Sól & grill, sól & grill, sól & .....

Föstudagur 10. júlí 2009

Er hægt annað en að slá upp grillveislu í svona veðri? Svarið er nei, svo við bara gerðum það. Í kvöld komu yfir til okkar nágrannarnir Halli og Ólína með börnin sín þrjú, Margeir, Jón Árna og Elísabetu Tinnu. Á grillið var skellt lambakjöti og grís. Þegar á kvöldið leið dró Inga fram ís og fleira gúmmolaði sem féll í góðan jarðveg. Tíminn leið hratt í góðra vina hópi en þegar leið á kvöldið bættust við vinafólk okkar, Jóhanna og Elvar. Áður en við vissum af var klukkan orðin tvö. Eins gott að barnanefndaryfirvöld sjái ekki þessa síðu því allir krakkarnir voru þá ennþá vakandi þó sumir væru orðnir dálítið þreyttir Smile

IMG_1618[1]

Mynd dagsins er tekin á pallinum hjá okkur í kvöld, rétt áður en byrjað var að gæða sér á steikunum. Á myndinni eru frá vinstri: Halli, Jón Árni, Elísabet Tinna, Magnús Árni, Ágúst Logi, Inga og Ólína. Á myndina vantar unglinginn Margeir (og mig!). Mjög skemmtilegt kvöld í góðum félagsskap Cool


Töffarar á rúntinum

Fimmtudagur 9. júlí 2009

Seinni partinn í dag á leiðin niður á knattspyrnusvæðið á Tungubökkum hér í Mosfellsbænum en þar voru Ágúst Logi og félagar í Aftureldingu að fara að keppa við Njarðvík. Suðurnesjamenn sóttu ekki gull í greipar Mosfellinganna því okkar menn unnu leikinn 8-1. Strax eftir leikinn skutlaði ég Ágústi og Arnari vini hans niður í verslun Europris við Korputorg þar sem hópur knattspyrnukrakka í Aftureldingu var að aðstoða við vörutalningu en Ágúst og Arnar eru að safna sér fyrir þátttöku í knattspyrnumótinu ReyCup sem haldið verður í lok mánaðarins. Að vörutalningunni lokinni fórum við feðgar, ég og Ágúst, á rútinn niður í bæ enda aðrir fjölskyldumeðlimir sofnaðir snemma. Við kíktum á Laugarveginn og Austurvöll þar sem var fullt af fólki og víða setið útivið enda kvöldið mjög fallegt. Þó heilmikið væri af Íslendingum á ferli voru þó útlendingar í meiri hluta og gaman var að keyra framhjá Ingólfstorgi þar sem var nú hreinlega ekki þverfótað fyrir flottum mótorhjólum.

BæjarinsBestu

Þar sem við feðgar vorum eiginlega ekkert búnir að borða kvöldmat í kvöld stoppuðum við, að töffara sið, á menningarþúfunni "Bæjarins bestu" og fengum okkur sitt hvora með öllu nema hráum. Mynd dagsins er einmitt af Ágústi Loga þar fyrir utan.


Gómsætt grill eftir Laugavegsundirbúning

Miðvikudagurinn 8. júlí 2009

Seinni partinn í dag var ég á skemmtilegum fundi í húsnæði Ferðafélags Íslands í Mörkinni. Fundarefnið var 5 daga gönguferð um "Laugaveginn" sem ég mun fara í, í næstu viku. Þar verði ég fararstjóri, ásamt Ingimar tengdapabba. Löngu er orðið uppsellt í ferðina en í hópnum erum 20 manns. Í dag var haldinn stuttur undirbúningsfundur fyrir ferðina þar sem við fórum yfir helstu atriði tengd ferðinni og hvað þarf að hafa í huga við undirbúninginn. Eftir fundinn komu Ingimar og Anna (tengdó) í kvöldmat til okkar og við skelltum ljúffengu lambakjöti á grillið ásamt pylsum, enda var fínasta veður.

IMG_1610[1]

Mynd dagsins tók Inga í kvöld úti á palli hjá okkur þar sem grillmeistarinn mikli er á leiðinni inni með kjet og pylsur fyrir kvöldverðinn nú í kvöld. Maður er bara að komast í fínasta gír fyrir Laugavegsferðina í næstu viku og farinn að verða spenntur Smile


Fallegt sólarlag í Hrafnshöfðanum

Þriðjudagur 7. júlí 2009

Á sumarkvöldum getur sólarlagið oft verið mjög fallegt séð af pallinum okkar í hér Hrafnshöfðanum, en Hrafnshöfði er gatani sem við búum við í Mosfellsbænum. Í kvöld var sólarlagið mjög skemmtilegt. Sjálfsagt á ég langt í að verða ljósmyndaséní en vonandi skilar þessi mynd einhverju af fallegri stemmingu kvöldsins.

 

IMG_1070[1]

Tönn fyrir tannálfinn

Mánudagurinn 6. júlí 2009

Magnúsi Árna gekk mjög illa að sofna í gærkvöldi. Ástæðan var sú að nú er báðar stóru framtennurnar í eftri góm lausar. Eftir mikið fjaðrafok og aðgerðir, losnaði loks lausari tönnin. Venju samkvæmt í fjöslkyldunni var tönnin sett undir koddan og tannálfurinn kallaður til. Hann kom svo í nótt og sett samviskusamlega pening undir koddan í tanngjald. Aldrei þessu vant skildi tannálfurinn samt tönnina eftir og vild að Magnús Árni myndi eiga tönnina sjálfur - skrýtið!?!

IMG_1609[1]

Mynd dagsins er af tannlausa piltinum Magnús Árna sem er nú orðin aðeins "smámæltur" eftir að vera kominn með þetta skemmtilega skarð Smile


Vöfflukaffi í helgarlokin

Sunnudagur 5. júlí 2009

Við fjölskyldan dvöldum hjá mömmu og pabba á Skaganum í nótt (sjá nánar í bloggfærslu gærdagsins) en um helgina fór þar fram hátíðin "Írskir dagar". Þegar allir fjölskyldumeðlimir voru vaknaðir, var skundað í Skógræktina þar sem lokadagskrárliðir hátíðarinnar fóru fram; hoppukastalar fyrir börnin, Brúðubíllinn o.fl. Við fórum svo á Bjarkargrundina í vöfflukaffi áður en haldið var til baka í Mosó. Við karlanir á heimilinu skelltum okkur þá í sund til að þvo af okkur ryk þessarar skemmtilegu helgar áður en haldið er inn í nýja viku.

IMG_1603

Mynd dagsins er tekin í dag í vöfflukaffi á Bjarkargrundinni hjá mömmu og pabba. Sorrý, dálítið dökk.


Brekkusöngur og Lopapeysuball á írskum dögum

Laugardagur 4. júlí 2009

Í dag fórum við fjölskyldan upp á Akranes og tókum þátt í bæjarhátíðinni "Írskir dagar" sem stendur yfir þessa helgina. Eftir að hafa skoðað risastórt markaðssvæði og drengirnir höfðu farið hamförum í litlu ferðatívolíi, var grillað á Bjakargrundinni hjá mömmu og pabba í ljómandi fínu veðri þó ekki væri mikil sól. Um kvöldið fórum við svo á Brekkusöng á íþróttavellinum þar sem Eyjólfur Kristjánsson stjórnaði fjöldasöng. Þessi dagskrárliður var samvinnuverkefni milli Lopapeysuballsins og nokkurra sprelligosa úr vinahóp mínum, Club'71 (sjá færslu 23. maí) og haldið í fyrsta skipti í ár. Við renndum því alveg blint í sjóinn hvað kæmu margir og hvernig til tækist. Þetta fór þó allt á besta veg; ég hafði verið plataður til að vera kynnir og þegar ég kynnti Eyjólf til leiks voru mörg hundruð manns mættir. Áður en yfir lauk, rétt fyrir miðnættið, voru komnir vel yfir þúsund manns. Eyfi náði upp miklu stuði og þetta framtak heppnaðist gríðarleg vel. Á eftir fórum við Inga svo á hið fræga Lopapeysuball þar sem yfir 3000 manns voru og við hittum fjöldan allan af gömlum vinum og kunningjum. Við tjúttuðum svo fram á nótt við undirleik Bubba og EGO, og svo Sálarinnar hans Jóns míns sem hætti ekki að spila fyrr en rétt fyrir fjögur. Þá var nú líka kominn tími fyrir okkur skötuhjúin að halda heim eftir skemmtilegan dag og frábært kvöld (og nótt) Smile

IMG_1595[1]

Mynd dagsins er frá brekkusöngnum í kvöld. Eyjólfur er í rauðri úlpu lengst til hægri og eins og sjá má var dágóður fjöldi á svæðinu, um 1200 manns - og mikið gaman að sjálfsögðu!


Barist um bikarinn

Föstudagur 3. júlí 2009

Dagurinn í dag var einn hlýasti dagur ársins. Alveg brakandi blíða þó það væri ekki stöðug sól. Eftir hádegið tók ég (tengt vinnu minni) þátt í árlegri púttkeppni milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og heimilisfólks Hrafnistu í Hafnarfirði. Við Hrafnistu í Hafnarfirði er staðsettur 18-holu púttvöllur sem er eitt vinsælasta tómstundagaman heimilsfólks yfir sumartímann. Í keppninni er keppt um farandbikar og svo eru líka verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokkum. Í fyrra var bæjarstjórnin tekin alveg í bakaríið í mótinu og Hrafnista hirti öll verðlaunin, þannig að undanfarna daga hefur ríkt mikil spenna um hvað bæjarstjórinn og hans fólk gæti gert til að rétt sinn hlut. Mótið tókst mjög vel og var hið skemmtilegasta í blíðunni. Hafnfirskir bæjarstjórnarmenn náðu nú aðeins að blanda sér í baráttuna um verðlaunsætin þetta árið en á endanum náði Hrafnistufólkið að verja bikarinn SmileSmileSmile

IMG_1563[1]

Mynd dagsins er af mér og Lúðvíki bæjarstjóra í Hafnarfirði að togast á um pútt-bikarinn. Skömmu síðar var tilkynnt að hann hefði lent í höndum Hrafnistu í Hafnarfriði. Mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu Smile


Ljúffeng lambalæri

Fimmtudagur 2. júlí 2009

Í kvöld buðum við fjölskyldan allra nánustu ættingjum og nágrönnum í grillveislu í tilefni af 13 ára afmæli Ágústar Loga í síðustu viku. Við höfum ekki haft tíma til að halda þetta fyrr en nú en það var ekkert verra fyrir því. Hægt var vera úti á palli og boðið var upp á lambalæri, grillaðar kartöflur, grillaðar sætar kartöflur og sallat og sósur af ýmsu tagi. Með kaffinu var svo dísæt frönsk súkkulaði kaka með jarðaberjum, rjóma og ís. Átveislan heppnaðist bara vel og allir fóru saddir og sælir heim Smile

IMG_1503[1]

Mynd dagsins er úr veislunni í kvöld. Herbergi afmælisdrengsins laðaði krakkana að meðan þeir fullorðnu ræddu landsins gagn og nauðsynjar inni í stofu. Þessi mynd sýnir flesta krakkanna sem voru í veislunni í kvöld. Frá vinstri: Ástmar, Magnús Árni, Kristinn Þór, Anna Dagbjört, Þorsteinn og Guðmar. Ágúst Logi er í forgrunni.


Tjaldað úti í garði

Miðvikudagurinn 1. júlí 2009

Í dag var fínasta veður hér í Mosó. Ágúst Logi var settur í að slá garðinn og eftir það fékk hann að sækja bróður sinn snemma á leiksskólann. Þeir bræður ætluðu að tjalda úti í garði sem þeir og gerðu. Mikið sport og stuð á drengjunum við þetta. Dýnur, bækur og fleira dót var komið inn í tjaldið þegar við foreldrarnir komum heim seinni partinn - mjög skemmtilegt Cool

IMG_1500[1]
 

Mynd dagsins er af Magnús Árna og Elísabetu vinkonu hans að leika í tjaldinu úti í garði í dag - brjálað stuð Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband