30.8.2009 | 21:03
Bæjarhátíðin byrjar vel!
Föstudagur 28. ágúst 2009
Nú undir kvöld hófst bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima. Hátíðin var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum og hefur vaxið jafnt og þétt með hverju ári. Bænum er t.d. skipt í fjóra hluta og íbúar í hverju hverfi hvattir til að skreyta hýbýli sín með hverfislitunum. Við erum í gula hverfinu og í dag var búið að skreyta mikið í götunni okkar og í nágrenninu. Reyndar er það svo að síðan þessi skreytingahefð var sett af stað hefur gula hverfið ávalt sigrað í keppninni um mestu og bestu skreytingarnar. Í kvöld var bæjarhátín sett á torginu og svo var skundað í skrúðgöngu yfir í Ullarnesbrekkur þar sem tendruð var brenna og brekkusöngur fór fram. Um 1.000 manns voru á svæðinu og fórum við öll fjölskyldan og skemmtum okkur vel.
Mynd dagsins er af nágrönnum okkar, Halla og Ólínu ásamt Ingu. Þau standa hér við gulan bíl þeirra hjóna sem notaður var til að leiða skrúðgönguna í kvöld en skrúðgangan er hverfaskipt og íbúar skreyta sjálfa sig í lit þeirra hverfis. Halli, Ólína, Inga, Magnús Árni og Elísabet (dóttir þeirra hjóna) tróðu sér í gula bílinn og tóku að sér skrúðgöngustjórnunina sem tókst mjög vel. Myndin er tekin þegar þau hafa lagt bílnum og eru að koma út. Því miður var ég ekki með myndavél , þannig að gæðin á mynd dagsins eru ekki góð. Engu að síður var mjög gaman að sjá bílinn koma og hina litskrúðugu skrúðgöngu fylgja á eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2009 | 00:04
Góður dagur fyrir Westan
Fimmtudagur 27. ágúst 2009
Í dag var ég á ferð um sunnanverða Vestfirði vegna vinnu minnar. Auk fundahalda skoðaði ég meðal annars nýlega og vaxandi kísilþörungaverksmiðju á Bíldudal. Fór svo í Sjóræningjahúsið á Patreksfirði sem er mjög gaman að koma í en það er gömul smiðja sem verið er að breyta smá saman. Virkilega ánægjulegt og mæli með að fólk kíki í Sjóræningjahúsið ef ferðinni er heitið á Patró. Ég tók svo ferjuna Baldur frá Brjánslæk og yfir í Stykkishólm með viðkomu í Flatey en ég hef ekki siglt með Baldri áður. Þetta var skemmtilegur dagur!
Mynd dagsins er af Flatey á Breiðafirð tekin úr flóabátnum Baldri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2009 | 23:45
Fyrsti skóladagur Magnúsar Árna
Miðvikudagur 26. ágúst 2009
Dagurinn í dag er aldeilis stór dagur i lífi Magnúsar Árna. Hann er að byrja í 6 ára bekk hér í Lágafellsskóla. Við Inga fórum með honum í morgun, hittum kennarann og fengu stundatöfluna. Magnús þekkir flesta í bekknum og er gríðarspenntur að byrja.
Mynd dagins verður auðvitað að vera að skólapiltinum Magnúsi Árna á fyrsta skóladeginum. Búinn að fá nýja skólatösku. Ekkert smá flottur strákur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2009 | 21:22
Kominn unglingur á heimilið...
Þriðjudagur 25. ágúst 2009
Í dag varð eldri sonurinn á heimilinu, Ágúst Logi, formlega lýstur sem "unglingur" en í dag hóf hann nám í 8. bekk (= unglingadeild) í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum. Búið er að stokka upp bekkjunum þannig að nýjir bekkjarfélagar biðu kappans í dag. Ágúst er þó með flestum bestu vinum sínum áfram í bekk og flesta í árgangnum þekkti hann fyrir, þannig að ekki ættu að vera mörg ókunnug andlit í bekknum. Það er pínu sjokk fyrir okkur foreldrana að eiga svona gamalt barn en þetta er víst gangur lífsins
Mynd dagsins er af Ágústi Loga á fyrsta skóladeginum sem "unglingur"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2009 | 23:30
Búningaleikur
Mánudagur 24. ágúst 2009
Það er gaman að leika sér Seinni partinn í dag horfði ég á Magnús Árna son minn og Elísabetu vinkonu hans í "búningaleik" en þá klæða þau sig í alls kyns búninga og sprikla um allt hús - sífellt að skipta. Þau voru, semsagt, í búingaleik í dag meðan ég horfði á kvennalandsleikinn í fótbolta, Ísland-Frakkland. Alveg ótrúlega fyndið að sjá þau í mismunandi búningum en við höfum gegnum árin komið okkur upp góðu búningasafni fyrir krakka.
Mynd dagins er af Magnúsi Árna prins og Elísabetu Tinnu prinsessu í búningaleik í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2009 | 23:19
Þessi Bruno!
Sunnudagur 23. ágúst 2009
Í kvöld fórum við Ágúst Logi í bíó. Við sáum myndina Bruno með stórleikaranum Sacha Baron Cohen. Sællar minningar um hina velheppnuðu mynd leikarans um Borat, var maður búinn að búa sig undir hvað sem er á hvíta tjaldinu. Og það var líka eins gott að vera vel undirbúinn því, vægast sagt, er ýmislegt er gert til að halda athyglinni. Við feðgar hlógum ansi mikið af myndinni, þó ég hafi reyndar tekið eftir að hann hló oft á allt öðrum stöðum en ég. Hefði líklegast ekki farið með piltinum á myndina ef ég vissi nákvæmlega um hvað hún væri - en engu að síður hin skemmtilegasta afþreying ef maður tekur sjálfan sig ekki of alvarlega. Vil nú ekki spilla fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina með því að rekja söguþráðinn hér.
Mynd dagsins er af austurísku tískulöggunni Bruno sem var aðalnúmerið í bíóferð kvöldsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2009 | 11:38
Komist í mark á Menningarnótt!
Laugardagur 22. ágúst 2009.
Ég vaknaði eldsnemma í morgun enda stór dagur framundan. Markmið dagsins var að uppfylla gamlan draum og hlauga 21 km hálfmaraþonhlaup í Reykjavíkurmaraþoni en það hef ég aldrei gert. Ég var reyndar ekki búinn að æfa neitt mjög markvisst fyrir þetta. Hef reyndar alltaf reynt að halda mér í ágætis formi og núna í sumar var farið einstaka sinnum út að hlaupa, mjög ómarkvisst þó. Kl. 8:40 hófst hlaupið og ég var bara í góðum gír. Fyrri hluta hlaupsins var ég að hlaupa mun hraðar en ég er vanur og fékk aðeins að finna fyrir því síðustu 6-7 km þegar ég þurfti að hægja nokkuð á mér. Hlaupið gekk þó gríðarlega vel og ég allra náði bjartsýnasta markmiði mínu, var undir 1 klst og 45 min sem þýðir að ég var að hlaupa hvern km á rétt tæplega 5 min. Inga og strákarnir hlupu svo saman 3 km skemmtiskokk þannig að öll fjölskyldan kom heim með verðlaunapening. Ég var ekki mikið til stórræðanna eftir hádegi en skellti mér í heitan pott og horfði á litla fótboltaliðið í Mosó, Hvíta riddarann, keppa og vinna spennadi leik í 3. deildinni en sigurinn tryggði liðinu sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Mamma og pabbi komu í kvöldmat og svo héldum við fjölskyldan niður í miðbæ til að taka þátt í Menningarnóttinni. Eftir flugeldasýninguna var haldið heim á leið eftir skemmtilegan dag og kvöld!
Mynd dagsins tók Inga af mér að koma í mark í hálfmaraþoninu. Alltaf gaman að ná markmiðum og sérstaklega þegar það verður í samræmi við björtustu vonir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2009 | 11:18
Ánægjulegt afmæli!
Föstudagur 21. ágúst 2009

Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2009 | 23:02
"Síðasta kvöldmáltíðin"
Fimmtudagurinn 20. ágúst 2009
Guðrún mágkona, sem býr í Þýskalandi, hefur verið á Íslandi síðustu 3 vikur eða svo. Stóran hluta þessa tíma hefur hún haft aðsetur hér hjá okkur, þó hún hafi verið á fleygiferð um allt land. Í kvöld hélt hún til baka til Þýskalands. Það er alltaf gaman að hafa Guðrúnu í heimsókn enda venjulega líf og fjör í kringum hana. Nú í kvöld borðuðum við saman "síðustu kvöldmáltíðina" áður en Inga og strákarnir skutluðu henni í Leifsstöð. Guðrún vildi endilega fá að velja og elda kvöldmatinn. Fyrir valinu var Tex-Mex veisla sem Guðrún töfraði fram, strákunum sérstaklega til mikillar gleði.
Mynd dagsins er af okkur fjölskyldunni og Guðrúnu mágkonu við kvöldmatarborðið í kvöld. Nú er bara að byrja telja niður þangað til Guðrún kemur næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2009 | 19:08
Vetrarstarfið skipulagt
Miðvikudagurinn 19. ágúst 2009
Í hádeginu í dag hittumst við nokkrir félagar og fengum okkur að borða saman. Fyrir utan að eiga góða stund saman var ætlunin að ræða aðeins vetrarstarf í félagsskap sem við erum í, sem ber hið merka nafn club 71 (sjá færslur 4. júlí og 23. maí). Það var mikið bollalagt og skeggrætt og spennandi vetrarstarf framundan í klúbbnum
Þar sem ég var ekki með neina myndavél á mér í dag ákvað ég bara að hafa mynd dagsins af hinum ágæta veitingastað Laugaás en þar átti ég góða stund með góðum félögum í hádeginu í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)