"Dómarann í sturtu!"

Þriðjudagur 18. apríl 2009

Undanfarin ár hef ég öðru hverju verið fenginn til að vera dómari í leikjum yngri flokka hjá knattspyrnudeild Aftureldingar hér í Mosfellsbæ. Það er langt því frá að ég sækist eftir miklum frama á þessum vettfangi heldur kemur þetta til að illri nauðsyn því flest knattspyrnufélög eru oft í miklum vandræðum að fnna dómara á leiki sína. Fyrir nokkrum árum tókum við okkur til, nokkrir pabbar, og fórum á dómaranámskeið þanng að það myndaðist kjarni af dómurum hér í Mosfellsbæ. Dómgæslan er líka ágætis heilsurækt enda mældi einn í hópnum að í venjulegum leik sé dómarinn að hlaupa 5-8 km. Dómarastarf er þó eitt vanþakklátasta starf sem til er enda fá dómarar sjaldnast hrós, í besta falli þögn. Oft er verið að tuða og koma með aðfinnslur sem sjaldnast eiga við rök að styðjast. Yfirleitt er þó bara gaman að fara út að hlaupa í fríska loftinu og gera íþróttafélaginu gagn í leiðinni. Í kvöld fór ég á knattspyrnusvæðið á Tungubökkum hér í Mosfellsbæ þar sem ég dæmdi leik í 3. flokki karla (15-16 ára). Afturelding beið þar lægri hlut fyrir Þrótti. Það var í mörg horn að líta í dómgæslunni eins og oft vill verða hjá þessum aldursflokki, enda ungir menn sem eru að sligast undan hormónaflæði Smile

domari

Mynd dagsins er af dómaranum mér með rauða spjaldið á loft en ég varð, því miður, að lyfta því tvisvar á loft í leik kvöldsins. 


Feðgakvöld

Mánudagur 17. ágúst 2009

Í dag fóru Inga og Magnús Árni, ásamt Guðrúnu mágkonu, í heimsókn á Hvanneyri meðan ég fór í vinnuna. Þar sem hvanneyrsku ferðalangarnir komu ekki fyrr en seint í kvöld og ég var að vinna alveg framundir kvöldmat, ákvað ég að bjóða Ágústi út að borða enda var hann búinn að vera einn heima í dag. Fyrir valinu varð American style við Bíldshöfða.

IMG_5505

Mynd dagsins er af Ágústi Loga á American Style nú í kvöld. Ágúst fékk sér ostborgara en ég borðaði af heilsumatseðli staðarins kjúklingabringu, bakaða kartöflu og hrásallad Cool

 

 

 


Grillveisla til heiðurs hjólreiðahetjum

Sunnudagur 16. ágúst 2009

Mestur hluti dagsins fór í að mála þakkantinn (sjá færslu gærdagsins). Því miður kom rigning seinni partinn þannig að verkefnið kláraðist ekki. Í staðinn stukkum við fjölskyldan upp í bíl og keyrðum í sumarbústað fjölskyldunnar í Úthlíð. Þar var að byrja grillveisla til heiðurs Ágústi Loga og Bryndísi frænku en þau tóku sig til í dag og hjóluðu frá Mosfellsheiði, gegnum Þingvelli, yfir Lyngdalsheiðina og alla leið í Úthlíð, alls 56 km!!! Eftir hjólatúrinn skelltu þau sér í pottinn og við fjölskyldan áttum góða stund með Bryndísi, mömmu og pabba yfir grillaðri grísasteik. Svo voru hjólreiðagarparnir, ásamt hjólum, keyrðir til baka í Mosfellsbæinn.

IMG_5499[1]

Mynd dagsins er af hjólreiðagörpunum Ágústi Loga og Bryndísi. Þarna eru þau komin á pallinn í Úthlíð eftir alls 56 km hjólreiðar - ótrúlega flott hjá þeim Smile  


Að þekja þakkantinn

Laugardagur 15. ágúst 2009

Það er heilmikið maus að eiga hús og garð. Það er sífellt nóg af verkefnum og alltaf virðist vera nóg eftir. Í dag tókum við Inga okkur til og byrjuð að mála þakkantinn á húsinu. Við þurftum reynda að hætt undir kvöldmat þegar byrjaði aðeins að rigna. Við vonumst nú til að geta klárað þetta á morgun ef vel viðrar. Þá eigum við reyndar eftir alla glugga og hurðir en það verðu hægt að kroppa í eftir þörfum fram á haust. Við tókum það svo bara rólega í kvöld.

IMG_5493[1]

Mynd dagsins er af mér við málningarstörfin. Fljótlega fékk ég tvær brúnar skellur á andlitið og Ingu fannst tilvalið að smella af mynd sem sýnir þær, þó etv sé erfitt sé að greina þær nema stækka myndina Wink


Þriggja stafa múrnum sagt stríð á hendur

Föstudagur 14. ágúst 2009

Jæja, þá er komið að því. Næstu þrjá mánuði ætlar kallinn í þyngdartapsátak. Ég hef lengi verið að gaufast rétt yfir 100 kg múrnum og sama hvað maður reynir, ekkert hefur gengið að komast undir hann. Það er þó rétt að taka fram að ég hef ekkert gert neitt mjög markvissar tilraunir til þess. Ég hef samt alltaf verið mjög duglegur að hreyfa mig þannig að hreyfingarleysið er alls ekki vandamálið. Hins vegar er það mataræðið sem verður nú skerpt til muna næstu 3 mánuðina. Mín ástkæra Inga ætlar að sjá um að stjórna þessum málum, endar tengist þygdarstjórnin heilmikið hennar starfi á Reykjalundi. Hún er komin með formúlur sem reikna út kaloríurnar í helstu matvælum og ætlunin verður að ég haldi matardagbók á tímabilinu. Markmiðið er að í lok tímabilsins verði ég 95-98 kg og fari síðan í framtíðinni alls ekki yfir þriggja stafa múrinn. Þetta er því alls um 8-10 kg sem maður þarf að lækka sig um á tímabilinu. Hljómar ekkert sérstaklega mikið og nú þarf bara að klára málið Cool

vigt

Mynd dagsins er af vigtinni góðu. Formlega hefst baráttan á mánudaginn þannig að maður hefur helgina í "aðlögun".


Bleikar rósir

Fimmtudagur 13. ágúst 2009

Við erum með nokkrar rósir í garðinum okkar. Með hverju árinu verða þær stærri og glæsilegri, og æ fleiri springa út. Nú eru hávertíð hjá rósunum þannig að rósarunnarnir eru í miklum blóma þessa dagana. Þetta eru nokkrar tegundir en nöfnin þekki ég nú ekki. Mynd dagins gefur sýnishorn af rósunum í garðinum - og auðvitað er engin rós án þyrna Smile

IMG_3381[1]
 

Landsleikur á Laugardalsvelli

Miðvikudagur 12. ágúst 2009

Mamma og pabbi komu í kvöldmat til okkar auk Guðrúnar mágkonu. Ákveðið var að grilla fisk; keilu og steinbít - alveg dúndurgott. Á eftir fór ég á Laugardalsvöll ásamt pabba og sonunum tveimur, Ágústi Loga og Magnúsi Árna. Tilgangurinn var að sjá knattspyrnulansleik Íslands og Slóvakíu sem þar fór fram. Leikurinn fór fram í fínasta veðri og var hin ágætasta skemmtun þó ég geti fúslega viðurkenntað ég hafi horft á skemmtilegri knattspyrnuleiki. Leikurinn endaði 1-1.

IMG_5331[1]

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna, Ágústi Loga og pabba í stúkunni á Laugardalsvelli, á landsleik Íslands og Slóvakíu nú í kvöld.


Skokkað í Skammadal

Þriðjudagur 11. ágúst 2009

Í kvöld brá ég mér út að hlaupa. Þar sem ég hef ekkert verið of duglegur að hreyfa mig undanfarið ákvað ég að taka vel á því í þetta skiptið. Fyrir valinu var skemmtileg hlaupaleið, um 15 km, sem ég fer einstaka sinnum en þá hleyp ég um Mosfellsbæ og gegnum Skammadal. Þetta er fallegur, lítill dalur sem liggur úr Mosfellsdal, á bakvið fjallið Helgafell og afmarkast af fjallinu Reykjaborg á hina hliðina. Skammidalur einkennist af fjölda lítilla sumarhúsa sem þar standa, en sjálsagt hefur þessi dalur hýst sumarhýsi fyrir höfuðborgarbúa í áratugi.

IMG_5337[1]

Mynd dagsins er úr Skammadal þar sem ég skokkaði (og brenndi kaloríum) nú í kvöld Smile  Myndir sýnir sýnishorn af þessum fjölmörgu, litlu sumarhúsum sem þar er að finna.


Magnús fær nýtt rúm

Mánudagur 10. ágúst 2009

Nú í kvöld höfum við Inga verið sveitt að skrúfa saman nýtt rúm fyrir Magnús Árna. Gamla rúmið var orðið asni lítið enda kappinn orðinn 6 ára. Í verslunarferð gærdagsins var því splæst í nýtt rúm sem Magnús valdi sjálfur, reyndar með dyggri aðstoð okkar foreldrana.

IMG_5329[1]

Mynd dagsins sýnir Magnús Árna í nýja rúminu sem hann er gríðarlega ánægður með. Í leiðinni erum við aðeins að gera breytingar á skipulagi herbergisins, þannig að herbergið er ansi tómlegt eins og er.  


Planið planað

Sunnudagur 9. ágúst 2009

Verslunarferð var á dagskrá fjölskyldunnar í dag. Við það var líka staðið því upp úr hádeginu var ég dreginn af stað í verslunarferð í hinar ýmsustu búðir. Við vorum komin heim rétt fyrir kvöldmat og merkilegt hvað ég entist við þetta. Ég þarf þó ekki að kvarta, ekki mjög oft sem ég þarf að skrölta í búðirSmile

IMG_5324[1]

Í kvöld fórum við Inga í bíltúr að skoða innkeyrslur í Mosfellsbænum. Nú erum við nánast ákveðin í að láta helluleggja innkeyrsluna hjá okkur á næstu vikum en planið okkar er ennþá ófullgert. Það þarf hins vegar að spá og spuglera mikið áður en farið er af stað - plana planið vel. Mynd dagsins er af innkeyrslunni eins og hún er í dag. Vonandi get ég sýnt mynd af tilbúinni hellulagðri innkeyrslu  eftir nokkrar vikur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband