Fjör í Meistaradeildinni

Miðvikudagur 29. apríl 2009 

Vorið er skemmtilegur tími fyrir okkur knattspyrnuáhugamenn. Ekki bara að spennan fyrir nýju fótboltasumri hér heima sé í hámarki heldur er ekki síður spennandi að fylgjast með lokum helstu mótanna í Evrópu. Nú er farið að líða að lokum á einni skemmilegustu keppninni, Meistaradeild Evrópu. Nú eru fjögur lið eftir í kepninni og þrír leikir; tveir undanúrslitaleikir og sjálfur úrslitaleikurinn. Í kvöld fór fram fyrri leikur Manchester United og Arsenal en liðin eigast svo aftur við í næstu viku þar sem skorið verður úr um hvort liðið kemst í úrslitaleikinn.

IMG_0212[1]

Mynd dagsins er af strákunum í 4. flokki Aftureldingar ásamt Bjarka þjálfara sem hér er í forgrunni. Strákarnir komu saman í kvöld í vallarhúsinu að Varmá til að horfa á leikinn og fá sér pizzu. Ég kíkti á fyrri hálfleikinn með strákunum enda var ég að skutla Ágústi Loga í fjörið en hann er einn af strákunum í flokknum. Það var mikil spenna í loftinu enda flestir strákarnir á bandi Manchester sem unnu leikinn 1-0.


Jómfrúarferð á Háskólatorgið

Þriðjudagur 28. apríl 2009

Í morgun kom ég í fyrsta skipti inn á Háskólatorgið, sem er með nýjustu byggingum Háskóla Íslands. Torgið opnaði fyrir rúmu ári og tengir saman gamalgrónar byggingar á Háskólasvæðinu við Norræna húsið. Ég hef ekki átt erindi þarna fyrr en í morgun, en þá fór á eg fyrirlestur í byggingunni Gimli, sem er ný og er hluti af torginu. Um var að ræða fræðslufund á vegum félagsins Stjórnvísis, þar sem Eggert Birgisson ráðgjafi hjá Capacent, fjallaði um ýmis hagnýt atriði varðandi áætlanagerð og hlutverk áætlana í markvissri framkvæmd stefnu. Semsagt, vinnutengdur fundur. Eftir ágætis fyrirlestur skoðaði ég mig aðeins um á Háskólatorginu enda eyddi maður ófáum stundum í lok síðustu aldar á lesstofum og í byggingum Háskólans. Háskólatorgið virkar mjög sniðug bygging sem heppnast hefur vel. Mjög gaman að koma þarna og fékk mann heldur betur til að hugsa til skemmtilegra skóladaga.

IMG_0210

Mynd dagsins tók ég á Háskólatorginu og sýnir námsfúsa stúdenta að læra - líklegast fyrir próf Smile Sjálfur hefur maður verið í þessum sporum ansi oft - mjög skemmtilegur tími þó stressið sé stundum yfir meðallagi Cool 


Lokaundirbúningur fyrir Hnjúkinn!

Mánudagur 27. apríl 2009 

Á föstudaginn stendur til að við hjónin örkum upp á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk. Þetta er í annað sinn sem við förum en árið 2005 gengum við á tindinn í sól og blíðu með Ferðafélaginu undir handleiðslu Haraldar Arnar fjallagarps.  Nú erum við í um 40 manna hópi sem að mestu leyti er úr Mosó: starfsfólk Mosfellsbæjar, hópur fullorðinna skáta úr bænum og ýmsir fylgifiskar. Við tilheyrum síðastnefnda hópnum. Í dag var boðað til lokaundirbúningsfundar þar sem farastjórar fóru yfir málin enda verður allt að vera klárt þegar stóra stundin rennur upp. Reyndar fór mesta púðrið í að ræða veðurspána en eins og er, er spáin mjög óspennandi fyrir föstudag og laugardag sem áttu að verða göngudagarnir okkar (föstudagur aðal göngudagur en laugardagur til vara). Við fengum því þau skilaboð að vera við öllu búin um helgina og ekkert víst að við förum úr Mosó á fimmtudagskvöldið eins og upprunalegt plan segir. Þetta kemur bara allt í ljós en maður er að verða spenntur Smile

IMG_0197[1]

Mynd dagsins er af undirbúningsfundi með farastjórunum fyrir Hvannadalshnjúksferðina: þeim Hirti Skagamanni og Pétri nafna mínum sem eru þarna að svara spurningum ferðalanganna en flestir í hópnum voru mættir á fundinn. Á borðinu fyrir framan þá er landakortið með gönguleiðinni. Magnús Árni stökk svo svona skemmtilega inn í forgrunninn en hann fékk að fara með á fundinn þó hann verði fjarri góðu gamni í göngunni sjálfri. 


Kardimommubærinn klikkar ekki!!!

Sunnudagur 26. apríl 2009 

Við fjölskyldan smelltum okkur í Þjóðleikhúsið og sáum Kardimommubæinn í dag. Eins og við var að búast var þetta alveg glæsileg sýning sem hægt er að mæla með fyrir alla; kerlingar og karla. Mjög vel útfærð og mikið lagt í sviðsetningu og fjör - og þjónar alveg tilgangi sínum að hrífa mann með. Ekki spillti svo fyrir að við vorum á 4. bekk fyrir miðju sem reyndist svo vera fremsti bekkur vegna hljómsveitargryfjunnar. Það er því óhætt að segja að við höfum fengið Kardiommubæinn beint í æð. Líkt og með "Dýrin í Hálsaskógi" er þetta ótrúlega tímalaust leikrit og verður örugglega sett upp að 10-15 árum liðnum sem hefur verið tíðnin á uppsetningum á þessum frábæru leikritum.

IMG_0195[1] 

Myndin í dag sýnir Ingu og strákana í Þjóðleikhúsinu - allir klárir í slaginn fyrir Kardimommubæinn sem klikkaði ekki!


Kosningar

Laugardagur 25. apríl 2009 

Gærdagurinn skartað sínu fegursta. Glæsilegt veður og vor í lofti. Þó frúin hafi dregið mig tvisar upp og niður Esjuna, held ég nú að kosningarnar verði að teljast hápunktur dagsins. Við hjónin mættum nú ekki á kjörstað í Lágafellsskóla fyrr en um kvöldmarleytið. Þessi tímasetning var nokkuð þægileg því engin röð var í okkar kjördeild þegar við gengum í hús. Við tókum Magnús Árna með okkur, held að það sé hluti af uppeldinu að leyfa börnunum að mæta á kjörstað. Það var létt yfir fólki í kjördeild 3 sem gaf Magnúsi ópal meðan við Inga smelltum okkur inn fyrir tjöld kjörklefanna til að setja niður X-ið.

 IMG_0193[1]

Mynd dagsins er tekin af Magnúsi Árna sem er greinilega hinn efnilegasti ljósmyndari, amk sjást andlitin á okkur báðum. Myndin sýnir okkur foreldrana greiða atkvæði og að sjálsögðu kusum við bæði rétt Smile 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband