Sofið á video-kvöldi fjölskyldunnar

Föstudagur 26. febrúar 2010

Vegna aðgerðar eldri sonarins (sjá færslu gærdagsins) var ákveðið að fjölskyldan skylda taka það rólega saman í kvöld. Strákarnir fengu að velja sér DVD-myndir sem við leigðum og eina mynd reyndum við að horfa á saman. Ég segi reyndum því fljótlega eftir að allir voru búnir að koma sér þægilega fyrir og myndin var komin í gang, steinsofnaði ég og dottaði svo meira og minna allt kvöldið. Ég náði því ekki að halda söguþræðinum en á það til góða að horfa síðar á hina skemmtilegu mynd Upp sem yngri sonurinn, Magnús Árni, hafði valið fyrir okkur. Það er samt bara hrikalega gott að fara sofa snemma á föstudagskvöldi, svona til tilbreytingar Smile

up
 

Mynd dagsins er auglýsingamynd vegna kvikmyndarinnar "Upp" sem við fjölskyldan ætluðum að horfa á saman í kvöld. Ég sofnaði fljótlega og missti því að þessari ágætu skemmtun en það var svakalega gott að sofa Cool


Hálskirtlarnir fjúka!

Fimmtudagur 25. febrúar 2010

Í morgun fór eldri sonurinn á heimilinu, Ágúst Logi, í hálskirtlatöku. Þennan veturinn hefur hann verið að fá síendurteknar sýkingar í hálsinn og oftar en ekki verið að þurfa að fara á sýklalyfjakúra. Eftir skoðanir lækna er niðurstaðan að best sé fyrir piltinn að fá fjarlægða hálskirtlana. Í dag var semsagt stóra stundin runnin upp og var aðgerðin framkvæmd á handlæknastöðinni í Glæsibæ. Aðgerðin sjálf tók ekki nema 20 mínútur en kappinn var svæfður á meðan. Um hálftíma eftir aðgerðina vaknaði Ágúst og fékk ís að sjálfsögðu en svo lagði hann sig dágóða stund áður en hann var tilbúinn að fara heim á leið. Í kvöld hefur drengurinn svo hakkað í sig ís í gríð og erg enda er það nánast það eina sem hann getur borðað þessa stundina. Verkir eru aðeins byrjaðir að gera vart við sig en að öðru leiti er Ágúst hinn sprækasti. Ágúst Logi fær frí í skólanum í heila viku en fær ekki að stunda íþróttir í tvær vikur. Þetta er auðvitað dálítið erfitt að lifa við en tíminn núna fyrir aðgerðina er einmitt valinn með knattspyrnusumarið í huga - betra er að missa úr æfingar núna heldur en í vor eða sumar.

 

IMG_7083

Mynd dagins af Ágúst Loga og er tekin á handlæknastöðinni í Glæsibæ í dag. Þarna er hann rétt orðinn hálskirtlalaus og er að vakna eftir aðgerðina. Hann fékk ís til hressingar og nú er bara að harka af sér í 1-2 vikur. Vonandi er hann svo laus við síendurteknar sýkingar í hálsi til frambúðar. 


Fundað um knattspyrnustefnu

Miðvikudagur 24. febrúar 2010

Í kvöld fór ég á skemmtilegan fund um stefnumótun Knattspyrnudeildar Aftureldingar í Mosfellsbæ. Þessi fundur er sá síðasti í þriggja funda röð um stefnu deildarinnar sem haldin hefur verið síðustu vikur. Eins og komið hefur fram áður í þónokkrum færslum, var ég um skeið í forystusveit knattspyrnudeildarinnar. Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessum fundum enda nauðsynlegt að deildin fari í naflaskoðun á störfum sínum með reglubundnum hætti. Ekki er ástæða til að rekja frekar efni fundanna hér en starf knattspyrnudeildarinnar er merkt og mikilvægt fyrir bæjarfélagið. Gaman er að taka þátt í því og leggja sitt af mörkum.

IMG_0562

Mynd dagsins er fengin af láni úr gamalli ársskýrslu Knattspyrnudeildar Aftureldingar en í kvöld var ég með góðu fólki á skemmtilegum fundi um stefnumótun í knattspyrnunni hér í Mosfellsbænum.  


Spaghettí!!!

Þriðjudagur 23. febrúar 2010

Í kvöld bauð húsfreyjan á heimilinu upp á hakk og spaghettí í kvöldmatinn. Þetta er mjög vinsæll réttur hjá öllum heimilismönnum og auðvitað skófluðum við í okkur af bestu lyst. Magnús Árni (7 ára) tók vel á því og í lok matartímans var ljós að ekki hafði allur maturinn farið á rétta staði. Hann féllst þó ekki á að leyfa miklar myndatökur en þessi er sú besta sem við náðum að taka Smile

IMG_7100[1]

 


Endur fá brauð á "letidegi"

Mánudagur 22. febrúar 2010

Í dag er ennþá skólafrí í Lágafellsskóla hjá sonum mínum, þeim Ágúst Loga og Magnúsi Árna. Ég ákvað því að eiga rólegan frídag með þeim piltum í dag. Við sváfum lengi og áttum sannkallaðan "letidag" saman. Seinni partinn bauð ég Magnúsi Árna og Elísabet vinkonu hans í ferð á Reykjavíkurtjörn til viðhalda þeim skemmtilega sið að gefa öndunum brauð. Þetta er alltaf jafngaman og maður gerir þetta allt of sjaldan. Á síðustu stundu slóst Ágúst Logi líka með í för. Tjörnin var alveg frosinn í dag og einhverjir voru að skauta. Venju samkvæmt var vök fyrir endur, svani og annan fiðurfénaði í horninu við Iðnó. Þar setti fjölmennur gæsahópur mestan svip á svæðið en þær voru ansi frekar og ákveðnar í sínum aðgerðum þegar í ljós kom að vð lumuðum á brauðmolum. Litlu krakkarnir vour hálfhræddir við þær í byrjun en svo skemmtum við okkur vel við að gefa brauð, hlaupa á ísnum á tjörninni og skoða landakortið í ráðhúsinu.

IMG_7060[1]

Mynd dagsins tók Ágúst Logi á tjörninni í Reykjavík í dag. Þarna er ég ásamt Magnús Árna og Elísabetu vinkonu hans að gefa brauð í allar áttir. Mjög skemmtilegur dagur Grin


Tvær systur í upphafi Góu

Sunnudagurinn 21. febrúar 2010

Ég vaknaði snemma í morgun í tilefni af konudeginum, upphafsdegi hins gamla mánaðar Góu. Meðan gestir og heimilismenn hjá Jónu mágkonu á Akureyri voru í fastasvefni smellti ég mér í hið skemmtilega bakarí á Akureyri, Bakaríð við brúnna og keypti þar spennadi morgunmat (eða eiginlega meira bröns). Þar var fullt hús og 99% karlmenn í sömu erindagjörðum og ég. Svo kom ég við í skemmtilegri blómabúð, Býflugunni og blóminu,  þar sem var ekki alveg jafnmikið að gera þó kyntahlutfall viðskiptavina hafi verið allan tímann 100% karlar. Afgreiðsludaman sagði mér í óspurðum fréttum að það væri ótrúlegur munur á konudegi og bóndadegi í búðinni hjá þeim. Karlanir sem kæmu á konudaginn væru meira brosandi, spjallandi og afslappaðri og "vildu eitthvað fallegt" meðan konurnar sem kæmu á bóndadaginn væru önugri og óþolinmóðari og hefðu eiginlega bara áhuga á að gefa karlinum sínum blóm sem standa sem lengst. Þegar heim var komið aftur náðum við strákarnir að gera allt klárt fyrir morgunmat/bröns áður en systurnar Inga og Jóna voru vaktar og þeim færð blóm í tilefni dagsins. Um hádegið fórum við Ágúst Logi ásamt Rúnari Inga syni Jónu aðeins í Hlíðarfjallið. Veðrið var reyndar ekkert spes svo fáir voru í fjallinu. Það þýddi heins vegar að engin bið var í lyfturnar. Um miðjan dag héldum við fjölskyldan svo af stað suður yfir heiðar í Mosfellsbæinn eftir skemmtilega helgi á Akureyri.

IMG_3794[1]

Mynd dagsins er af systrunum Ingu og Jónu sem brostu sínu breiðast í dag í tilefni konudagsins Cool 


Skíði og menning á Norðurlandi

Laugardagur 20. febrúar 2010

Eins og í gær erum við fjölskyldan á Akureyri í góðu yfirlæti hjá Jónu mágkonu. Í nótt snjóaði töluvert í viðbót þannig að nægur snjór er á Akureyri þessa dagana. Þegar allir voru vaknaðir héldum við fjölskyldan upp í Hlíðarfjall á skíði. Þar var ágætis veður en ansi fjölmennt. Í fréttum kom fram að hátt í 3.000 manns hefðu verið í fjallinu í dag. Við fengum reyndar fínt bílastæði en um hádegisleitið voru öll bílastæði full þannig að fólk þurfti að leggja bílum sínum á Akureyri og taka rútur til og frá Hlíðarfjalli. Þetta var nú samt mjög skemmtilegur dagur í fjallinu þó margt væri um manninn og nokkuð löng bið í skíðalyfturnar. Kl. 19 vorum við komin úr fjallinu og búin að þvo okkur og þrífa, en þá vorum við Inga mætt í leikhúsið til að horfa á leiksýningu Leikfélags Akureyrar á verkinu 39 þrep. Með okkur í för voru Jóna mágkona og Líney vinkona hennar en einnig komu með okkur vinafólk okkar héðan úr Mosó, þau Halli og Ólína, og Jóhanna og Elvar. Þau eru öll, eins og við, í Akureyrarferð um helgina með fjölskyldur sínar. Leiksýningin 39 þrep er hin skemmtilegasta en hún byggir á sögu frá stríðárunum sem búið er að setja í mjög skemmtilegan "aulabrandara-búning". Verkið minnir nokkuð á sýningu Spaugstofumanna á Harry og Heimi í Borgarleikhúsinu en þetta er blanda sem gengur mjög vel upp og áhorfendur eru skellihlægjandi allan tímann - ef þeir eru á annað borð tilbúnir að vera með í gríni af þessu tagi. Eftir leiksýninguna fórum við svo saman út að borða á veitingahúsið Strikið og áttum þar saman skemmtilega stund í lok þessa fjöruga dags.

IMG_7045

Mynd dagsins er tekin í Hlíðarfjalli á AKureyri í dag í skíða- og menningarferð fjölskyldunnar. Þarna er Ágúst Logi bretta-töffari en hann er að verða nokkuð duglegur á snjóbrettinu sem hann fékk fyrir tveimur árum. Mjög skemmtilegur dagur Smile


Nægur snjór

Föstudagur 19. mars 2010

Í dag erum við fjölskyldan stödd á Akureyri. Þessa helgina eru skólafrí í Lágafellsskóla þar sem synir okkar stunda nám. Það var því ákveðið að skella sér í skíða- og menningarferð til Akureyrar. Þar býr Jóna mágkona ásamt fjölskyldu sinni og alltaf hægt að fá gistingu á besta stað í bænum. Þegar við vorum risin úr rekkju um kl. 10 viðraði ekkert sérstaklega vel til skíðaiðkunar þó nægur væri snjórinn. Við Ágúst Logi ákváðum þó að skella okkur í Hlíðarfjallið. Þar var þokkalegt verður og ekki margt þannig að þetta var bara fínt. Ég keypti þó aðeins þriggja tíma kort í lyfturnar og eftir þann tíma fór ég til baka og skildi Ágúst eftir þar sem hann var ásamt nokkrum félögum héðan úr Mosó. Á meðan fórum við Magnús Árni út í garð, ásamt Rúnari Inga frænda og bjuggum til risastórt snjóhús enda nægur snjór á Akureyri. Um kvöldið fórum við fjölskyldan svo í matarboð til Siggu og Svans vinafólks okkar þar sem frú Sigríður bauð upp á gómsæta rétti og við ættum frábæra stund með þeim áður en haldið var í rúmið upp úr miðnætti.

fotboltaspil

Mynd dagsins er tekin í matarboðinu hjá Siggu og Svan nú í kvöld. Þarna er fótboltaspil á fullu hjá strákunum en á myndinni eru Bergvin og Svanur synir þeirra hjóna ásamt okkar pjökkum, þeim Ágústi Loga og Magnúsi Árna.


Aksjón fyrir Akureyrarferð

Fimmtudagur 18. febrúar 2010

Það var í mörg horn að líta í vinnunni í dag, sérstaklega þar sem ég er að fara í langt helgarfrí. Í kvöld ætlum við fjölskyldan til Akureyrar í skíða- og mennignarferð. Stefnan er að dvelja þar fram á sunnudagskvöld. Ég ætla svo að vera í fríi á mánudaginn líka - það verður alveg ljómandi. Ég þurfti því að klára ýmislegt áður hægt var að halda af stað. Vinnudagurinn endaði reyndar mjög skemmtilega en kl. 18 var ég mættur á Hrafnistu í Reykjavík, einn af vinnustöðum mínum. Þar fór fram skemmtikvöld fyrir heimilsfólkið með glæsilegum kvöldverði og skemmtiatriðum, þar sem m.a. Diddú tók lagið. Við fjölskyldan náðum að leggja af stað til Akureyrar rétt fyrir kl. 21. Færðin var fín og mjög fallegt veður var á leiðinni. Umferð var nánast enginn og við renndum því í hlað hjá Jónu mágkonu á Akureyri rétt fyrir kl. eitt.

skemmtikvöld Hrafnistu

Mynd dagsins er tekin á Hrafnistu í Reykjavík, einum vinnustaða minna en þar fór fram skemmtileg kvöldskemmtun fyrir íbúana nú í kvöld. Ég fékk þann heiður að setja hátíðinna og eftir borðhald og nokkur skemmtiatriði fékk ég að laumast í burtu þar sem við fjölskyldan vorum á leið norður til Akureyrar.


Öskudagurinn..!

Miðvikudagurinn 17. febrúar 2010

Í dag er hinn forni og skemmtileg Öskudagur. Synirnir fóru auðvitað í búningum í skólann í tilefni dagsins. Eftir mikla umhugsun síðustu daga ákvað Magnús Árni (7 ára) að vera galdrakarl og safnaði saman ýmsu dóti úr búningasafni heimilisins til að gera sig fínan. Ágúst Logi (13 ára) ákvað að láta aldurinn ekkert stoppa sig og skellti sér í gömul jakkaföt af mér til að leika "karl í jakkafötum". Hann dró svo fram gamla Hawaii-skyrtu af mér og 20 ára gömul sólgleraugu. Þeir áttu svo góða stund í dag í skólanum sínum. Ágúst fór svo eitthvað á stúfana með félögum sínum í bæinn til að syngja fyrir nammi en Magnús bíður með það eitt ár í viðbót.

IMG_3776
 

Mynd dagsins er af sonunum á heimilinu í öskudagsbúningunum. Magnús Árni var galdrakarl og Ágúst Logi var karl í jakkafötum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband