Heimsókn í HR á fyrsta skóladegi!

Mánudagurinn 18. ágúst 2014

Fyrsti skóladagurinn í Háskóla Reykjavíkur (HR) er í dag. Ég fékk að kíkja í stutta heimsókn með góðum hópi fólks og drekka aðeins í mig andrúmsloftið á þessum skemmtilega degi, þó ég sé nú alls ekki að fara í neitt nám.

Ég hef aldrei komið inn í HR eftir að þeir fluttu í núvernadi húsnæði við rætur Öskjuhlíðar. Sjálfur stundaði ég nám í HR árin 2002-2004, sem var MBA-nám með áherlsu á mannauðsstjórnun. Var það nám með vinnu en á þessum árum var HR staðsettur við Ofanleiti (rétt við Kringluna). HR sprengdi það húsnæði utan af sér og flutti í nýtt húsnæði sem byggt var fyrir skólann við rætur Öskjuhlíðar, rétt við Nauthólsvík. Þó húsið sé ekki fullbyggt er það hið glæsilegasta og mjög gaman var að skoða skólann.

Hr 

Mynd dagsins er tekin í dag í Háskóla Reykjavíkur. Þarna erum við sest inn í eina kennslustofuna og Ari Kristinn Jónsson rektor er að segja okkur frá skólanum og því mikla og fjölbreytta starfi sem þar er i gangi. Virkilega gaman að kíkja í heimsókn í HR í dag, kynnast starfseminni, skoða húsnæðið og upplifa andrúmsloftið á fyrsta skóladegi þessa skólaárs Smile 


Þjóðleg þjóðbúningamessa

Sunnudagurinn 17. ágúst 2014.

Aðeins einu sinni á hverju ári er blásið til messu í Tungufellskirkju í Hrunamannahreppi og sú stund var einmitt í dag. Tungufellskrikja er með minnstu og elstu kirkjum landsins. Í fyrra var byrjað á þeim skemmtilega sið að hvetja kirkjugesti til að mæta í þjóðbúningum og fjölmargir taka þeirri áskorun þó ekki nærri allir mæti í þjóðbúningi.

Þar sem ég á ættir að rekja í Tungufell (Helga móðuramma mín var alin þar upp) reyni ég stundum að kíkja þegar messurnar eru og hitta á hóp af ættingjum í leiðinni. Það er jafnan glatt á hjalla og gaman að spjalla við frændfólkið og aðra gesti enda er kirkjukaffi á eftir, helst úti ef veður leyfir.

Tungufellskirkja er nú í eigu Þjóðminjasafnsins. Þessi kirkja er frekar lítil og tekur svona 35 gesti ef vel er troðið inn. Hún var reist 1856 og er um 22 fermetrar. Annars er talið að kirkja hafi verið í Tungufelli frá því um árið 1200 og kirkjuklukkurnar tvær í kirkjunni er álitnar næstum svo gamlar. Í dag var skein sólin skært og kirkjan var vel full út úr dyrum og einhverjir stóðu fyrir utan. Fjöldi fólks mætti í þjóðbúningi og setti það mjög skemmtilegan svip á messuna.

tungufell

Mynd dagsins er tekin í Hrunamannahreppi í dag þar sem ég mætti í þjóðbúningamessu í einni minnstu kirkju landsins, Tungufellskrikju. Þarna var mikið af ættingjum mínum en fjöldi gesta mætti í þjóðbúningum. Þeir sem það gerðu stilltu sér upp í myndatöku ásamt prestinum og þá smellti ég að þessari mjög svo þjóðlegu mynd. Áhugasamir geta skoðað fleiri myndir úr messunni á facebook-síðu minni. Sannarlega skemmtilegur dagur í Tungufelli í dag Smile


Eyja meyja og peyja

Laugardagurinn 16. ágúst 2014

Í dag var ákveðið að fara í fjölskylduferð til Vestmannaeyja. Svona ferð er búin að vera á stefnuskráinni í sumar en þar sem góðviðrisdagana hefur vantað var ekki rétti tíminn fyrr en núna. Frumburðurinn, Ágúst Logi, kom reyndar ekki með en í staðinn fengum við Þorstein Inga, systurson Ingu (son Kristínar Erlu) með okkur í ferðina.

Við tókum Herjólf úr Landeyjarhöfn kl 13 og rúmlega hálftíma síðar vorum við farin að spóka okkur í miðbænum í blíðskaparveðri. Eftir bæjarrölt skoðuðum við náttúrugripasafnið og svo var farið að skoða nýja eldfjallsafnið. Það er hreint ótrúlega vel heppnað og bæði börn og fullorðnir voru ánægðir með heimsóknina þangað. Mæli eindregið með því!

Svo var haldið í bíltúr um flesta vegi og vegaslóða Eyjunnar og Herjólfsdalur, Stórhöfði og fleiri áhugaverðir staðir skoðaðir. Auðvitað þurftu líka allir að prufa spranga og gekk það bara ótrúlega vel. Eftir að hafa fengið okkur léttan kvöldverð, þar sem meðal annars við smökkuðum reyktan lunda, var haldið aftur í Herjólf og við vorum kominn til baka í Mosfellsbæinn um kl 23 eftir frábæran dag í Eyjum.

eyjar

Mynd dagsins er tekin í Vestmannaeyjaferð fjölskyldunnar í dag þar sem sólin skein í heiði. Þarna erum við, við húsið Landlyst sem er á Skansinum og er eitt af elstu húsum Vestmanneyja. Fleiri myndir úr ferðinni eru á facebook hjá Ingu. Orðið mjög þægilegt að skreppa í dagsferð til Eyja, þar sem meyjar og peyjar taka vel á móti ferðalöngum. Frábær dagur í dag Cool


Mamma mía!

Föstudagur 15. ágúst 2014

Einhvern veginn atvikaðist það svo að upp úr kl 9 í kvöld vorum við Inga ein í kotinu ásamt Svandísi Erlu sem sofnaði eldsnemma. Þegar við hjónakornin kveiktum á sjónvarpinu var hin ægilega rómantíska söngvamyd, Mamma mía, að byrja. Þar sem nokkuð er síðan við Inga höfum séð hana var ákveðið að poppa og horfa á myndina sem var bara hin ágætasta skemmtun.

Reyndar er gaman að rifja upp að mín fyrstu kynni af þessri mynd. Þá hafði hún verið sýnd í bíóhúsum í nokkurn tíma við miklar vinsældir en ég vissi varla af henni. Ákveðið var að prófa að hafa eina "syngdu-með-sýningu" þar sem allir textar laganna birtust á tjaldinu og bíógestir máttu dansa og syngja með. Ég fékk tvo boðsmiða á þessa sýningu og bauð Ingu með mér en við fórum með um 20 manna hópi á sýninguna. Stóri salurinn í Háskólabíó var stútfullur þegar sýningin hófst en við karlarnir í salnum voru samtals svona 10-20 en allt hitt konur á öllum aldri. Svo byrjaði myndin og allir (flestir) sungu með í öllum lögunum og upp úr miðri mynd voru allir (flestir) staðnir upp og sungu og dönsuðu með myndinni. Verð að játa að þetta var dáldið skrítin upplifun og ég var ekki að hífa upp meðaltalið á staðnum í danstöktum. En amk tókst þessi prufusýning það vel að margar svipaðar sýningar voru haldnar í framhaldinu.

Söguþráður myndarinnar verður ekki rakinn hér en myndin byggir á öllum helstu smellum hljómsveitarinnar ABBA, sem hljóma auðvitað allir í myndinni. Hvet nú fólk til að kíkja á myndina ef þið hafið ekki séð hana.

mamma-mia 

Mynd dagins er auglýsingaspjald frá myndinni Mamma mía sem við Inga horfðum óvænt á í kvöld. Gaman að rifja upp þessa mynd sem skartar ýmsum stórleikurum og fullt að góðum ABBA-lögum.


Stormurinn stutti

Fimmtudagurinn 14. ágúst 2014

Nýlega áskotnaðist okkur í fjölskyldunni nýtt fjölskylduspil. Við erum töluvert mikið fyrir að spila og því var gaman að fá nýtt spil, sérstaklega þar sem það gengur alveg fyrir þriggja ára og eldri.

Spilið heitir Litle Storm (veit ekki íslenskt nafn) sem kalla mætti Stormurinn stutti. Þetta er einfalt og skemmtilegt spil sem öll fjölskyldan getur spilað.

DSC01518 

Mynd dagsins er af okkur Svandísi Erlu og Magnús Árna að spila nýja spil fjölskyldunnar um Storminn stutta (Litle Storm) sem er bara hin ágætasta skemmtun Smile


Svandís fer í Krikaskóla!

Miðvikudagurinn 13. ágúst 2014

Í dag var stór dagur hjá Svandísi Erlu því í dag byrjaði hún í nýjum skóla, Krikaskóla. Þó hún sé alveg yndisleg má ekki skilja þetta þannig að hún sé þvílíkt ofurbarn að hún sé að byrja í 1. bekk rétt rúmlega þriggja ára, heldur er svo í pottinn búið að Krikaskóli, hér í Mosfellbænum, er hugsaður sem samfelldur skóli fyrir börn frá tveggja ára og upp í 4. bekk grunnskóla.

Þar sem við fluttum í vetur hér milli í hverfa í Mosfellbænum og nýja heimilið okkar er staðsett bara alveg við Krikaskóla, lá beinast við að Svandís Erla mynd fara í þennan nýlega og flotta skóla. Það er mjög þægilegt fyrir okkur þar sem hún þarf ekki einu sinni að fara yfir götu til að komast í skólann.

Stóri dagurinn var semsagt í dag og þar sem Inga var óvenju upptekin í vinnunni í dag fékk ég að fylgja Svandísi Erlu fyrsta daginn. Okkur leist mjög vel á nýja skóla og krakkana þannig að eftir rúman klukkutími samþykkti Svandís alveg að ég færi aðeins í burtu og myndi sækja hana í hádeginu. Þá var hún hin ánægðasta og fékk að vera lengur þangaði til Magnús bróðir og Svandís amma komu og sóttu hana.

DSC01526 

Mynd dagsins er af Svandís Erlu fyrir utan Krikaskóla í morgun en í þennan skóla mun Svandís ganga næstu sjö árin. Fyrsti dagurinn í nýja skólanum gekk rosalega vel hjá Svandísi Erlu en hún var sofnuð rétt fyrir kl 8 í kvöld, dauðþreytt eftir skemmtilegan dag Smile


Hlaupið fyrir Dag Kára

Þriðjudagurinn 12. ágúst 2014

Þá er ekki aftur snúið. Í kvöld skráði ég mig loksins til þáttöku í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer 23. ágúst n.k. Vegalengdin verður hálft maraþon (21,1 km) og markmiðið verður að vera á undir 1 klst og 45 min. Ég hef ekki tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu síðan 2011 en það ár, rétt eins og árið 2010, lét ég gossa í heilt maraþon og komst lifandi í mark í bæði skiptin.

Í fyrsta skipti ætla ég að taka þátt í áheitasöfnun í þessu hlaupi. Þar er úr mörgum mjög góðum málefnum að velja, þó ég sé nú alveg á síðustu metrunum í þessu þar sem svo stutt er í hlaupið. Ég hef reyndar fengið nokkrar góðar tillögur og væri til í að hjálpa mörgum - en á endanum var það Eva Dögg, samstarfskona mín á Hrafnistu, sem fékk mig til að taka þátt í að styrkja ungan dreng sem heitir Dagur Kári.

Í kynningartexta um Dag - styrktarfélags Dags Kára segir: Dagur Kári Kristinsson er lífsglaður 7 ára strákur. Hann er með CP sem í hans tilfelli lýsir sér í mjög lágri vöðvaspennu og þroskaskerðingu, auk flogaveiki. Dagur Kári situr ekki uppréttur og á erfitt með að halda höfði, hann talar ekki og tjáir sig lítið nema með svipum og hljóðum. Hann fer ferða sinna utandyra í hjólastól fjölskyldunnar. Markmið félagsins er að safna fé til að kaupa þau hjálpartæki sem létta líf hans, en Tryggingastofnun tekur ekki þátt í. Fyrsta verkefnið er að fjármagna undirvagnslyftu á fjölskyldubílinn til að auðvelda honum bílferðir með fjölskyldunni.

Ekki slæmt að leggja þessu góða máli lið og ekki spillir fyrir að faðir drengsins er af Skaganum og móðirsystir hans og amma vinna báðar á Hrafnistu. Vonandi næ ég að leggja eitthvað örlítið í púkkið. Þeir vilja gera það líka fara inn á hlaupastyrkur.is og velja nafnið mitt eða slóðina www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=23137

 

 dagur Kári

Mynd dagsins er tekin á hlaupaæfingu kvöldsins hér í Mosfellsbænum en þarna er ég að hlaupa eftir Skarhólabrautinni sem er hér rétt við húsið. Í Mosó er að finna fjöldan allan af góðum og skemmtilegum hlaupaleiðum þannig að þegar veðriði er gott er engin afsökun fyrir að fara ekki út að hlaupa. Reykjavíkurmaraþonið er framundan og vonandi næ ég að láta eitthvað smávegis gott af mér leiða í leiðinni Smile


Út að borða!

Mánudagurinn 11. ágúst 2014
 
Dagurinn í dag er líklega besti dagur sumarins hingað til, amk hér í Mosfellsbænum. Það átti því vel við að þetta væri fyrsti vinnudagurinn minn eftir gott sumarfrí. Veðrið var þó ennþá brakandi gott þegar ég kom heim þannig að það var ýmislegt hægt að gera til að njóta veðurblíðunnar þó ég hafi verið meira og minna innilokaður allan daginn.
 
 
DSC01483 
 
Mynd dagsins er tekin í sólinni í kvöld þar sem við fjölskyldan erum úti að borða kvöldmatinn í orðsins fyllstu merkingu. Því miður hefur sumarið verið þannig að það hafa ekki gefist mörg tækifæri til að borða úti í sumar, en við nýttum tækifærið sannarlega í kvöld.


Litla Humar-hátíðin!

Sunnudagurinn 10. ágúst 2014

Seinni partinn í dag fengum við góða gesti í heimsókn en það voru Sigga móðursystir mín og Steen maðurinn hennar ásamt foreldrum mínum. Sigga og Steen búa í Danmörku en eru alltaf dugleg að koma til Íslands og gera það amk 2-3svar á ári. Þau eru alltaf dugleg að heimsækja okkur þegar þau koma og við áttum öll skemmtilegan dag saman þar sem karlkynið spilaði meðal annars borðtennis í drjúga stund. Kannski þurfti nú ekki mikið til að fá Siggu og Steen í heimsókn í þetta skiptið þar sem við vorum búin að lofa þeim lítilli Humarhátíð, þar sem við skelltum góðum hrúgum af humri á grillið með miklum sósum og kryddlegi sem Inga hafði útbúið.

DSC01465

Mynd dagsins er tekin í stofunni heima nú í kvöldmatnum þar sem við fengum góða gesti í heimsókn til að borða með okkur humar; þau Siggu móðursystur mín og Steen sem búa í Danmörku. Mjög skemmtilegur dagur þar sem við meðal annars gæddum okkur á grilluðum humri Smile


Sól, sól, skín á mig!

Laugardagurinn 9. ágúst 2014

Loksins er góða veðrið komið, enda kannski ekki seinna vænna þar sem nokkuð er liðið á ágúst mánuð. Það var meðvituð ákvörðun fjölskyldunnar að vera bara heima í rólegheitum þessa helgina eftir töluvert mikil ferðalög síðustu daga.

Það var því kærkomið að láta sólina skína á sig í dag og njóta veðurblíðunnar. Mynd dagsins er af okkur Svandísi Erlu í heita pottinum þar sem við drukkum í okkur sólina og D-vítamín í fínni stemningu í dag Cool

DSC01459 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband