjá færslur síðustu daga).

Í dag var fínasta veður og í hádeginu var ákveðið að grilla sykurpúða. Það er alveg klassískt hjá yngri kynslóðinni þó ég verði að viðurkenna að þessi réttur þyki mér ekki góður. Að loknu sykurpúðaáti var kominn tími á að pakka niður Verslunarmannahelginni. Á leiðinni heim var komið við í Reykholti hjá höfðingjanum Hauki Daðasyni og svo kíkt kaffi í Miðhúsaskógi hjá kunningjum okkar Berglindi og Rikka sem þar eru að reisa sumarhús.

sykurpúðar 

Mynd dagsins sýnir afkvæmin Svandísi Erlu og Magnús Árna að grilla sér sykurpúða í hádeginu í dag. Fínn endir á flottri helgi að gúffa í sig ljúffengum sykurpúðum. Það var því ánægð en velþreytt fjölskylda sem skreið inn um dyrnar hér heima um kvöldmatarleitið í kvöld - glæsileg helgi að baki Cool  


Fjórar systur!

Sunnudagurinn 3. ágúst 2014

Líkt og síðustu ár, erum við fjölskyldan í útilegu þessa Verslunarhelgina, með stórfjölskyldunni í Sporðinum í Biskupstungum, sem er landareign í eigu tengdapabba. Þarna er auðvitað margt skemmtileg brallað alla helgina (hægt að sjá fleiri myndir frá helginni á feisbúkk hjá Ingu).

Inga á þrjár systur. Það er ekki mjög oft sem þær eru allar fjórar saman um Verslunarmannahelgina en það gerðist núna. Systurnar eru búsetar á víð og dreif eða nánar tiltekið: Mosfellsbæ, Akureyri, við Flúðir og Þýskalandi. Það er því jafnan mikið líf og fjör þegar þær eru allar saman.

DSC01300 

Mynd dagsins er að Ingu og systrum hennar sem eru allar samankonar í útilegu þessa Verslunarmannahelgina. Það er ekki of oft sem þær eru allar saman og því er alveg þess virði að smella í eina góða mynd. Þessi er tekin í grillveislu sem við vorum í nú í kvöld. Frá vinstir: Kristín Erla, Inga, Guðrún og Jóna (Ragnheiður Jóna). Flottar systur Cool


Sporðameistarinn í stígvélakasti!

Laugardagurinn 2. júní 2014

Nú er blessuð Verslunarmannahelgin runnin upp. Venju samkvæmt erum við stórfjölskyldan samankomin á landareign Ingimars tengdapabba í Biskupstungum, sem kallast Sporðurinn. Þar eru stórar grasflatir í góðu skjóli trjáa og fjallegt að tjalda eða breiða út fellihýsi. Á dögunum var fjárfest í 32 fermetra samkomutjaldi og þar má troða fjölda manns inn ef ekki viðrar vel.

Það var mikið fjör í dag í ágætisveðri og seinni partinn var grillað og farið í leiki. Flestir í yngri hluta hópsins fór svo á tónleika á Flúðum með Ljótu hálfvitunum en við eldra fólkið slógum bara í góða kvöldvöku með söng og harmonikkuleik þar sem ýmsir góðir gestir kíktu í heimsókn. 

DSC01203 

Mynd dagsins er tekin á kvöldvökunni nú í kvöld þar sem fjölskyldan er saman komin í árlegri Verslunarmannahelgarútilegu í Sporðinum í Biskupstungum. Þarna er verið að keppa í stígvélakasti. Rúnar Ingi (sonur Jónu, systur Ingu) bar sigur úr býtum með því að kasta stívélinu lengsta vegalengd. Þetta er gert með því að sveifla stígvélinu afturábak gegnum klofið og framyfir sig (yfir bakið) og er það hreint ekki auðvelt - og allir áhorfendur eru í hættu því stígvélið getur farið í allar áttir þegar misgóðir kastarar reyna sig í þessari skemmtilegu íþrótt Grin  Stígvélið sjálft má sjá ofarlega til hægri á myndinni.


3.858 skrúfur!

Föstudagurinn 1. ágúst 2014

Undanfarið hef ég verið að vinna endurbótum á pallinum við húsið hjá okkur. Það hefur ekki verið vanþörf á því hann þarf bæði að skrúfa allan upp á nýtt og mála. Við höfum verið að dúllast við þetta í sumar og gengið hægt (en örugglega). Nú undir kvöld urðu þau tímamót, að þó ennþá sé eftir að mála hluta af pallinum, er búið að skrúfa allar skrúfurnar í!

Manús Árni hefur fylgst með skrúfupakkafjallinu nú í sumar sem hefur farið lækkandi smá saman. Hann var ekki lengi að telja skrúfurnar sem hafa farið í þetta en 39 pakkar (með 100 skrúfum hver) hafa verið notaðir til verksins. Með því að telja skrúfurnar sem eftir eru í síðasta pakkanum komst nákvæm tala á verkefnið (við erum ekki það miklir nördar að við höfum verið að telja þetta jafnóðum Smile) þó einhverju smávægilegu getið skeikað þar sem það gæti verið að nokkrar skrúfur hafi týnst í verkferlinu

 

DSC01392 

Mynd dagsins er tekin í garðinum hjá okkur í dag þar sem ég er að skrúfa síðustu skrúfurnar í endurbótaferlinu á pallinum okkar - 3.858 skrúfur takk! Smile


Hreppslaug, hin eina sanna

Fimmtudagur 31. júlí 2014

Það er sjaldgæft að allir í fjölskyldunni sofi fram að hádegi á sama deginum en það gerðist í dag. Við erum á Hvanneyri í Borgarfirði, í fjölskylduútilegu með saumaklúbbnum hennar Ingu. Það fór víst enginn snemma að sofa í gær og því var bara ljómandi fínt að allir gátu sofið út í dag.

Eftir hádegið hélt öll hersingin (nánast) á merkan stað sem ég hef ekki komið á í tæp 20 ár. En það er hin eina sanna Hreppslaug sem staðsett er í Skorradal, skammt frá Hvanneyri. Hreppslaug er meira en lítið sögufræg en hún var steypt 1928 og er að mér skilst fyrsta 25 m laugin sem steypt var á Íslandi. Þarna er nægt heitt vatn sem rennur í laugina og var staðarvalið sjálfsagt tilkomið vegna þess. Þetta var mikil og vinsæl sundlaug á sínum tíma en síðustu ár hefur reksturinn verið erfiður enda samkeppnin við nýrri laugar erfið. Hreppslaug er friðuð og er henni haldið opinni um helgar yfir sumartímann.

Það er mjög gaman fyrir okkur Ingu að koma í laugina þar sem Inga var að vinna þarna í tvö sumur sem unglingur, einmitt á sama tima og við vorum að byrja að kynnast. Maður fór því ófáar ferðirnar í þessa sundlaug á sínum tíma. Einhverra hluta vegna höfum við ekki komið þarna við árum saman og því var mjög gaman að kíkja í laugina.

Hreppslaug 

Mynd dagins er tekin í Hrepplaug í Borgarfirði í dag. Við erum þar í fjölskylduútilegu með saumaklúbbnum hennar Ingu og flestir þáttakendur brugðu sér í sund. Gaman að rifja upp kynni við þessa sögufrægu sundlaug og það í mjög skemmtilegum félagsskap Grin


Hvanneyri City

Miðvikudagurinn 30. júlí 2014

Í kvöld erum við stödd á Hvanneyri í Borgarfirði. Þar er árleg útilega hjá saumklúbbssystrum hennar Ingu og fjölskyldum. Inga er frá Hvanneyri og þar sem tæplega hálfur saumaklúbburinn býr þar, er vel við hæfi að hittast þar. Þó það hafi verið sól og blíða í höfuðborginni í dag, var ekki alveg það sama upp á teningnum á Hvanneyri í dag og kvöld. Kaldur vindur sá til þess að þeir sem voru úti þurftu að klæða sig vel.

Venju samkvæmt var mikið fjör hjá okkur, bæði ungum sem þeim eldri. Auðvitað var grillað saman og margt fleira gert sér til gamans. Það er sjaldgæft að almennt sé farið snemma að sofa þegar þessi hópur hittist og þessi "hittingur" var engin undantekning. En alveg rosalega gaman Smile 

Hvanneyri

Mynd dagsins er tekin á Hvanneyri í Borgarfirði nú í kvöld. Þarna er verið að snæða kvöldverð og á myndinni eru flestir af þeim sem mættu í fjölskylduútileguna hjá saumaklúbbnum hennar Ingu. Flest höfum við þekkst í yfir 20 ár þannig að það er allt mikið líf og fjör þegar þessi hópur kemur saman. Frábært kvöld (og nótt) með frábærum hópi Cool 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband