Góðir sigrar og vöffluát

Sunnudagur 10. maí 2009

Við fjölskyldan áttum mjög rólegan dag, í dag. Helsta verkefnið var að við fjölskyldan fórum niður á Varmárvöll upp úr hádeginu og fylgdumst með Ágúst Loga keppa með 4. flokki Aftureldingar við Selfoss. Ágúst keppti bæði með A og B-liðum þannig að dágóð stund fór í þetta. Afturelding náði mjög góðum úrslitum í báðum leikjum. Ágúst kom varla við boltann í hvorugum leiknum en hann er markmaður Aftureldingar. Þegar heim var komið smellti húsMóðirin í vöfflur sem fjölskyldumeðlimir sporðrenndu með bestu lyst. Af því að það er nú mæðradagurinn í dag er rétt að taka fram að húsmóðirin var alveg hreint svakalega dugleg í garðyrkjustörfum í dag! 

IMG_0384[1]

Mynd dagsins er að Ágústi Loga að keppa í dag. Myndin er nokkuð lýsandi fyrir þátttöku hans í leikjum dagsins. Það var mikil einstefna að marki andstæðinganna í báðum leikjunum og Ágúst var áhorfandi mest allan tímann - það er nú samt bara ágætt stundum að vinna stóra sigra Smile


Laugardagskvöld í góðum hópi

Laugardagurinn 9. maí 2009

Ég var nokkuð lengi að velja hvaða mynd ætti að vera í dag enda nokkrir skemmtilegir möguleikar í boði. Í morgun vorum við Inga með Magnús Árna í útskriftartíma í íþróttaskóla barnanna í íþróttahúsinu að Varmá. Magnús Árni hefur verið fastagestur á laugardagsmorgnum síðan hann var tæplega 3ja ára en í dag var semsagt útskriftartíminn, allra síðasti íþróttaskólatíminn.  Þar sem margar skemmtilegar myndir af Magnúsi Árna hafa orðið fyrir valinu síðustu daga ákvað ég að myndin í dag ætti frekar að tengjast kvöldinu. Þá fórum við Inga með mjög góðum vinum út að borða og svo í leikhús á eftir. Mjög ánægjulegt kvöld og þessi góði hópur, sem meðal annars myndar skemmtilegan matarklúbb, hittist bara allt of sjaldan.

IMG_0376[1]

Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum Red Chili á Laugarvegi. Á eftir fórum við í Borgarleikhúsið og sáum leikritið "Ökutímar". Ansi hreint magnað stykki!  Á myndinni eru frá vinstri til hægri: Heida, Sigrún, Hafdís, Inga, ég, Sævar, Ástþór og Erlingur.


Loksins Mr Skallagrímsson

Föstudagur 8. maí 2009

Í kvöld fór ég í Landnámsetrið í Borgarnesi að sjá leikritið Mr Skallagrímsson. Mörg undanfarin ár höfum við Anna tengdamamma haft þann skemmtilega sið að fara saman í leikhús á vordögum og víða farið í því samhengi með misstóru föruneyti. Lengi hefur verið á stefnuskránni hjá mér að sjá leikritið Mr Skallagrímsson sem hlaut 2 eða 3 Grímuverðlaun 2007. Þegar ákveðð var að sýna nokkrar lokasýningar nú í vor, biðum við ekki boðanna og stukkum af stað til að ná í miða. Mr Skallagrímsson stóð sannarlega undir væntingum, alveg frábær og skemmtileg sýning. Benedikt Erlingsson fer hreinlega alveg á kostum í þessu og engin furða að leikritið skuli hafa verið sýnt í nokkur ár (að vísu með hléum). Fimm stjörnu sýning!

IMG_0341[1]

Mynd dagsins er af þeim fríða flokki kvenna sem ég fékk að fylgja á sýninguna Mr Skallagrímsson. Myndin er tekin í Landnámssetrinu. Frá vinstri: Anna tengdamamma, Anna Dagbjört systurdóttir Ingu, Bryndís frænka og Inga.


Fararstjóranámskeið hjá Ferðafélaginu

Fimmtudagur 7. maí 2009 

Í kvöld fór á fararstjóranámskeið hjá Ferðafélagi Íslands. Ég hef nokkur undanfarin ár fiktað við að vera fararstóri í einstaka gönguferðum, aðallega ásamt Ingimar tengdapabba. Þetta er mjög gaman og í sumar ætlum við að taka að okkur að vera fararstjórar í a.m.k. einni ferð um "Laugaveginn." Á námskeiðinu í kvöld voru 20-30 fararstjórar, sumir nýjir en aðrir með áratuga reynslu. Farið var yfir ýmis hagnýt atriði sem tengjast fararstjórn og góður tími gefinn í umræður þar sem fólk skiptist á skoðunum og reynslusögum. Mjög spennandi námskeið sem kom manni aldeilis í göngugírinn fyrir sumarið. 

IMG_0336[1]

Mynd dagsins er af mér við gluggann á skrifstofu Ferðafélagsins. Þessi gluggi er nú sérstakur fyrir þær sakir að þar er risastór mynd af okkur Ingu, Kristínu vinkonu okkar og Ástþóri vini okkar ásamt Haraldi Erni fjallagarpi sem tekin er á toppi Hvannadalshnjúks árið 2005 í blíðskaparveðri. Það er ekki oft sem myndir af manni eru stækkaðar í fulla stærð og maður nýttur sem fyrirsæta. Það var því tilvalið að eiga eina mynd af afrekinu Smile


Magnús Árni lærir að hjóla

Miðvikudagur 6. maí 2009

Það var frábært veður í dag. Eftir vinnu og leikskóla fórum við Magnús Árni út í garð í vorverkin og vorum bara nokkuð duglegir. Hápunktur dagsins verður nú samt að teljast þegar við skrúfuðum hjálpardekkin undan hjólinu hans Magnúsar og hann lærði að hjóla án hjálpardekkjanna. Mjög gaman að upplifa þetta með honum og þetta gekk bara ótrúlega vel.

 

IMG_0306[1]

Á mynd dagsins sést Magnús Árni á hjólinu - búinn að læra að hjóla án hjálpardekkjanna. Hann datt nú ótrúlega lítið og var hinn duglegasti.


Strákarnir pulsa sig upp!

Þriðjudagur 5. maí 2009 

Inga var á kvöldvakt í kvöld þannig að við strákarnir vorum einir heima. Þetta gerist u.þ.b. einu sinni í viku og þá getum við haft spennandi "strákamat". Við höfum reyndar oft fisk við þessi tækifæri en í kvöld völdum við eitthvað mjög fljótlegt til að elda og borða þar sem það var spennandi fótboltaleikur í sjónvarpinu - meistaradeildin. Það var því ofan á að við fengum okkur gamla góða þjóðarrétt Íslendinga - pylsur!

IMG_2609

Mynd dagsins er að strákunum, Magnúsi Árna og Ágústi Loga að pulsa sig upp á strákakvöldi heimilisins!

 


Hversdagslegu hlutirnir eru líka skemmtilegir

Mánudagur 4. maí 2009 

Ég var nokkuð þreyttur í dag þó ég hafi sofnað vel og snemma. Vinnudagurinn hefðbundinn en skemmtilegur og í ýmis horn að líta eftir langa helgi.

IMG_0304[1]

Myndin í dag er af mér ásamt Magnúsi Árna og Elísabetu Tinnu vinkonu hans. Við vorum að spila dýra-yatzy sem er mjög vinsælt. Ég valdi þessa mynd til að minna mig á að hversdagslegu hlutirnir geta líka verið mjög skemmtilegir og gefandi - það þarf ekki alltaf að vera eitthvað stórmerkilegt að gerast til að það sé gaman að lifa Smile


Gustaði vel á göngugarpa

Sunnudagurinn 3. maí 2009

Í dag var stóri dagurinn - Hvannadalshnjúksganga á dagskrá! Í stað þess að fara sofa um miðnætti eins og maður gerir venjulega, fór gönguhópurinn út í rútu frá gistiheimlinu Hvoli og keyrði að Sandfelli þar sem gangan á Hvanndalshnjúk hófst um kl. 1:30. Þrátt fyrir myrkur í upphaf ferðar var skemmtileg upplifun að sjá halarófu göngugarpa liðast um í myrkrinu, allir með höfuðljós. Veðrið var fínt í byrjun og töluvert var um aðra gönguhópa - líklega um 100-200 aðrir að klífa tindinn á þessum morgni í 4-5 misstórum hópum. Við vorum komin á jökulinn sjálfan um kl 7. Þá festum við okkur í línum og lögðum í brekkuna löngu. Mjög fljótlega fór þó að hvessa mjög hraustlega og við gengum í þoku og kófi. Eftir um 2 klst datt farastjórinn í línunni okkar 2-3 metra niður í sprungu. Honum varð þó ekki meint af þó hann tapaði GPS tækinu sem við vorum að ganga eftir. Hann var vasklega hífður upp og ferðinni haldið áfram. Eftir um 3 tíma brölt í þessar óspennandi veðuraðstæður vorum við komin í um 1800 metra hæð. Þá var ákveðið að láta gott heita og snúa niður aftur. Flestir hinir hóparnir á fjallinu höfðu gert það sama enda töluvert algengt að veðrið trufli göngugarpa í efsta hluta tindsins.

IMG_0288[1]
 

Mynd dagsins er að sjálfsögðu tekin á Hvannadalshnjúk. Þarna erum við í um 1500 m hæð. Í efri hluta tindsins var lítið um myndatökur vegna kulda og vinds en ég gat þó ekki annað en dregið upp myndavélina þegar 10 austurískir skíðamenn birtust skyndilega út úr kófinu og renndu sér fagmannlega niður jökulinn. Þó að toppnum hafi ekki verið náð í þetta skiptið var ferðin öll hin skemmtilegasta!  


99 ára og keyrir ennþá bíl

Laugardagur 2. maí 2009

Dagurinn í dag má með sanni kallast laugardagurinn langi. Við Inga erum ásamt mosfellska gönguhópnum að bíða eftir góðu veðri til að ganga á Hvannadalshnjúk. Fljótlega eftir að við vöknuðum á gistiheimilinu Hvoli kom í ljós að besta veðrið til að ganga á hnjúkinn yrði líklegast að fara upp úr miðnætti og byrjað yrði að ganga milli 1 og 2 um nóttina. Dagurinn fór því aðallega í að bíða og hvíla sig vel fyrir gönguna miklu. Um miðjan dag skellti hópurinn sér þó í skoðunarferð á Núpsstað sem er í næsta nágrenni við gisitiheimilið. Þar er gömul kapella og bæjarstæði í ótrúlega fallegu umhverfi - eitt það fallegast á landinu. Ekki spillti svo fyrir að ábúandinn, Filippus Hannesson kom og heilsaði upp á okkur - kappinn verður 100 ára í desember, keyrir bíl og er allur hinn hressasti.

IMG_0254[1]

Mynd dagsins er af Filippusi ábúanda á Núpsstað fyrir utan íbúðarhúsið sem byggt var upp úr 1920. Filippus kom keyrandi heim að bænum þegar við vorum þarna að skoða svæðið. Mjög gaman að tala við karlinn sem var alveg ótrúlega hress - heyrði vel og var hnyttinn í tilsvörum, ekki hægt að sjá að hér væri 99 ára maður á ferð. Hvet alla til að stoppa á Núpsstað og ganga um svæðið - mjög fallegt og skemmtilegt.


Pizzupartý á Klaustri

Föstudagur 1. maí 2009 

Í dag var langt í hann austur á land til móts við sjálfan Hvannadalshnjúk sem á að smella sér upp á, á morgun eða sunnudag - stefnir nú reyndar frekar í sunnudag. Við Inga erum að fara ásamt tæplega 40 manna hópi sem tengist Mosfellsbæ með ýmsum hætti, grunnurinn er þó starfmenn Mosfellsbæjar. Lögðum af stað með rútu um hádegi og munum gista í gistiheimilinu Hvoli sem staðsett er milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftafells.

IMG_0221[1] 

Mynd dagsins er frá kaffihúsinu Systrakaffi sem staðsett er á Kirkjbæjarklaustri. Eftir að hafa komið á gististað um klukkan fimm fór hluti hópsins á Kirkjubæjarklaustur að fá sér eitthvað gott í svanginn fyrir gönguna miklu - flestir fengu sér pizzu sem bragðaðist mjög vel. Við Inga erum þarna í góðum hóp göngufólks.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband