Núlla!

Mánudagur 7. september 2009

Þó það hafi verið brjálað að gera hjá mér í allan dag tókst mér að finna smá smugu nú undir kvöld til að grípa í spil með Magnúsi Árna. Við spiluðum hið merka spil "núlla" sem þeir bræður eru nýbúnir að kenna mér en þessu spili kynntist ég nú ekki í minni æsku. Skemmtilegt og fjörugt spil og mikið gaman. 

IMG_5730[1]

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna við spilamennskuna. "Núllan" alveg stórskemmtilegt Smile


3.-4. sæti er frábær árangur!

Sunnudagur 6. september 2009

Í dag var ég á Akureyri (sjá færslu gærdagsins). Eftir að hafa verið boðinn í morgunkaffi hjá vinafólki, þeim Siggu og Svansa, fylgdist ég með síðasta leik Aftureldingar í úrslitakepninni. Að þessu sinni voru það heimamenn í Þór sem urðu fyrir barðinu á Aftureldingarstrákunum en leikurinn endaði 4-1 fyrir Aftureldingu. Í liði Þórs spilar Bergvin, sonur áðurnefndra hjóna, þannig að við fórum saman á völlinn. Það urðu þó engin slagsmál á áhorfendabekkjunumSmile Aftureldingarstrákarnir biðu svo með öndina í hálsinum eftir úrslitum úr leik KA og Fylkis, en sigur Fylkis myndi þíða að okkar strákar væru komnir í úrslitaleikinn. Fylkismenn voru yfir í hálfleik en rétt fyrir leikslok jafnaði KA þannig að Ágúst Logi og Aftureldingarstrákarnir misstu af úrslitaleiknum og þar með Íslandsmeistaratitilinum. Engu að síður lentu þeir í 3.-4. sæti sem er nú alveg frábær árangur hjá þeim. Á leiðinni heim kom ég við á Hvanneyri og sótti Ingu og Magnús Árna sem þar voru um helgina og þáði ljúffengan kvöldmat sem Anna tengdamamma töfraði fram.

September_Akureyri_111

Mynd dagsins er af strákunum í 4. flokki Aftureldingar sem urðu í 3.-4. sæti í Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 2009. Frábært hjá þeim!!


15 ára greifi!

Laugardagur 5. september 2009

Ég vaknaði eldsnemma í morgun til að bruna til Akureyrar til að fylgjast með Aftureldingarstrákunum í 4. flokki keppa í úrslitakeppni Íslandsmótsins (sjá færslu 2. september 2009). Inga og Magnús Árni fóru hins vegar upp á Hvanneyri til tengdaforeldra minna að hjálpa til við stórtiltekt sem þar fer fram um helgina. Ég var kominn til Akureyrar rétt fyrir hádegið en leikur dagsins hjá drengjunum hófst kl. 12. Þar unni þeir Fylki 4-1 en höfðu í gær tapað mjög óheppilega 0-1 fyrir KA. Eftir leikinn fórum við Ágúst Logi til Jónu mágkonu en Rúnar Ingi (sonur hennar) á 15 ára afmæli í dag og var boðið upp á kökur o.fl. Við fórum svo fjögur út að borða í kvöld í tilefni afmælisins. Afmælisdrengurinn valdi veitingastaðinn Greifann þar sem víð áttum góða stund áður en við skiluðum Ágúst Loga aftur til félaga sinna í Aftureldingarliðinu.

IMG_5724[1]

Mynd dagins er tekin á veitingastaðnum Greifanum á Akureyri nú í kvöld þar sem 15 ára afmæli Rúnars Inga var fagnað Wizard


Púttmót fyrir helgina

Föstudagur 4. september 2009

Seinni partinn í dag tók ég þátt í starfsmannafélags-púttmóti á vinnustað mínum, Hrafnistu. Þó ég spili ekki golf finnst mér voða gaman að taka þátt í "pútti" en slíkir vellir eru við tvö Hrafnistuheimilanna og eru auðvitað ætlaðir heimilisfólkinu. Við starfsmennirnir fáum nú stundum að stelast líka til að prófa og höldum okkar eigin mót. Eitt slíkt var seinni partinn í dag og var það bara mjög gaman. Mótið fer fram eftir mjög nákvæmum reglum en þátttakendur taka keppnina misalvarlega eins og gerist og gengur. Um árangurinn minn skal sem minnst talað en eins og stóð í setningu hér áðan: þetta var mjög gamanSmile

IMG_5705[1]

Mynd dagsins er frá púttmótinu í dag og gefur vonandi tilfinningu fyrir jákvæðu upplifun dagins!


Í skólanum var gaman...

Fimmtudagur 3. september 2009

Í hádeginu í dag hitti ég nokkra félaga úr MBA-námi sem ég stundaði fyrir nokkrum árum í Háskólanum í Reykjavík. Við vorum 28 í bekknum en námið tók tvö ár, 2002-2004 (sjá nánar færslu 5. júní 2009). Bekkurinn hefur verið nokkkuð duglegur að hittast frá útskrift og reynum við að hittast í hádegi á tveggja mánaða fresti yfir vetrartímann. Það er alltaf gaman að sjá framan í fólkið og rifja upp gamlar sögur en einnig að heyra nýjar fréttir af félögunum.

IMG_5703[1]
 

Mynd dagsins er frá "hittingnum" í hádeginu í dag en við snæddum á veitingastaðnum "Kryddlegin hjörtu" sem er við Skúlagötu. Það er mjög skemmtilegur staður með "létt" hádegishlaðborð. Myndin sýnir hluta hópsins og á henni eru: Rannveig, Ásta, Anna Dagmar, Ívar og Hanna.


Úrslitakeppni undirbúin

Miðvikudagur 2. september 2009

Í kvöld fór ég á foreldrafund hjá 4. flokki í Knattspyrnudeild Aftureldingar. Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu er eldri sonur okkar, Ágúst Logi, að æfa og spila með flokknum. Á foreldrafundinum var verið að fara yfir keppnisferð sem piltarnir okkar eru að fara í til Akureyrar um næstu helgi. Þá fer fram úrslitakeppni Íslandsmótsins í 4. flokki og verður spennandi að fylgjast með Aftureldingarpiltum þar. Á Akureyri keppa 4 lið af þeim 8 sem best stóðu sig í sumar og sigurvegarinn fer í úrslitaleikinn sjálfan.

Pétur 4 flokk

Mynd dagsins er reyndar ekki af foreldrafundinum heldur dró ég fram 25 ára gamla mynd. Málið er nefnilegast þannig að fyrir nákvæmlega 25 árum var ég í sömu sporum og Ágúst Logi. Fór þá með liði mínu, Skagamönnum í úrslitakeppnina og uppskárum þar Íslandsmeistaratiltil. Enginn pressa samt á piltinum að jafna þaðTounge  Fyrir þá sem ekki þekkja mig á myndinni þá er ég í rauðri peysu í neðri röð Cool 


Voff, voff!!!

Þriðjudagur 1. september 2009.

Að þessu sinni ætla ég að fá að svindla aðeins og nota mynd frá því á sunnudaginn fyrir mynd dagsins í dag. Á sunnudaginn voru við fjölskyldan í stórskemmtilegu afmæliskaffi í Unnarholtskoti við Flúðir (sjá færslu 30.08.09) en þar á bæ eignaðist tík heimilisins, hún Dimma, 5 hvolpa á dögunum. Þeir eru ægilega fjörugir og skemmtilegir þessa dagana og því gaman að leika sér við þá. Mynd dagsins er af nokkrum hvolpana sem nú er að halda í sína áttina hver til framtíðareigenda Smile

 

IMG_5654[1]

Bláber og Bleiki pardusinn

Mánudagur 31. september 2009

Seinni partinn í dag fóru Magnús Árni og Inga í berjamó upp á Mosfellsheiði. Í kvöldmatnum í kvöld hér á heimilinu var boðið upp á guðdómlegan eftirrétt sem Magnús Árni fékk sjálfur að velja og útbúa: Nýtínd bláber með sykri og rjóma og heilsudrykkinn Bleika pardusinn sem Magnús bjó til í fyrsta heimilisfræðitímanum sínum í skólanum í dag Smile 

IMG_5697[1]

Mynd dagsins er tekin við kvölmatarborðið í kvöld þegar verið er að gæða sér á eftirréttinum. Frá vinstri: Magnús Árni, Ágúst Logi og ég en Inga tók myndina að þessu sinni. Alltaf gaman þegar börnin eru sjálf að sjá um kvöldmatinn!


Afmælisdagur Ingu

Sunnudagur 30. ágúst 2009

Hún Inga mín, eiginkona síðustu 11 ár, á afmæli í dag. Venju samkvæmt hér í fjölskyldunni, var hún vakinn með afmælissöng og fékk færðan morgunmat í rúmið. Svo fórum við fjölskyldan í afmælisveislum við Flúðir þar sem systursynir Ingu, Kristinn Þór (9 ára) og Þorsteinn Ingi (2 ára) héldu upp á afmæli sitt með hnallþórum, hvolpasýningu og miklu fjöri. Dagurinn fór að mestu í ferðina á Flúðir en við fjölskyldan munum halda betur upp á afmælið hennar Ingu við betra tækifæri.

 

Inga

Mynd dagsins átti að vera af Ingu með afmælistertu, pakka og morgunverðin í rúminu en mér var harðbannað að setja þá mynd hér inn. Í staðir kemur hér mynda af henni Ingu þegar hún var 1 árs á seinni hluta síðust aldarWizard


Þvílíkur laugardagur!!!

Laugardagur 29. ágúst 2009

Vá! Þessi dagur var langur og annasamur en gríðarlega skemmtilegur. Eftir að hafa tekið morguninn rólega var ég mættur á Varmárvöll kl. 11:30 til að dæma knattspyrnuleik hjá yngri flokkum Knattspyrnudeildar Aftureldingar (sjá færslu  18. ágúst). Að leik loknum var hafinn mikil skemmtun tengd bæjarhátínni hér í Mosó, Í túninu heima. Kl. 15 vorum við fjölskyldan komin í afmæli til Fríðu Rósar frænku minnar, sem hélt upp á 3ja ára afmælið sitt. Mjög flottar tertur og skemmtilegur félagsskapur! Kl. 17 vorum við fjölskyldan svo mætt á túnið við Vífilsstaðaspítala þar sem vinnustaður minn, Hrafnista, hélt fjölskyldugrillhátíð í blíðunni. Grill fyrir 600 manns, dúettin Hljómur að spila, hoppukastalar, candy-flos og andlitsmálun fyrir börnin - gekk ótrúlega vel! Við stungum svo af úr þessari veislu til að vera komnn í götugrill í götunni okkar hér í Hrafnshöfðanum kl. 19 en það heppnaðist alveg ótrúlega vel og nágrannarnir aldeilis í góðum gír. Götugrillinu lauk upp úr kl.21 þegar skundað var á glæsilega útitónleika hér á torginu í Mosó með sem lauk með flottri flugeldasýningu. Upp úr kl. 23 héldum við Inga svo niður í íþróttahúsið að Varmá þar sem haldinn var stórdansleikur bæjarhátíðarinnar með Egó og Bubba og Pöpunum. Þetta var fjáröflunardansleikur fyrir knattspyrnudeild Aftureldingar. Við Inga tókum að okkur að vera barþjónar en alls vorum við um 15 barþjónar á þessum tæplega 1.000 manna dansleik. Vá! Ekkert smá brjálað að gera á barnum, sjaldan upplifað annað eins en þetta var nú samt bara mjög gaman!!! Ballinu lauk um kl. 3:30 og þá vorum við nokkur í um klukkustund að taka til áður maður komst í rúmið eftir langan, erilsaman en frábærlega skemmtilegan dag SmileSmileSmile

 

IMG_5638[1]

Mynd dagsins er úr götugrillinu í Hrafnishöfðanum. Þó hún sýni kannski ekki mörg brosandi andlit valdi ég hana til að fanga stemninguna. Við vorum með stór tjald til öryggis ef veður yrði vont en það þurfti nú varla í blíðunni sem var í dag og kvöld! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband