Bollur í Borgarnesi

Sunnudagur 27. september 2009

Um kaffileytið í dag lögðum við fjölskyldan af stað heim úr Grundarfjarðarferð okkar sem var alveg mjög skemmtileg (sjá færslu gærdagsins). Á leiðinni var stoppað í Borgarnesi hjá tengdaforeldrum mínum sem þangað eru nýfluttir (sjá færslu 13. september). Þar var okkur boðið í fínasta sunnudagskaffi þar sem glóðvolgar, nýbakaðar heimabakaðar bollur ásamt kryddbrauði voru á boðstólnum.

IMG_5854[1]

Mynd dagsins er tekin í Borgarnesi í dag í ljúffengu sunnudagskaffi. Þarna eru Inga og strákarnir ásamt Önnu tengdamömmu.


Halló Grundarfjörður

Laugardagur 26. september 2009

Í morgun fórum við fjölskyldan í heimsókn á Grundarfjörð en þar býr vinafólk okkar, Pétur og Eva ásamt börnum sínum. Með í för voru líka vinir okkar, Sævar og Hafdís, ásamt sínum börnum. Við áttum mjög góðan dag á Grundarfirði. Það var reyndar alveg ömurlegt veður þannig að við vorum nánast bara innivið. Engu að síður mjög skemmtilegur dagur og kvöld Cool

IMG_5815[1]

Mynd dagsins er tekin á Grundarfirði í dag. Þarna erum við öll að spila bingó en það var auðvitað mikið fjör og mikil spenna.


Líkkista frá árinu 1211

Föstudagur 25. september 2009

Í nótt gisti ég á hinum sögufræga stað Skálholti, sem var valinn sem fundarstaður fyrir fund sem ég þurfti að sækja í tengslum við vinnu mína (sjá færslu gærdagsins). Það er nú varla hægt að koma í Skálholt án þess að velta sér amk aðeins upp úr allri sögunni sem staðnum tengist. Við fórum að sjálfsögðu í skoðunarferð um staðinn enda miklar og merkilegar minjar og munir þarna að sjá og ýmsar fróðlegar og skemmtilegar sögur sem okkur voru sagðar. Af öllu því sem við skoðuðum vakti nú mesta athygli mína steinkista sem Páll Jónsson biskup var jarðaður í en hann lést nokkru áður en play-station tölvurnar komu á markað eða árið 1211! Það er nú ekki á hvejum degi sem maður sér svo gamlan grip, hvað þá eitthvað úr Íslandssögunni. Kistan fannst við uppgröft í Skálholtskirkjugarði í ágúst 1954. Að sjálfsögðu er svo til saga af því að þegar átti að opna kistuna nokkrum dögum síðar, að viðstöddu fjölmenni. Þá gerði skyndilega svo brjálað veður að mannskapurinn varð flýja inn og nokkrir ofurhugar opnuðu svo kistuna einherjum vikum síðar. Fundinum mínum í Skálholti lauk svo um hádegisbilið og þá var brunað beint í vinnuna þar sem maður var fram eftir degi.

 

IMG_5809[1]

Mynd dagsins er af hinni stórmerkilegu líkkistu Páls biskups í Skálholti, sem lést árið 1211. Alveg magnað fyrirbæri! 


Að syngja tíðir

Fimmtudagurinn 24. september 2009

Eftir hádegi í dag lá leið mín Skálholt þar sem ég þurfti að sækja fund tengdan vinnunni. Þó ég hafi nú ekki oft komið í Skálholt, er alltaf sérstök en skemmtileg upplifun að koma á þennan sögufræga stað. Kl. 18 var gert fundarhlé og fundargestir drifnir út í kirkjuna til að aðstoða við að syngja tíðir. Að syngja tíðir er örstutt kirkjuleg athöfn sem tveir aðilar (eða tveir hópar) syngjast á, ásamt bæn og fleira tengdu guðs orði. Það sem er nú merkilegt við þetta er að tíðir, sem eru katólskur siður, hafa verið sungnar í Skálholti frá 13. öld og því er nú nokkuð forvitnilegt fyrir túrista eins og mig með mikinn áhuga á landinu og sögu þess, að upplifa svona viðburð. Tíðirnar eru sungnar tvisvar á hverjum degi, allt arið um kring, kl 9 og kl 18. Efnisskráin er nokkuð misjöfn eftir því hverjir eru viðstaddir (þ.e. vanir tíðasöngvarar) og fjölda gesta. Þar sem það var bara einn formlegur forsöngvari við tíðasönginn í dag var dagskráin frekar einföld. En þá hefur maður prófað þetta - að vera viðstaddur þegar sungnar eru tíðir í Skálholtskirkju.

 

IMG_5807

Mynd dagsins er tekin við Maríu-hluta Skálholtskirkju nú í kvöld og sýnir Kristinn Ólason rektor Skálholtsskóla að viðhalda hinum forna sið að syngja tíðir. Altarið er frá tímum Brynjólfs biskups sem var í Skálholti á 17. öld.


Hádegisfundur með gömlum félaga

Miðvikudagurinn 23. september 2009

Í hádeginu í dag hitti ég Guðjón Gunnarsson, gamlan félaga og vin úr Háskólanum. Við smelltum okkur á veitingastaðinn Ruby Tuesday í Skipholtinu og fórum yfir stöðu mála hjá hvorum öðrum enda allt of langt síðan við hittumst síðast. Síðust ár höfum við reynt að hittast reglulega og oftast notað hádegið til þess.

gudjon

Mynd dagsins er tekin á Ruby Tuesday í hádeginu í dag þar sem við Guðjón félagi minn áttum góða stund!


Hey! Settu niður kartöflur - Hey! þær koma upp!

Þriðjudagur 22. september 2009

Seinni partinn í dag fór ég með sonunum tveimur, Ágústi Loga og Magnúsi Árna, í heimsókn til ömmu og afa á Akranesi. Aðaltilgangur heimsóknarinnar var að taka upp kartöflur en í vor settu þeir bræður niður í sitt hvort kartöflubeðið í bakgarðinum á Bjarkargrundinni hjá ömmu sinni og afa. Uppskeran var mjög góð, yfir 8 kíló af kartöflum úr hvoru beði en minna en kíló af útsæði fór í hvort beð. Það verða því nýjar og gómsætar kartöflur í matinn hjá okkur næstu daga Smile Eftir garðvinnuna var boðið upp á grillaða blá-keilu áður en haldið var í Mosfellsbæinn aftur.

IMG_5775[1]

Mynd dagsins er tekin úti í kartöflugarði í bakgarðinum á Bjarkargrundinni. Þarna eru piltarnir ásamt Magnúsi afa sínum í kartöfluupptökunni og virðast menn bara vera nokkuð stolltir af uppskerunni!


Karlar sem hata konur

Mánudagur 21. september 2009

Í kvöld fórum við Inga í bíó og sáum myndina "Karlar sem hata konur". Þess mynd hefur verið mjög umtöluð nú í sumar en myndin er gerð eftir samnefndri metsölubók sænska rithöfunarins Stieg Larsson. Myndin mun vera vinsælasta mynd sem gerð hefur verið á Norðurlöndum. Það skil ég nú bara mæta vel. Ég er reyndar ekki búinn að lesa bókina en myndin var hreint alveg mögnuð og áhrifarík.

IMG_5776[1]

Mynd dagsins er tekin fyrir utan kvikmyndahúsið Regnbogann nú í köld en þar fórum við Inga í bíó. Það er mjög gott þegar kvimyndahúsin bjóða upp á níu-bíó eins og í gamla daga. Fyrir fjölskyldufólk er kl. 20 eiginilega of snemmt og kl. 22 dálítið seint.


Stefnan sett á Strandirnar!

Sunnudagur 20. september 2009

Eftir hádegi í dag brugðum við fjölskyldan okkur í kaffi til Ívars og Elínar, vinafólks okkar í Hafnarfirði. Þar var okkur boðið upp á gómsætar vöfflur, heimabakað brauð og fleira bakkelsi. Það er alltaf gaman að hitta þau hjónin og börnin tvö, Margréti og Jóhann. Reyndar verður að viðurkennast að heimsóknin hafði líka annan tilgang en að gúffa í sig vöfflum. Við Ívar erum í ferðanefnd gönguhópsins Hvatbera (sjá færslur 27.-29. júní 2009). Við fáum því það vandasama hlutverk að velja og skipuleggja ferð fyrir gönguhópinn næsta sumar. Við spjölluðum lengi um málin enda margar hugmyndir sem koma til greina. Við vorum þó öll sammála á endanum um að stefna á Strandirnar næsta sumar. Hópurinn fór á Hornstrandir sumarið 2006 en þá var gengið úr Hornbjargsvita yfir í Reykjafjörð í alveg hreint frábærri ferð. Nú er hins vegar planið að ganga hina leiðina í Reykjafjörð. Ferðin mun þá hefjast í Norðurfirði á Ströndum og leiðin liggur þaðan og yfir í Reykjafjörð sem er hreint alveg himneskur staður. Þetta verða 3-4 dagar á göngu og svo er spurning hvort fólk bætir við sig einhverjum dögum í Reykjafirði í restina. En amk spennandi gönguferð framundan næsta sumar!

IMG_0322

Mynd dagsins er úr Reykjafirði. Þessi skemmtilegi fjörður á Hornströndunum er alger paradís, í raun algert "must" fyrir alla Íslendinga að koma þarna einu sinni á ævinni. Þarna býr fjölskylda á sumrin og staðurinn býður upp á friðsæld, hina fínustu sundlaug og frábæra náttúrufegurð Smile


Síðasta grill sumarsins

Laugardagur 19. september 2009

Við fjölskyldan ákáðum bara að taka það rólega í kvöld, þó að við höfum bardúsað ýmislegt skemmtilegt í dag. Við höfum verið á miklum faraldsfæti síðustu helgar og svo verður einnig þær næstu. Það var því ágætt á eiga eitt rólegt laugardagskvöld saman þar sem við grilluðum lambafilé, borðuðum ís og nammi, og horfðum á skemmtilega fjölskyldumynd. Þetta var jafnframt síðasta grillið í sumar því næstu daga munum við smella grillinu og garðhúsgögnunumí inn fyrir veturinn.

IMG_5767[1]

Mynd dagsins er tekin úti á palli nú undir kvöld þar sem húsbóndinn er við störf í líklegast síðasta grilli sumarsins.


Sögur af lyfjafræðingum

Föstudagur 18. september 2009

Í hádeginu í dag fór ég og hitti nokkra félaga mína úr lyfjafræðinni, en allt frá því ég var í Háskólanum að læra lyfjafræðina höfum við um 10 félagar haldið hópinn og hist reglulega. Í dag varð veitingastaðurinn VOX, á hótel Nordica fyrir valinu þar sem við gæddum okkur á ljúffengu háegishlaðborði meðan góðar sögur voru látnar fjúka.

pakl
 

Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum VOX í hádeginu í dag. Á myndinni eru Bjarni, Toggi, ég, Skúli og Bjössi. Mjög skemmtilegt!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband