10.6.2009 | 00:02
Sumarfríið byrjað á sýklaheimsókn
Þriðjudagurinn 9. júní 2009
Sumarfríið hans Ágústar Loga byrjaði formlega í gær. Það byrjaði nú kannski ekki nógu skemmtilega þar sem undir kvöld var kappinn komin undir sæng strax eftir kvöldmat með hausverk og flökurleika. Þetta versnaði frameftir kvöldi en undir miðnætti tókst honum að loks að sofna. Í dag tók Ágúst Logi rólega og hafði það bara nokkuð gott undir sænginni - las bækur, spilaði PlayStation o.fl. Hann var allur að braggast seinni partinn og alveg til í að vera á ljósmynd dagsins.
Mynd dagsins er því af sumarleyfisdrengnum Ágústi Loga undir sæng að láta sér batna. Þó sumarfríið hafi ekki byrjað vel var hann nú allur að braggast nú undir kvöld, búinn að fá Halla vin sinn í heimsókn og verður klár í slaginn á morgun til að byrja sumarfríið með stæl!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2009 | 23:46
Félaginn mikli, hún Feisbúkk
Mánudagurinn 8. júní 2009
Ég held að ég verði að hafa einn dag í ljósmyndadagbókinni minni tengdan vefsíðunni facebook.com. Ég hef verið skráður notandi þar síðan í byrjun febrúar á þessu ári. Feisbúkk er alveg magnað fyrirbæri þar sem maður getur ræktað vini og vandamenn um allan heim. Ég ætla svo sem ekki að vera lýsa þessu tengslaneti eitthvað frekar hér. Hins vegar get ég sagt að þetta er mjög skemmtilegt og maður getur fylgst með og haft samband fjölda aðila sem maður hefur kynnst á lífsleiðinni. Suma af "vinum" mínum hafði ég ekki heyrt eða séð jafnvel í áratugi. Feistbúkkina þarf þó að nota varlega, hún getur verið alger tímaþjófur en mjög sniðug ef maður heldur sig innan skynsamlegra marka.
Mynd dagsins er af mér við töluvuna að feisbúkkast. Feisbúkkinn er merkilegt fyrirbæri sem getur verið mjög skemmtilegt ef það er notað í hófi!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2009 | 21:17
Minningaöldur Sjómannadagsins
Sunnudagur 7. júní 2009
Í dag var Sjómannadagurinn og þá er í mörg horn að líta í tengslum við vinnu mína. Ég byrjaði daginn í minningarathöfn um drukknaða sjómenn sem haldin er við "Minningaröldurnar" við Fossvogskirkjugarð. Svo var ég mættur í Sjómannamessu í Dómkirkjunni áður en haldið var í ferð með Ingu minni milli hátíðarhalda á Hrafnistuheimilunum en þar er jafnan mikið um dýrðir á þessum degi.
Mynd dagsins tók ég við Minningaröldurnar við Fossvogskirkjugarð en á þetta minnismerki eru letruð nöfn allra sjómanna sem drukknað hafa síðustu áratugi. Á sjómannadaginn er árlega haldin stutt minningarathöfn og lagður blómsveigur hinum látnum sjógörpum til heiðurs. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar standa heiðursvörð við athöfnina ásamt dómsmálaráðherra en þau voru að þessu sinni aðstoðuð af sjóliðum af norsku herskipi. Þetta var mjög tignarleg og falleg athöfn. Myndin sýnir Einar Jónsson trompetleikara leika við athöfnina við minningaröldurnar og í baksýn er heiðursvöðurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 21:16
Síkátir sjóarar
Laugardagur 6. júni 2009
Vegna starfa minna fyrir Sjómannadagsráð (eiganda Hrafnistuheimilanna) fórum við Inga nú í kvöld á árlegt Sjómannadashóf. Hófið var að þessu sinni haldið á hótel Nordica Hilton. Þar var boðið upp á glæsilega þriggja rétta sjómannamáltíð. Veislustjórn var í höndum hins eina sanna Gísla Einarssonar fréttamanns, og Örn Árnason leikari og Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir sáu um skemmtiatriðin. Á eftir var dansleikur fram á nótt. Við Inga skemmtum okkur vel í góðum hóp en vorum þó komin snemma heim þar sem framundan er strembinn dagur.
Mynd dagsins er frá Sjómannadagshófinu á hótel Nordica Hilton. Þarna voru sjómenn, makar og ýmsir snillingar. Þrátt fyrir að vita engin deili á þessum köppum valdi ég þessa mynd til að minna mig á að lífið á að vera skemmtilegt. Þessir síkátu sjóarar eru greinilega alveg með það á hreinu en þeir stilltu sér upp í myndatöku með höfðingjanum Bigga Björgvins og eiginkonu hans
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2009 | 21:52
5 ára MBA-endurfundir
Föstudagur 5. júní 2009
Í dag eru nákvælega, upp á dag, 5 ár síðan ég útskrifaðist úr MBA námi í Háskóla Reykjavíkur. Ég var þar við nám 2002-2004 en námið miðaðist við að hægt væri að vinna samhliða. Við vorum 28 saman í bekk og var námið með sérstakri áherslu á mannauðsstjórnun. Þetta var rosalega fínn hópur og námið var mjög skemmtilegt þó það hafi tkið gríðarlegan tíma á meðan á því stóð. Í kvöld var ákveðið að halda upp á tímamótin. Ein úr hópnum, Bára Mjöll, bauð okkur heim til sín í Kópavoginn. Á grillið var skellt nautasteik, skötusel og kjúklingi og meðlætið var mjög við hæfi. Við áttum sman frábæra kvöldstund þar sem farið var yfir helstu fréttir af fólkinu, þjóðmálin voru krufin - og ekki síst rifjaðar upp ýmsar skrýtnar og skemmtilegar sögur úr skólanum.
Mynd dagsins er úr MBA-endurfundaboðinu. Við tókum enga sérstaka hópmynd en til að minna mig á þetta skemmtilega boð valdi ég þessa fínu mynd af Ingu og skólasystrum mínum, þeim Hrönn og Sigrúnu Birnu. Í baksýn grillir í veisluborðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2009 | 21:51
21 sinni Illgresi
Fimmtudagur 4. júní 2009
Síðustu tvær vikur hef ég tekið þátt í skemmtilegu verkefni í vinnunni. Það fólst í því að heimsækja heimilisfólk á öllum hjúkrunardeildum Hrafnistuheimilanna fjögurra. Með mér í för var Guðmundur Ólafsson leikari sem setti saman 20 mínútna dagskrá upp úr ljóðabókinni Illgresi sem er eftir Magnús Stefánsson sem reyndar notaði skáldanafnið Örn Arnarson. Magnús orti töluvert af þekktum ljóðum, sérstklega meðal eldri kynslóðarinnar. Í dag er "Hafið bláa, hafið" sjálfsagt hans þekktasta ljóð (ljóðið heitir reyndar "Sigling"). Við heimsóttum heimilisfólk á öllum deildum eða 21 heimsókn alls. Hugmyndin var að það myndi skapast heimilisleg stemming inn á hverri deild, ekki síst hjá þeim sem veikastir eru. Ég held að það hafi tekist vel og það var mjög gaman að eiga stund með heimilisfólkinu sem var mjög þakklát fyrir framtakið.
Mynd dagsins er af Guðmundi Ólafssyni leikara að flytja efni úr Ljóðabókinni Illgresi á einni hjúkrunardeild Hrafnistuheimilanna. Mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni með Guðmundi sem gerði þetta gríðarlega vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2009 | 22:36
Borgari á Búllunni
Miðvikudagurinn 3. júní 2009
Í dag fórum við feðgarnir á Dalbrautina og heimsóttum langömmu (= ömmu mína) sem verður hvorki meira né minna en 100 ára síðar í þessum mánuði. Meira um hana síðar þegar stórafmælið verður. Eftir heimsóknina - og þar sem Inga var að vinna fram á kvöld - fórum við feðgar á einn skemmtilegasta veitingastað landsins, Hamborgarabúlluna niður við höfn. Þeir bræður voru að koma þarna í fyrsta skipti en ég hef komið þarna 3-4 sinnum áður gegnum tíðina. Við feðgarnir borðuðum allir "Tilboð aldarinnar" sem er hamborgari að hætti hússins með frönskum og kók - hrikalega gott stundum Það er ótrúlega sérstakt að koma inn á þennan stað, sennilega minnsta veitingastað landsins (í fermetrum). Mjög sérstök stemming þarna inni og hún bara jókst þegar Magnús þurfti á klósettið, þá var okkur hleypt inn fyrir afgreiðsluborðið fram hjá eldsteikjandi kokkunum og inn í smáholu innst í húsinu. Innréttingarnar eru alveg snilld, andrúmsloftið kúl og maturinn fínn. Mæli með að fólk geri sér hreinlega menningarferð inn á þennan stað
Mynd dagsins er af Magnúsi og Ágústi á Hamborgarabúllunni að snæða "Tilboð aldarinnar". Mjög gaman að koma á þennan veitingastað sem óhætt er að kalla einn óvenjulegasta veitingastað landsins!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2009 | 19:35
Lífspeki Dalai Lama
Þriðjudagur 2. júní 2009
Í dag fórum við Inga í Laugardalshöll að hlýða á fyrirlestur Dalai Lama, trúarleiðtogans frá Tíbet, sem staddur var hér á landi. Uppselt var á viðburðinn og líklegast um 3000-5000 manns. Held að það sé svo sem ekki ástæða til að rekja hér sorglega sögu um yfirgang Kínverja í Tíbet, útlegð Dalai Lama og friðsamlega baráttu hans fyrir þjóð sína. Fyrirlestur eða spjall Dalai Lama var mjög áhugavert og var í stuttu máli um að tileinka sér góðar venjur og atferli í leiðinni að lífshamingjunni. Sannarlega áhugaverður maður og ekki annað hægt en að heillast af lífsspeki þeirri sem maðurinn lifir eftir. Mjög áhugavert.
Þar sem ekki var leyft að taka myndir inni í Laugardalshöll á fyrirlestri Dalai Lama, ákvað ég að velja mynd af röðinni fyrir utan Laugardalshöll sem mynd dagsins. Allt þetta fólk var að bíða eftir að komast inn. Röðin gekk nú bara ótrúlega vel en hún náði nánast út af hringtorginu við Ásmundarsafn þegar lengst var. Ein stærsta röð sem ég hef séð hér á landi en fyrir flesta, líklegast þess virði að bíða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2009 | 19:22
Gleðilega garðyrkju
Mánudagur 1. júní 2009
Stóran hluta dagsins í dag vorum við Inga að vinna í garðinum. Það þurfti að slá, arfinn byrjaður að spretta víða um héruð og ýmsilegt smálegt sem þarf að sinna. Ágúst fór að keppa seinni partinn og fórum við Magnús Árni að horfa. Þegar heim var komið voru grillaðir kjúklingaleggir sem runnu ofan í mannskapinn.
Mynd dagsins er tekinn í garðinum þar sem sláttustörf standa yfir. Fínn dagur og allt stefnir í að nóg verði um gleðilegar garðyrkjustundir í sumar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2009 | 00:16
Afmælisveisla á Hvanneyri
Sunnudagur 31. maí 2009
Í dag fórum við fjölskyldan upp á Hvanneyri, nánar tiltekið í Fífusund. Þar búa tengdaforeldrarnir Anna og Ingimar en Anna á einmitt afmæli í dag. Okkur var boðið í þetta glæsilega afmælishlaðborð áður en fjölskyldan hélt í ævintýragönguferð kringum Vatnshamravatn sem er við Fífusund. Við vatnið er mikið fuglalíf og sáum við nokkrar tegundir af fuglum, fundum hreiður, sáum litla unga og einhverjir göngugarpanna festust í drullunni (sumir oftar en aðrir). Veðrið var glæsilegt og eftir góða útiveru héldu tengdó á hótel Hamar og fóru út að borða í tilefni dagsins, en við héldum heim á leið með viðkomu á Skaganum. Horfðum reyndar á fína íslenska bíómynd seint um kvöldið, Sveitabrúðkaup. Eiginlega einum of vitlaus en samt þrælfyndin mynd.
Mynd dagsins er frá afmælisveilsunni á Hvanneyri. Frá vinstri: Ingimar, Anna afmælisbarn, Ágúst Logi, Inga og Magnús Árni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)