Fundahöld á Fjörukránni

Miðvikudagur 20. maí 2009

Lunganum af deginum í dag (og reyndar kvöldinu líka) varði ég inni á Fjörukránni í Hafnarfirði. Þar var ég á vorfundi Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu (FSÍÖ). Um 80 þátttakendur voru á fundinum sem heppnaðist mjög vel í þessu annars óvenjulega fundaumhverfi. Í lok fundar var farið í móttöku til bæjarstjórans í Hafnarfirði í Bungalowið, sem er nýuppgert, sögufrægt hús í Firðinum. Að móttöku lokinni var haldið aftur á Fjörukránna þar sem okkur var boðið upp á ljómandi fínan kvöldverð og víkingasöng.

IMG_0513[1]
 

Mér fannst vel við hæfi að mynd dagsins væri af Fjörukránni. Aldeilis mjög vel heppnað fyrirbæri í ferðamennskunni hér á landi. Mjög gaman að koma þarna og gaman að sjá metnaðinn í öllum smáatriðum í starfseminni!


Vísiterað með veðurguðinum

Þriðjudagur 19. maí 2009

Í dag var nokkuð óvenjulegur dagur hjá mér í vinnunni. Þó starf mitt gangi að stórum hluta út á að hitta fólk og sitja á fundum, var starfið nokkuð óhefðbundið meiri hluta dagsins. Undanfarið hefur verið í gangi heilmikið reykleysis-átak hjá starfsfólki Hrafnistuheimilanna, vinnustað mínum. Reynt hefur verið að hvetja starfsfólk til dáða með jákvæðri örvun og náði þessi hvatning hámarki sínu í dag. Starfsfólki gafst kostur á að kvitta undir yfirlýsingu um að vera reyklaust á vinnutíma og setja um leið nafn sitt í pott þar sem dregnir yrðu út glæsilegir ferðavinningar. Í dag var svo dregið um hverjir vinningshafarnir eru. Þar sem Hrafnistuheimilin eru fjögur var sérstakur "pottur" á hverju heimili og var mjög góð þátttaka á öllum stöðum. Stór hluti dagsins hjá mér í dag fór í að ferðast á milli Hrafnistuheimilanna, minna á reykleysisátakið og draga út vinningshafa. Með mér í för voru Lucia mannauðsstjóri og poppstjarnan Ingó sem er forsprakki hljómsveitarinnar Ingó og veðurguðirnir. Á hverju heimilanna héldum við Lucia stutt ávörp en Ingó dró í getrauninni og spilaði fjörug sumarlög á gítarinn sinn fyrir viðstadda. Það var ekki amarlegt að hafa forsprakka veðurguðanna með sér í þeirri sumarblíðu sem var í dag.

IMG_0492[1]
 

Mynd dagsins er af okkur Ingó að draga í ferðahappadrættinu á Hrafnistu í Reykjavík. Þar voru tæplega 100 manns viðstaddir og mikið stuð þegar Ingó tók lagið.


Smjattað á poppi með Englum og djöflum

Mánudagur 18. maí 2009

Í kvöld skelltum við Inga okkur í bíó og sáum myndina Englar og djöflar. Myndin er byggð á samnefndri bók rithöfundarins Dan Browns sem einnig samdi bókina DaVinci-lykillinn sem er ein vinsælasta bók síðari ára. Það er töluvert síðan ég las bókina Englar og djöflar og hafði gaman af, jafnvel fannst mér sú bók betri en DaVinci-lykillinn. Sagan gerist á einni kvöldstund í Vatíkaninu og á strætum Rómarborgar, án þess að ég vilji upplýsa söguþráðinnn um of. Myndin var bara hin mesta skemmtun og mæli ég með henni fyrir þá sem höfðu gaman að DaVinci-lyklinum. Ekki spillir að hafa nóg af poppi og kóki með.

IMG_0474[1]

Mynd dagsins er af mér við auglýsingaskilti fyrir myndina Engla og djöfla til að minna mig á bíóferðina. Mjög skemmtileg kvikmynd og við Tom Hanks (aðalleikari myndarinnar) tökum okkur bara vel út Smile


Fyrsta grillveisla sumarsins

Sunnudagur 17. maí 2009

Frábært verður í allan dag! Var mættur snemma út í garð og um hádegisbilið var farið með 15 svarta ruslapoka í Sorpu, fulla af garðúrgangi sem er afrakstur garðvinnu síðustu vikna. Seinni partinn héldum við fyrstu úti-grillveilsu sumarsins þegar mamma og pabbi og Ingimar og Anna (tendaforeldrar) komu í heimsókn og snæddu með okkur lambakjöt og grís með tilheyrandi meðlæti. Við sporðrenndum veitingunum úti á palli enda búið að vera þar sannkallaður suðupottur í allan dag, algert skjól og hitinn eins og á besta sumardegi - vonandi það sem koma skal í sumar!

IMG_0461[1]

Mynd dagsins er af fyrstu útigrillveislunni á pallinum í sumar. Örugglega ekki sú síðasta enda stefnir í frábært sumar CoolCool


Skólaþing Mosfellsbæjar

Laugardagur 16. maí 2009

Aldeilis ljómandi skemmtilegur dagur með frábæru veðri og margt að gerast hjá mér í dag. Af því að fyrr í vikunni var mynd tengd Júróvisión og í gær var sólarmynd, ákvað ég að mynd dagsins væri tengd Skólaþingi Mosfellsbæjar sem ég tók þátt í, nú í morgun. Skólaþingið var haldið í Lágafellsskóla og stóð frá kl. 9-12. Hugmyndin var að þetta væri skemmtileg morgunstund þar sem bæjarbúar Mosfellsbæjar, sem hefðu áhuga á skólamálum, gætu látið til sín taka í vinnuhópum og haft þannig áhrif á stefnu Mosfellsbæjar í skólamálum til framtíðar. Ég tók að mér að stýra einum vinnuhópi og hafði í för með mér Ólínu Margeirs nágranna sem ritara hópsins. Okkar hópur fékk þrjár spurningar til að vinna með, t.d. hvernig geta grunn- og leikskólar í Mosfellsbæ verið í fremstu röð og hvernig viljum við sjá Listaskóla Mosfellsbæjar í framtíðinni. Skólaþingið var mjög skemmtilegt og tíminn í vinnuhópnum hreinlega flaug áfram. Alls mættu tæplega 100 manns á þessa áhugaverðu tilraun bæjaryfirvalda sem ég fagna mjög.

IMG_0455[1]

Mynd dagsins er af Skólaþing Mosfellsbæjar í dag. Eftir hópastarf var þátttakendum smalað saman, þinginu slitið formlega og fólki hleypt út í sólina. Við þingslitin komu börn af leikskólanum Reykjakoti og sungu fyrir þingfulltrúa en myndin er einmitt tekin við það tækifæri. Hefði reyndar viljað hafa hér mynd úr hópastarfinu fyrr um morguninn en steingleymdi þá að taka mynd svo þessi verður að duga sem minning frá fyrsta Skólaþingi Mosfellsbæjar sem ég tek þátt í!


Sól og sumar í Haukadalsskógi

Föstudagur 15. maí 2009

Í dag fórum við fjölskyldan í vorferð "gigtarteymisins" á Reykjalundi. Inga er að vinna á Reykjalundi og er meðlimur þessa þverfaglega teymis á stofnuninni. Rúmlega 20 manns voru í ferðinni sem heitið var í Haukadalsskóg við Geysi. Það er ekki hægt að segja annað en veðrið hafi aldeilis leikið við okkur - sól og brakandi blíða í skjólinu sem oftast er í skóginum. Eftir gönguferð um skóginn og viðeigandi nestispásur var haldið í næsta dal er Helludalur heitir. Einn í hópnum að byggja þar sumarbústað sem við heimsóttum. Þar fengum við kakó og aðra hressingu og fórum í leiki áður en haldið var aftur heim í Mosfellsbæinn.

IMG_0419[1]

Mynd dagsins er af hópnum í gönguferð í Haukadalsskógi. Mjög fínn og skemmilegur hópur. Sérstaklega ánægjuleg ferð á besta degi sumarsins (hingað til)CoolCoolCool


Sigurður Fáfnisbani tæklaður

Fimmtudagur 14. maí 2009

Í kvöld var Inga í saumaklúbbi þannig að við strákarnir voru einir heima. Þó Ísland væri ekki að keppa í Júróvisión í kvöld var nú kveikt á sjónvarpinu og horft á með öðru auganu þegar lögin í hinum undanúrslitariðlinum rúlluðu í gegn. Mestur tími kvöldsins fór þó í að hlýða Ágústi Loga yfir bókmenntafræðina en það er próf hjá honum í fyrramálið. Nú er próftímabilið að byrja í Lágafellsskóla sem stendur yfir næstu 2 vikur. Í bókmenntafræðinni voru nokkrar merkar sögur til prófs en þungamiðjan var sagan af Sigurði Fáfnisbana og Brynhildi sem við feðgarnir tækluðum saman og krufðum til mergjar. Bara mjög gaman að rifja upp þessa sögu og Ágúst bara nokkuð vel með málin á hreinu fyrir próf morgundagsins.

IMG_0401[1]

Mynd dagsins er af Ágúst Loga að glíma við bókmenntafræðina sem er fyrsta prófið í próftímabili 7. bekkjar í Lágafellsskóla.


Aðalfundur Mosfells

Miðvikudagur 13. maí 2009

Í kvöld fór ég á aðalfund Kiwanisklúbbsins Mosfells hér í Mosfellsbæ. Ég var nýlega plataður til að prufa að ganga í þennan klúbb og líkar það bara ágætlega. Ég hef reyndar ekki mætt mjög vel á fundi sem haldnir eru á 2 vikna fresti í Hlégarði. Í kvöld var semsagt aðalfundur og ég lét mig ekki vanta.

IMG_0394[1]

Mynd dagsins er frá aðalfundinum. Félagar eru um 25 og við vorum 19 á fundinum í kvöld. 


It is true - Áfram Ísland!

Þriðjudagur 12. maí 2009

Það er nú bara ekki annað hægt en að fjalla um Júróvisíon í dag. Jóhanna Guðrún "okkar" stóð sig alveg hreint glæsilega. Við fjölskyldan ákváðum að halda júróvisión partý. Við komum saman framan við sjónvarpið og horfðum á lögin í undankeppninni. Inga eldaði pizzu sem sló alveg í gegn hjá heimilisfólkinu. Fyrirfram var ég ekkert sérlega bjartsýnn á gott gengi Íslands en eftir að hafa horft á undankeppnina hefði ég orðið illa svekktur ef við hefðum ekki komist áfram. Jóhanna Guðrún var með þeim bestu ef ekki sú allra besta í kvöld. Mér fannst reyndar þessi undankeppni reyndar óvenju lélég en kannski er maður bara að verða gamall Smile - En allaveganna: Jóhanna Guðrún stóð sig stórglæsilega og það var gaman að fagna þegar fáni Íslands kom loksins upp úr umslaginu - því síðasta sem var í boði. Spennandi laugardagur með spennandi úrslitakeppni framundan!

IMG_0389[1]

Mynd dagsins er af fjölskyldunni í Júróvisión-partý að borða pizzu. Jóna systir Ingu var í heimsókn og við horfðum saman á undankeppnina, gríðarlega stolt af Jóhönnu og Íslandi Cool


Foreldrafundur og spennandi sumar framundan

Mánudagur 11. maí 2009

Það er alveg óhætt að fullyrða að birgðir heimilisins af sólarvörn voru ekki mikið hreyfðar í dag. Bullandi rigning allan daginn þannig að varla var hægt að fara út þó ekki væri kalt. Í kvöld fór ég á foreldrafund hjá 4. flokki í knattspyrnudeild Aftureldingar þar sem Ágúst Logi er að æfa. Það var ágætis mæting foreldra en umræðuefnið var heimsókn frá sænsku liði til okkar í Mosfellsbæinn nú í seinni hluta maí-mánaðar (þar sem við foreldrar þurfum að vera dugleg að hjálpa til) og leikir og mót sumarsins. Lögð var fram leikjaskrá sumarsins sem er mjög þægileg - reyndar þarf að fara til Vestmannaeyja að keppa en það verður bara gaman. Auk hefðbundinna leikja í Íslandsmótinu verður í lok júlí farið á Rey-Cup, 5 daga mót sem haldið er af Þrótti í Laugardalnum og á öðrum knattspyrnuvöllum þar í kring.

IMG_0385[1]

Mynd dagsins er af foreldrafundinum í kvöld. Í forgrunni eru Bjarki þjálfari og Hanna Símonar "ofur-mamma" í boltanum að fara yfir málin fyrir okkur foreldrana - sannarlega spennandi knattspyrnusumar framundan hjá Ágústi Loga og strákunum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband