Stormurinn stutti

Fimmtudagurinn 14. ágúst 2014

Nýlega áskotnaðist okkur í fjölskyldunni nýtt fjölskylduspil. Við erum töluvert mikið fyrir að spila og því var gaman að fá nýtt spil, sérstaklega þar sem það gengur alveg fyrir þriggja ára og eldri.

Spilið heitir Litle Storm (veit ekki íslenskt nafn) sem kalla mætti Stormurinn stutti. Þetta er einfalt og skemmtilegt spil sem öll fjölskyldan getur spilað.

DSC01518 

Mynd dagsins er af okkur Svandísi Erlu og Magnús Árna að spila nýja spil fjölskyldunnar um Storminn stutta (Litle Storm) sem er bara hin ágætasta skemmtun Smile


Svandís fer í Krikaskóla!

Miðvikudagurinn 13. ágúst 2014

Í dag var stór dagur hjá Svandísi Erlu því í dag byrjaði hún í nýjum skóla, Krikaskóla. Þó hún sé alveg yndisleg má ekki skilja þetta þannig að hún sé þvílíkt ofurbarn að hún sé að byrja í 1. bekk rétt rúmlega þriggja ára, heldur er svo í pottinn búið að Krikaskóli, hér í Mosfellbænum, er hugsaður sem samfelldur skóli fyrir börn frá tveggja ára og upp í 4. bekk grunnskóla.

Þar sem við fluttum í vetur hér milli í hverfa í Mosfellbænum og nýja heimilið okkar er staðsett bara alveg við Krikaskóla, lá beinast við að Svandís Erla mynd fara í þennan nýlega og flotta skóla. Það er mjög þægilegt fyrir okkur þar sem hún þarf ekki einu sinni að fara yfir götu til að komast í skólann.

Stóri dagurinn var semsagt í dag og þar sem Inga var óvenju upptekin í vinnunni í dag fékk ég að fylgja Svandísi Erlu fyrsta daginn. Okkur leist mjög vel á nýja skóla og krakkana þannig að eftir rúman klukkutími samþykkti Svandís alveg að ég færi aðeins í burtu og myndi sækja hana í hádeginu. Þá var hún hin ánægðasta og fékk að vera lengur þangaði til Magnús bróðir og Svandís amma komu og sóttu hana.

DSC01526 

Mynd dagsins er af Svandís Erlu fyrir utan Krikaskóla í morgun en í þennan skóla mun Svandís ganga næstu sjö árin. Fyrsti dagurinn í nýja skólanum gekk rosalega vel hjá Svandísi Erlu en hún var sofnuð rétt fyrir kl 8 í kvöld, dauðþreytt eftir skemmtilegan dag Smile


Hlaupið fyrir Dag Kára

Þriðjudagurinn 12. ágúst 2014

Þá er ekki aftur snúið. Í kvöld skráði ég mig loksins til þáttöku í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer 23. ágúst n.k. Vegalengdin verður hálft maraþon (21,1 km) og markmiðið verður að vera á undir 1 klst og 45 min. Ég hef ekki tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu síðan 2011 en það ár, rétt eins og árið 2010, lét ég gossa í heilt maraþon og komst lifandi í mark í bæði skiptin.

Í fyrsta skipti ætla ég að taka þátt í áheitasöfnun í þessu hlaupi. Þar er úr mörgum mjög góðum málefnum að velja, þó ég sé nú alveg á síðustu metrunum í þessu þar sem svo stutt er í hlaupið. Ég hef reyndar fengið nokkrar góðar tillögur og væri til í að hjálpa mörgum - en á endanum var það Eva Dögg, samstarfskona mín á Hrafnistu, sem fékk mig til að taka þátt í að styrkja ungan dreng sem heitir Dagur Kári.

Í kynningartexta um Dag - styrktarfélags Dags Kára segir: Dagur Kári Kristinsson er lífsglaður 7 ára strákur. Hann er með CP sem í hans tilfelli lýsir sér í mjög lágri vöðvaspennu og þroskaskerðingu, auk flogaveiki. Dagur Kári situr ekki uppréttur og á erfitt með að halda höfði, hann talar ekki og tjáir sig lítið nema með svipum og hljóðum. Hann fer ferða sinna utandyra í hjólastól fjölskyldunnar. Markmið félagsins er að safna fé til að kaupa þau hjálpartæki sem létta líf hans, en Tryggingastofnun tekur ekki þátt í. Fyrsta verkefnið er að fjármagna undirvagnslyftu á fjölskyldubílinn til að auðvelda honum bílferðir með fjölskyldunni.

Ekki slæmt að leggja þessu góða máli lið og ekki spillir fyrir að faðir drengsins er af Skaganum og móðirsystir hans og amma vinna báðar á Hrafnistu. Vonandi næ ég að leggja eitthvað örlítið í púkkið. Þeir vilja gera það líka fara inn á hlaupastyrkur.is og velja nafnið mitt eða slóðina www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=23137

 

 dagur Kári

Mynd dagsins er tekin á hlaupaæfingu kvöldsins hér í Mosfellsbænum en þarna er ég að hlaupa eftir Skarhólabrautinni sem er hér rétt við húsið. Í Mosó er að finna fjöldan allan af góðum og skemmtilegum hlaupaleiðum þannig að þegar veðriði er gott er engin afsökun fyrir að fara ekki út að hlaupa. Reykjavíkurmaraþonið er framundan og vonandi næ ég að láta eitthvað smávegis gott af mér leiða í leiðinni Smile


Út að borða!

Mánudagurinn 11. ágúst 2014
 
Dagurinn í dag er líklega besti dagur sumarins hingað til, amk hér í Mosfellsbænum. Það átti því vel við að þetta væri fyrsti vinnudagurinn minn eftir gott sumarfrí. Veðrið var þó ennþá brakandi gott þegar ég kom heim þannig að það var ýmislegt hægt að gera til að njóta veðurblíðunnar þó ég hafi verið meira og minna innilokaður allan daginn.
 
 
DSC01483 
 
Mynd dagsins er tekin í sólinni í kvöld þar sem við fjölskyldan erum úti að borða kvöldmatinn í orðsins fyllstu merkingu. Því miður hefur sumarið verið þannig að það hafa ekki gefist mörg tækifæri til að borða úti í sumar, en við nýttum tækifærið sannarlega í kvöld.


Litla Humar-hátíðin!

Sunnudagurinn 10. ágúst 2014

Seinni partinn í dag fengum við góða gesti í heimsókn en það voru Sigga móðursystir mín og Steen maðurinn hennar ásamt foreldrum mínum. Sigga og Steen búa í Danmörku en eru alltaf dugleg að koma til Íslands og gera það amk 2-3svar á ári. Þau eru alltaf dugleg að heimsækja okkur þegar þau koma og við áttum öll skemmtilegan dag saman þar sem karlkynið spilaði meðal annars borðtennis í drjúga stund. Kannski þurfti nú ekki mikið til að fá Siggu og Steen í heimsókn í þetta skiptið þar sem við vorum búin að lofa þeim lítilli Humarhátíð, þar sem við skelltum góðum hrúgum af humri á grillið með miklum sósum og kryddlegi sem Inga hafði útbúið.

DSC01465

Mynd dagsins er tekin í stofunni heima nú í kvöldmatnum þar sem við fengum góða gesti í heimsókn til að borða með okkur humar; þau Siggu móðursystur mín og Steen sem búa í Danmörku. Mjög skemmtilegur dagur þar sem við meðal annars gæddum okkur á grilluðum humri Smile


Sól, sól, skín á mig!

Laugardagurinn 9. ágúst 2014

Loksins er góða veðrið komið, enda kannski ekki seinna vænna þar sem nokkuð er liðið á ágúst mánuð. Það var meðvituð ákvörðun fjölskyldunnar að vera bara heima í rólegheitum þessa helgina eftir töluvert mikil ferðalög síðustu daga.

Það var því kærkomið að láta sólina skína á sig í dag og njóta veðurblíðunnar. Mynd dagsins er af okkur Svandísi Erlu í heita pottinum þar sem við drukkum í okkur sólina og D-vítamín í fínni stemningu í dag Cool

DSC01459 


Sniglast í jarðaberjunum!

Föstudagurinn 8. ágúst 2014

Seinni partinn í dag fór ég með Magnúsi Árna til foreldra minna upp á Akranes. Þar vorum við að aðstoða við ýmis störf í garðinum hjá þeim.

Þau hafa yfir að ráða nokkuð stóru jarðaberjasvæði sem smá saman hefur verið að ræktast upp í tímans rás og er farið að gefa vel af sér. Nú er jarðaberjatíminn að byrja og því alltaf gaman að koma í heimsókn og fá glæný jarðaber.

Eitt af því sem þarf að gera ef maður er að rækta jarðaber er að verja þau vandlega því margir fleiri en við mannfólkið erum sólgin í þau. Meðal annars þarf að veiða snigla. Magnús Árni kallaði mig sérstaklega til að skoða risastóran snigil sem afi hans hafði veitt í sniglagildru en þessi snigill er með þeim stærri sem maður hefur séð, amk þarna í garðnum.

snigill 

Mynd dagsins er af sniglinum stóra sem var að sniglast í jarðaberjagarðinum hjá foreldrum mínum á Skaganum nú í dag. Því miður fyrir hann var hann veiddur í sérstaka snigla-gildru áður en hann gat gert mikinn óskunda í jarðaberjunum. Stærð snigilsins er áhugaverð, með þeim stærri sem maður hefur séð þarna í garðinum. Til að róa dýraverndunarsinna skal skýrt tekið fram að sniglarnir fá frelsi annars staðar í garðinum eftir að þeir veiðast í sniglagildrurnar Smile


Brúðkaupsafmæli þjófstartað!

Fimmtudagurinn 7. ágúst 2014

Á morgun eigum við Inga brúðkaupsafmæli. Af praktískum ástæðum var ákveðið að halda upp á það í kvöld, frekar en annað kvöld. Ég reyndi að vera eitthvað smá rómantískur og eftir vinnu hjá Ingu í dag bauð ég henni í smá ferðalag og út að borða, sem bara heppnaðist ágætlega held ég Smile

Það var árið 1998 eða fyrir 16 árum sem við gengum upp að altarinu á blíðviðrisdegi út í Viðey. Þar áttum við góða stund í faðmi fjölskyldu og vina. Það var því gaman að minnast þess í kvöld og allra þessara ára sem við höfum átt saman. Ansi margt gerst á þessum tíma, langflestallt mjög skemmtilegt, og því hefur þetta liðið mjög hratt.

brúðkaupsafmæli 

Mynd dagsins er af henni Ingu minni en í kvöld bauð ég henni út af borða í tilefni af 16 ára brúðkaupsafmæli okkar sem er reyndar á morgun (08.08.98). Ég er lukkunar pamfíll að hafa náð í þessa einstöku konu Cool 


Að láta koma sér á óvart...

Miðvikudagurinn 6. ágúst 2014

Í kvöld ákváðum við Magnús Árni að horfa á eina bíómynd saman. Magnús valdi fyrir okkur mynd sem ég man nú ekki eftir að hafa heyrt um áður en myndin heitir "Now you see me" og skartar ýmsum stórleikurum. Hún frumsýnd fyrir um ári síðan.

Í stuttu máli gengur söguþráðurinn út á að hópur ofursnjallra töframanna notar hæfni sína til að ræna banka og fleira, og eltingaleik lögreglunnar við að hafa hendur í hári þeirra. Handritið er kannski ekkert voðalega gott en fyrir unnendur góðra töfrabragða er myndin mjög áhugaverð. Við Magnús Árni erum báðir miklir áhugamenn um töfrabrögð og því var þessi mynd bara þrælskemmtileg. Fyrirfram bjóst ég ekki við neinu og því kom myndin skemmtilega á óvart og úr varð hin besta skemmtun.

Töfrasýningar hafa verið að komast nokkuð í tísku aftur hin síðustu ár, sérstaklega eftir nokkur frábær atriði í sjónvarpsþáttum eins og "America's got talent" og "Britain's got talent". Ég hef alltaf haft gaman að því þegar mér er komið á óvart. Það gerist gjarnan þegar maður sér gott töfraatriði og botnar ekkert í því hvernig maður plataður upp úr skónum.

Töfrasýningar og myndin sjálf, varpa svo alltaf upp áhugaverðum spurningum um mannlegt eðli og mannshugann. Þá á ég við hvernig hægt er að blekkja augað og fá fólk til að trúa, jafnvel þó það viti betur. Stórleikarinn Woody Harrelson, sem fyrst varð frægur í sjónvarpsþáttunum Staupasteini, leikur til dæmis ansi slunginn hugsanalesara. Handritshöfundarnir hafa greinilegt lagt nokkra vinnu í þessa persónu þar sem skýrt kemur fram í myndinni að hann les auðvitað ekki hugsanir fólks, heldur er gæddur afburðahæfni að lesa úr viðbrögðum fólks við því sem hann segir. Um þetta fyrirbæri í mannlegum samskiptum gæti ég svo skrifað langan pistil en læt hér staðar numið Smile

nowyouseeme

Mynd dagsins fengin af láni af veraldarvefnum og er kynningarmynd fyrir kvikmyndina "Now you see me" sem við Magnús Árni horfðum á saman nú í kvöld. Alltaf gaman þegar manni er komið á óvart og þrátt fyrir ýmsa galla kom þessi mynd mér skemmtilega á óvart svo úr varð hin besta kvöldskemmtun! 


Gleðigjafinn 79 ára!

Þriðjudagurinn 5. ágúst 2014

Í dag fagnar Ingimar Einarsson, tengdapabbi minn, 79 ára afmælisdeginum. Í tilefni dagsins bauð hann sínum allra nánustu til matarveislu þar sem í boði voru lambalæri með öllu tilheyrandi. Við fjölskyldan létum okkur auðvitað ekki vanta enda aðeins um klukkustundarakstur í Reykholt í Biskupstungum þar sem kappinn hefur búið síðustu árin.

Það var líf og fjör í veislunni eins og við var að búast. Það verður seint sagt að það sé ekki líf og fjör í kringum tengdapabba. Hann er án efa með merkilegri mönnum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni og margt um lífið, tilveruna og önnur mál sem gaman er að ræða við hann.

Gleðigjafinn 79 ára 

Mynd dagsins er af gleðigjafanum sjálfum, Ingimar tengdapabba, sem fagnaði 79 ára afmæli í dag. Oftar en ekki tekur hann aðeins í nikkuna ef gesti ber að garði og hann spilaði sjálfur undir afmælissöngnum í veislunni í kvöld. Merkismaður þarna á ferðinni og sannarlega gleðigjafi! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband