Algerir sykurpúðar!

Mánudagurinn 4. ágúst 2014

Þá er Verslunarmannahelgin á enda þetta árið. Við fjölskyldan höfum verið í miklu fjöri en góðu yfirlæti í Biskupstungum (sjá færslur síðustu daga).

Í dag var fínasta veður og í hádeginu var ákveðið að grilla sykurpúða. Það er alveg klassískt hjá yngri kynslóðinni þó ég verði að viðurkenna að þessi réttur þyki mér ekki góður. Að loknu sykurpúðaáti var kominn tími á að pakka niður Verslunarmannahelginni. Á leiðinni heim var komið við í Reykholti hjá höfðingjanum Hauki Daðasyni og svo kíkt kaffi í Miðhúsaskógi hjá kunningjum okkar Berglindi og Rikka sem þar eru að reisa sumarhús.

sykurpúðar 

Mynd dagsins sýnir afkvæmin Svandísi Erlu og Magnús Árna að grilla sér sykurpúða í hádeginu í dag. Fínn endir á flottri helgi að gúffa í sig ljúffengum sykurpúðum. Það var því ánægð en velþreytt fjölskylda sem skreið inn um dyrnar hér heima um kvöldmatarleitið í kvöld - glæsileg helgi að baki Cool  


Fjórar systur!

Sunnudagurinn 3. ágúst 2014

Líkt og síðustu ár, erum við fjölskyldan í útilegu þessa Verslunarhelgina, með stórfjölskyldunni í Sporðinum í Biskupstungum, sem er landareign í eigu tengdapabba. Þarna er auðvitað margt skemmtileg brallað alla helgina (hægt að sjá fleiri myndir frá helginni á feisbúkk hjá Ingu).

Inga á þrjár systur. Það er ekki mjög oft sem þær eru allar fjórar saman um Verslunarmannahelgina en það gerðist núna. Systurnar eru búsetar á víð og dreif eða nánar tiltekið: Mosfellsbæ, Akureyri, við Flúðir og Þýskalandi. Það er því jafnan mikið líf og fjör þegar þær eru allar saman.

DSC01300 

Mynd dagsins er að Ingu og systrum hennar sem eru allar samankonar í útilegu þessa Verslunarmannahelgina. Það er ekki of oft sem þær eru allar saman og því er alveg þess virði að smella í eina góða mynd. Þessi er tekin í grillveislu sem við vorum í nú í kvöld. Frá vinstir: Kristín Erla, Inga, Guðrún og Jóna (Ragnheiður Jóna). Flottar systur Cool


Sporðameistarinn í stígvélakasti!

Laugardagurinn 2. júní 2014

Nú er blessuð Verslunarmannahelgin runnin upp. Venju samkvæmt erum við stórfjölskyldan samankomin á landareign Ingimars tengdapabba í Biskupstungum, sem kallast Sporðurinn. Þar eru stórar grasflatir í góðu skjóli trjáa og fjallegt að tjalda eða breiða út fellihýsi. Á dögunum var fjárfest í 32 fermetra samkomutjaldi og þar má troða fjölda manns inn ef ekki viðrar vel.

Það var mikið fjör í dag í ágætisveðri og seinni partinn var grillað og farið í leiki. Flestir í yngri hluta hópsins fór svo á tónleika á Flúðum með Ljótu hálfvitunum en við eldra fólkið slógum bara í góða kvöldvöku með söng og harmonikkuleik þar sem ýmsir góðir gestir kíktu í heimsókn. 

DSC01203 

Mynd dagsins er tekin á kvöldvökunni nú í kvöld þar sem fjölskyldan er saman komin í árlegri Verslunarmannahelgarútilegu í Sporðinum í Biskupstungum. Þarna er verið að keppa í stígvélakasti. Rúnar Ingi (sonur Jónu, systur Ingu) bar sigur úr býtum með því að kasta stívélinu lengsta vegalengd. Þetta er gert með því að sveifla stígvélinu afturábak gegnum klofið og framyfir sig (yfir bakið) og er það hreint ekki auðvelt - og allir áhorfendur eru í hættu því stígvélið getur farið í allar áttir þegar misgóðir kastarar reyna sig í þessari skemmtilegu íþrótt Grin  Stígvélið sjálft má sjá ofarlega til hægri á myndinni.


3.858 skrúfur!

Föstudagurinn 1. ágúst 2014

Undanfarið hef ég verið að vinna endurbótum á pallinum við húsið hjá okkur. Það hefur ekki verið vanþörf á því hann þarf bæði að skrúfa allan upp á nýtt og mála. Við höfum verið að dúllast við þetta í sumar og gengið hægt (en örugglega). Nú undir kvöld urðu þau tímamót, að þó ennþá sé eftir að mála hluta af pallinum, er búið að skrúfa allar skrúfurnar í!

Manús Árni hefur fylgst með skrúfupakkafjallinu nú í sumar sem hefur farið lækkandi smá saman. Hann var ekki lengi að telja skrúfurnar sem hafa farið í þetta en 39 pakkar (með 100 skrúfum hver) hafa verið notaðir til verksins. Með því að telja skrúfurnar sem eftir eru í síðasta pakkanum komst nákvæm tala á verkefnið (við erum ekki það miklir nördar að við höfum verið að telja þetta jafnóðum Smile) þó einhverju smávægilegu getið skeikað þar sem það gæti verið að nokkrar skrúfur hafi týnst í verkferlinu

 

DSC01392 

Mynd dagsins er tekin í garðinum hjá okkur í dag þar sem ég er að skrúfa síðustu skrúfurnar í endurbótaferlinu á pallinum okkar - 3.858 skrúfur takk! Smile


Hreppslaug, hin eina sanna

Fimmtudagur 31. júlí 2014

Það er sjaldgæft að allir í fjölskyldunni sofi fram að hádegi á sama deginum en það gerðist í dag. Við erum á Hvanneyri í Borgarfirði, í fjölskylduútilegu með saumaklúbbnum hennar Ingu. Það fór víst enginn snemma að sofa í gær og því var bara ljómandi fínt að allir gátu sofið út í dag.

Eftir hádegið hélt öll hersingin (nánast) á merkan stað sem ég hef ekki komið á í tæp 20 ár. En það er hin eina sanna Hreppslaug sem staðsett er í Skorradal, skammt frá Hvanneyri. Hreppslaug er meira en lítið sögufræg en hún var steypt 1928 og er að mér skilst fyrsta 25 m laugin sem steypt var á Íslandi. Þarna er nægt heitt vatn sem rennur í laugina og var staðarvalið sjálfsagt tilkomið vegna þess. Þetta var mikil og vinsæl sundlaug á sínum tíma en síðustu ár hefur reksturinn verið erfiður enda samkeppnin við nýrri laugar erfið. Hreppslaug er friðuð og er henni haldið opinni um helgar yfir sumartímann.

Það er mjög gaman fyrir okkur Ingu að koma í laugina þar sem Inga var að vinna þarna í tvö sumur sem unglingur, einmitt á sama tima og við vorum að byrja að kynnast. Maður fór því ófáar ferðirnar í þessa sundlaug á sínum tíma. Einhverra hluta vegna höfum við ekki komið þarna við árum saman og því var mjög gaman að kíkja í laugina.

Hreppslaug 

Mynd dagins er tekin í Hrepplaug í Borgarfirði í dag. Við erum þar í fjölskylduútilegu með saumaklúbbnum hennar Ingu og flestir þáttakendur brugðu sér í sund. Gaman að rifja upp kynni við þessa sögufrægu sundlaug og það í mjög skemmtilegum félagsskap Grin


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband