Tölt að Tröllafossi

Laugardagurinn 30. maí 2009

Við fjölskyldan höfðum "letidag" fyrri hluta dagsins í dag. Hriklega þægilegt stundum og við fórum ekki úr náttfötunum fyrr en eftir hádegi þegar ákveðið var að við myndum skella okkur í gönguferð inn í Mosfellsdal. Nánar tiltekið tókum við okkur til og gengum upp með mjög fallegu gili Leirvogsár sem endar við mjög glæsilegan foss sem heitir Tröllafoss. Veðrið var hið fínasta og á leiðinni sáum við mjög ágenga krumma, nokkur brotin egg sem höfðu orðið fyrir barðinu á þeim og fallegar hvítar rjúpufjaðrir. Eftir að hafa farið ofan í gilið á nokrum stöðum, skoðað fossinn og vaðið í lækjum á leiðinni, var farið í sund og loks gómsætu kjötið skellt á grillið þegar heim var komið. Tröllafoss og gilið við Leirvogsá eru mjög falleg og skemmtileg gönguleið fyrir fjölskylduna, bara steinsnar frá Höfuðborginni.

IMG_0665[1]

Mynd dagsins er af Ágústi Loga og Magnúsi Árna að vaða í einum af lækjunum sem liggja í Leirvogsá, rétt við Tröllafoss. Ótrúlegt hvað það er alltaf vinsælt hjá krökkunum að vaða og sulla - jafnvel þó vatnið sé ískallt!  Mjög skemmtilegur dagur í dag SmileSmileSmile


Fyrsti ísbíltúr sumarsins

Föstudagur 29. maí 2009

Vægast sagt brjálað að gera í vinnunni í dag. Ekkert sérstakt var planað hjá okkur í fjölskyldunni í kvöld svo Inga eldaði pizzu fyrir okkur, sem alltaf er jafnvinsæl og svo var eitthvað var glápt á sjónvarp. Veðrið var það skemmtilegt að við ákváðum að skella okkur í fyrsta ísbíltúr sumarsins.

IMG_0642[1]

Mynd dagsins er að mér og Magnúsi Árna að sleikja ísinn í fyrsta ísbíltúr sumarsins sem að þessu sinni var um nýrri hverfi Mosfellsbæjar. Ísinn var að sjálfsögðu keyptur á Snælandi.


Að halda ekki með þeim gulu á Akranesvelli...

Fimmtudagur 28. maí 2009

Einn af stórleikjum knattspyrnusumarsins (amk fyrir mig) fór fram í kvöld þegar mínir menn í Aftureldingu fóru upp á Akranes og kepptu við mína menn, Skagamenn. Í kvöld fór ég semsagt ásamt Magnúsi Árna, Ágústi og pabba að sjá ofangreindan leik í 1. deild karla. Þar sem ég hef nú síðustu áratugi séð ófáa leiki með þeim gulu á Akranesvellinum var mjög skrýtið að mæta á Skagann í rauða Aftureldingarjakkanum. Sjálfsagt hef ég heldur aldrei fengið eins mikla athygli þegar ég labbaði um stúkuna í rauða jakkanum og ófá skotin flugu á mann frá stuðningsmönnum þeirra gulklæddu. Þetta var fyrsti alvöru leikur félaganna að frátöldum æfingaleikjum. Eftir markalausan fyrri hálfleik en rigningar- og rokmikinn, náðu Skagamenn að setja inn eitt mark við mikinn fögnuð heimamanna enda hefur liðinu gengið afleitlega það sem af er sumri. Fleiri mörk voru ekki skoruð.

IMG_0633[1]

Mynd dagsins er tekin í kvöld á Akranesvelli og sýnir liðin vera búin að stilla sér upp rétt áður en flautað var til leiks. Hrikalega skrýtið að vera á Akranesvelli og halda ekki með gula liðinu. Verður mjög eftirminnilegur dagur, þó knattspyrnulega verði leikurinn ekki skráður í sögubækur fyrir knattspyrnuleg gæði. 


Kjúklingabitar á karlakvöldi

Miðvikudagur 27. maí 2009

Það er margt sem hefði verið hægt að velja í dag fyrir ljósmyndadagbókina en þar sem kvöldið fór að töluverðu leiti í að horfa á úrslitaleik meistaradeildarinnar í knattspyrnu, verður það fyrir valinu. Það voru stórliðin Barcelóna og Manchester United sem áttust við og sigraði Barcelóna 2-0. Þar sem Inga var á kvöldvakt í kvöld gátum við karlarnir á heimilinu horft á leikinn í friði Cool Afi Magnús (pabbi) kíkti í heimsókn til að horfa á leikinn með okkur og þar sem þetta var úrslitaleikurinn var ákveðið að splæsa í kjúklingabita frá KFC fyrir karlakvöldið okkar.

IMG_0629[1]

Mynd kvöldsins er af kjúklingaáti á Karlakvöldinu. Mjög góður matur með boltanum á svona karlakvöldi - sló alveg í gegn hjá okkur Smile


Út að hlaupa á afmælisdaginn hans Ástþórs

Þriðjudagur 26. maí 2009

Dagurinn í dag var nokkuð annasamur í vinnunni þar sem ég var í orðsins fyllstu merkingu að hlaupa milli funda. Þegar heim var komið hjálpaði ég Ágústi Loga að læra fyrir dönskupróf en um 10 leitið skellti ég mér út að hlaupa enda frábært útivistarverður. Svo átti ég gott spjall við Ástþór vin minn, sem á afmæli í dag, áður en sest var við tölvuna að sinna ýmsum vinnutengdum erindum.

IMG_0528

Mynd dagsins er af afmælisbarninu Ástþóri, einum besta vini mínum en hann varð 38 ára í dag blessaður karlinn. Ekki var um neina afmælisveislu að ræða í kvöld þar sem hann þurfti að vinna frameftir en úr því verður bætt um helgina. Þessa mynd af Ástþóri tók ég síðasta laugardag þegar við félagarnir vorum í sjóstangaveiði. Ansi hreint skemmtileg og ekki hægt að segja annað en Ástþór hafi verið hrifinn af aflanum Smile


Hrói Höttur fyrir svefninn

Mánudagur 25. maí 2009

Magnús Árni fór á bókasafnið í dag með mömmu sinni og kom heim með hrúgu af skemmtilegum bókum. Það var því mikið úrval í boði þegar lesa átti kappan í svefn nú í kvöld. Fyrir valinu var hin klassíska saga af Hróa Hetti í 30 ára gamalli útgáfu (eða svo) a.m.k. var þessi bók ein af mínum uppáhaldsbókum þegar ég var strákur.

IMG_0625[1]

Mynd dagsins tók Inga af okkur Magnús Árna - komnir upp í rúm að lesa Hróa Hött Smile


Skrímslin sigruðu geimverurnar!

Sunnudagur 24. maí 2009

Þó Inga hafi dregið mig út að hlaupa nettan 14 km hring í Mosfellsbænum ætla ég að tengja daginn í dag við bíóferð fjölskyldunnar. Í dag fórum við fjölskyldan í Kringlubíó og sáum stórmyndina Skrímslin gegn geimverunum (Monsters vs. Aliens). Fyrir áhugasama þá er söguþráðurinn á þá leið að geimverur vilja taka yfir jörðina. Þegar hefðbundinn herafli og vopn vinna ekki á geimverunum er farið í leyndasta fangelsi heimsins sem geymir skrímsli sem jörðin hefur alið af sér (sem eru ægilega góð inn við beinið). Samið er við skrímslin um að sigri þau geimverurnar fái þau frelsi - og að sjálfsögðu endar þetta vel og allir verða vinir - spennandi!!!

IMG_0619[1]

Mynd dagsins er að Ágústi og Magnúsi að græja sig í bíóið. Þar sem myndin er í þrívídd (3D) fengu allir bíógestir forláta gleraugu til að njóta myndarinnar - bara til öryggis skal tekið fram að Magnús borðaði ekki allt þetta popp einn SmileSmileSmile


Óvissuferð: sjóstöng og Sálarball!

Laugardagurinn 23. maí 2009

Aldeilis annasamur dagur í dag. Eftir að hafa verið dómari í fótboltamóti hjá Ágúst Loga frá kl 9-14:30 fór ég beint í óvissuferð með hópi æskufélaga af Skaganum, en hópurinn kallar sig Club'71. Við spilum saman fótbolta einu sinni í viku yfir vetrartímann og hittumst auk þess 2-3 á ári og gerum eitthvað skemmtilegt. Í dag var semsagt óvissuferð á dagskrá sem skemmtinefnd klúbbsins hafði skipulagt. Við byrjuðum á að fara upp á Akranes og skelltum okkur í sjóstangaveiði. Þegar í land var komið var farið með mannskapinn í sund og borðuðum svo fínustu nautasteik þegar leið á kvöldið ásamt glæsilegum desert. Um miðnætti fóru flestir upp í rútu og hópurinn skellti sér í Mosfellsbæinn þar sem rúmlega 700 manns voru á dansleik í íþróttahúsinu með hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns. Þetta var hrikalega skemmtilegur dagur sem heppnaðist glæsilega!

IMG_0570
 

Mynd dagsins er af hópnum að gæða sér á nautasteik. Að þessu sinni voru í hópnum (frá vinstri): Maggi, ég, Þorvaldur, Valli, Höddi Svavars, Jón Sigurðs (gestur), Siggi Sig, Auðunn, Jón Bjarni, Sævar, Jón Eiríkur, Svenni, Elvar og Doddi. Á myndina vantar Hannes og Rúnar og Ástþór og Gurra sem kíktu líka aðeins á okkur.


Fótboltavertíðin er hafin

Föstudagur 22. maí 2009

Ég var fríi í vinnunni og átti náðugan dag heimafyrir. Hápunktur dagsins verður nú að teljast þegar við feðgarnir fórum á Varmárvöll og sáum fyrsta heimaleik karlaliðs Aftureldingar á þessari fótboltavertíð. Andstæðingarnir voru lið Hauka að þessu sinni og endaði leikurinn 1-1. Afturelding voru einum færri í seinni hálfleik þannig að það var nú bara alveg ágætt að ná jafnteflinu. Það er yfirleitt mjög gaman að fara á leiki, sjá fótbolta og hitta skemmtilegt fólk. Þar sem ég er fyrrverandi formaður Knattspyrnudeildar Aftureldngar reyni ég nú að sjá flesta heimaleiki hjá meistaraflokkum Aftureldingar og aðstoða stundum við leikina. Í þessum leik var mér falið það hlutverk að taka á móti heiðursgestum leiksins, þeim Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra Mosfellsbæjar og Karli Tómasyni forseta bæjarstjórnar, og fylgja þeim inn á völlinn í upphafi leiks til að heilsa upp á leikmenn.

IMG_3801

Mynd dagsins er frá leiknum á Varmárvelli í kvöld og var tekin af blaðamanni frá fotbolti.net. Þarna er ég með Haraldi bæjarstjóra og Karli forseta bæjarstjórnar sem eru að heilsa upp á Berta fyrirliða Aftureldingar.


Pallurinn pússaður

Fimmtudagur 21. maí 2009

Nágrönnum okkar til mikillar ánægju vorum við Inga mætt út á pall í morgun kl. 8:15 stundvíslega. Markmiðið var að pússa "gólfið" á pallinum sem er við húsið okkar (um 70 fermetrar) og mála. Er þetta gert með græjum sem gefa frá sér tilheyrandi hávaða. Það er heilmikil vinna að eiga svona pall sértaklega þar sem við ákváðum í fyrra að skipta um lit á honum. Í fyrra sumar fóru ófáar vinnustundir í að pússa handriðið á pallinum. Í rauninni svo margar að við náðum ekki að klára gólfið. Nú er hins vegar komið að því að klára þetta eilífðar verkefni. Pússun á pallinum gekk vel í blíðnunni í dag og upp úr kaffi var hægt að byrja mála gólfið. Við getum svo klárað að pússa restar, mála handrið og gólf á næstu 2-3 vikum. Þá ætti fara að sjá fyrir endann á þessu risaverkefni. Smile

IMG_0511[1]

Mynd dagsins er af okkur Ingu í fullri aksjón við að pússa gólfið á pallinum. Mikið hrikalega er gott að vera búinn að ljúka þessu af Cool


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband