Og þá er það bolludagurinn!!!

Mánudagur 15. febrúar 2010

Ég rétt náði að stökkva fram úr rúminu í morgun áður en Magnús Árni var mættur með bolluvöndinn inn í svefnherbergi til að "bolla" okkur foreldrana rækilega. Hann gerði forláta bolluvönd í skólanum á föstudaginn og var búin að bíða spenntur alla helgina eftir að fá að nota gripinn. Þeir bræður fengu auðvitað bollur með sér í nesti í skólann. Ég fékk kjötbollur í hádeginu í vinnunni og ljúffengar rjómabollur í síðdegiskaffinu. Ég borðaði reyndar óvenjufáar bollur í dag miðað við síðustu bolludaga þar sem ég hef lagt mig virkilega fram í bolluátinu. Einn eftirminnilegasti bolludagur á síðustu árum rifjast alltaf upp fyrir mér á þessum degi. Þá var ég að vinna í samstarfið við nokkra Dani og sendi þeim tölvupóst að á Íslandi væri "bollu-dagur" í dag. Það var ekki liðið nema andartak þegar allir símar tóku að hringja og voru það Danirnir sem trúðu ekki eigin augum þegar þeir sáu tölvupóstinn - hvað væri eiginlega í gangi hjá okkur klikkuðu Íslendingunum!!!Tounge Þeir sem eru ekki vel að sér í dönsku slangri verða sjálfir að finna út hvað þeir dönsku voru að misskilja...Grin Í tilefni dagins verður myndin í dag að vera almennileg bollumynd - nammi namm!!!

bollur

Hópknús og tertur á Valentínusardegi!

Sunnudagur 14. febrúar 2010

Þó Magnús Árni sonur minn hafi orðið 7 ára hinn 25. janúar hefur ekki gefist tími fyrr en í dag til að halda fjölskyldu- og vinakaffi til að fagna þessum merka áfanga í lífi piltsins. Við Magnús fórum reyndar fyrir veisluna niður á torg hér í Mosfellsbænum þar sem reyna átti að setja heimsmet í hópknúsi í upphafi "Kærleiksviku" Mosfellsbæjar. Mettilraunin fór fram í góðu veðri en eftir ströngum reglum frá heimsmetabókinni. Um 370 manns mættu en það þurfti víst yfir 600 til að slá heimsmetið. A.m.k. var þetta Íslandsmet. Eftir að hafa sett Íslandsmetið fórum við Magnús Árni heim en þar komu nokkrir ættingjar og nágrannar saman og fögnuðu 7 ára afmæli kappans eins og áður sagði. Inga var búin að töfra fram aragrúa af ýmsum tertum og brauðréttum. Magnús Árni var hinn ánægðasti með daginn en hér með er afmælishaldi vegna 7 ára afmæli hans lokið Smile

IMG_7005[1]

Mynd dagsins er tekin á torginu hér í Mosfellsbæ í dag á Valentínusardegi, þar sem við Magnús Árni vorum með í að setja Íslandsmet í hópknúsi. Á myndinni er Hreiðar "knús-stjóri" að ljúka við að fara yfir reglurnar áður en knúsið hófst og eins og sjá má fylgist lögreglan og allir helstu fjölmiðlar með að þetta fari nú allt rétt fram. Bara gaman!!!


9 réttir!!!

Laugardagur 13. febrúar 2010

Fyrirsögnin á ekki að tákna að mér hafi gengið rosalega vel að tippa í getraunum enda kannski ekkert afrek að vera þar með 9 rétta af 13. Þó það væri vissulega gaman var samt ennþá skemmtilegra í kvöld en þá héldum við Inga upp á Akranes í heimsókn til Sævars og Hafdísar vinafólks okkar sem þar héldu alveg svakalegt matarboð. Fleiri félagar voru með í för en það voru Erlingur og Heida og svo bættust Skagamennirnir Ástþór og Sigrún í hópinn. Sævar og Hafdís voru með ítalskt þema í matarboðinu og höfðu lagt mikla nattni í að gera þetta sem glæsilegast. Alls voru 9 réttir á matseðlinum - 3 forréttir, 3 aðalréttir og 3 eftirréttir. Auðvitað stóð maður sína plikt í þessu og sporðrenndi öllum réttunum og fékk sér jafnvel ábót á sumt Cool. Þetta var hin glæsilegasta veisla og borðhaldið stóð yfir í um fjórar klukkutíma. Það er alveg dásamlegt að gera þetta einstaka sinnum þó vigtin sé ekki besti vinur manns daginn eftir.

 

IMG_6986[1]

Mynd dagsins er tekin í matarboðinu hjá Sævari og Hafdísi vinafólki okkar í kvöld. Þar snöruðu þau skötuhjú fram 9 rétta veislumáltíð og við áttum frábært kvöld saman!!! Á myndinn eru frá vinstri. Erlingur, Sigrún, Hafdís, Sævar, Ástþór, Inga og Heida.


Síðasta þorrablótið þennan Þorra...

Föstudagur 12. febrúar 2010

Í kvöld fórum við fjölskyldan yfir til vinafólks okkar hér í Mosó, þeirra Jóhönnu og Elvars. Síðustu ár höfum við þrjár vinafjölskur haldið saman fjölskylduþorrablót þannig að erfingjarnir fái að kynnast og alast upp við þennan þjóðlega sið. Í kvöld var semsé komið að þessu árlega þorrablóti. Jóhanna og Elvar eiga þrjá stráka en þriðja fjölskyldan eru Pétur og Hanna, vinafólk okkar hér í Mosó en þau eiga líka þrjá stráka þó aðeins tveir þeirra væru með í kvöld. Í boði var auðvitað allt sem hugurinn girnist (þ.e. þegar þorrablót er annars vegar auðvitað Smile), þó mismikið af hverjum rétti eftir líklegum vinsældum. Við leggjum mkila áherslu á að drengirnir smakki á sem flestu, sem þeir gera þó misvel. Aðalmálið er þó að eiga saman góðar og glaðar stundir og á því varð engin undanteking í kvöld. Þetta var í fimmta skipti sem ég snæði þorramat á þessum Þorra þannig að þó maturinn sé ágætur er líka bara ágæt að Góan sé að nálgast!

 

IMG_6972[1]

Mynd dagsins er tekin á fjölskylduþorrablótinu í kvöld hjá vinafólki okkar Jóhönnu og Elvari. Þarna eru Inga og Magnús ásamt Hönnu vinkonu okkar og Guðjóni Inga syni hennar. Þau eru stödd við Þorrahlaðborðið að raða kræsingunum á diskinn. Mjög skemmtilegt kvöld Grin


Úrið komið úr viðgerð!

Fimmtudagur 11. febrúar 2010.

Um miðjan desember s.l. slitnaði ólin á úrinu mínu. Ég hef verið með úr á vinsti hendinni á hverjum degi í örugglega 15-20 ár. Einhverra hluta vegna ákvað ég þarna í desember að prófa aðeins að vera án úrsins í nokkra daga. Ég hélt að þetta myndi aldrei ganga en langaði samt að prófa þar sem mikið álag var á mér á þessum tíma. Tilgangur var auðvitað að sjá hvort úr-leysi myndi róa mig eitthvað. Og viti menn eftir aðeins nokkra daga var þetta bara farið að venjast og ég steingleymdi að fara með úrið í viðgerð fyrir jólin. Oft var þetta nú bara afslöppuð tilfinnig. Reyndar hef ég einstaka sinnum lent í því að ruglast á tíma eða mæta of seint vegna þessa. Eftir óheppilega uppákomu um daginn smellti ég mér með úrið í viðgerð og í dag var það semsagt klárt. Ansi þægilegt og skynsamlegt að fá það aftur en úr-leysi er líka góð tilfinning þar sem það eru klukkur mjög víða. Þarf að nýta úrleysið betur í fríum... Ég rakst á þessa skemmtilegu klukkumynd á netinu um daginn og hef hana sem mynd dagsins í dag!

úr

Fermingarundirbúningur kominn á fullt!

Þriðjudagur 9. febrúar 2010

Við fjölskyldan höfum í mörg horn að líta þessa dagana. Það sem er nú samt efst á baugi núna er undirbúningur fyrir fermingu Ágústar Loga, eldri sonar okkar. Hann mun fermast í Lágafellskirkju hér í Mosfellsbænum á Pálmasunnudag, 28. mars. Í dag fórum við í heimsókn í Félagsheimilð Hlégarð en þar verður fermingarveislan haldin. Við hittum vertinn þar, hann Vigni og fórum yfir ýmis praktísk mál varðandi veisluna, skoðuðum salinn okkar, ræddum skreytingar og ýmislegt fleira. Það er nú ekki laust við að það sé kominn nokkur fermingarspenningur í okkur foreldrana eftir daginn því nú þarf að fara að ákveða hitt og þetta. En það er mjög skemmtilegt að undirbúa svona fermingarveislu í fjölskyldunni!!

 

hlegardur 2

Mynd dagsins sýnir félagsheimilið Hlégarð hér í Mosfellsbæ þar sem Ágúst Logi sonur minn mun halda fermingarveislu sína þann 28. mars n.k. - spennandi


Blíða í höfuðstað Norðurlands!

Mánudagur 8. febrúar 2010

Í dag brá ég mér í stutta ferð norður til Akureyrar. Þar þurfti ég að sinna erindum tengdum vinnunni. Akureyri skartaði sínu fegursta í dag. Þrátt fyrir nokkurn kulda var glampandi sól og algert logn. Það var nokkuð þétt skipuð dagskrá í ferðinni en þó gafst færi á að fara í stuttan göngutúr og koma við á hinu skemmtilega kaffihúsi Græna hattinum. Þar var troðfullt út úr dyrum en þó pláss fyrir mig og félagana til að sporðrenna ljúffengri og orkumilli tertu (fínt í kuldanum!). Jafnframt gat ég kíkt við á Hárgreiðslustofunni Passion þar sem tveir göngufélagar mínir vinna, þau Gulli og Sigga. Það var gaman að hitta aðeins á þau áður en haldið var aftur til höfuðborgarinnar. Ég var svo kominn heim tímanlega í kvöldmatinn eftir ánægjulegan dag.

 

IMG_6961[1]

Mynd dagsins er tekin á Akureyri í dag í blíðskaparveðrinu sem þar. Myndin sýnir útsýnið yfir miðbæinn, séð af Oddeyrinni. Mjög skemmtilegur dagur á Akureyri í dag!


Fjölskyldufótbolti

Sunnudagur 7. febrúar 2010

Við fjölskyldan tókum það rólega í dag. Í góða veðrinu skelltum við fjölskyldan okkur þó út í fótbolta. Rétt fyrir utan hjá okkur hér í Mosfellsbænum er fínasti fótboltavöllur sem við förum stundum á. Við vorum dágóða stund í æsispennandi fótbolta og tókum nokkra leiki sem var mjög skemmtilegt. Með okkur var Ólafur Snær, vinur Magnúsar Árna.  Mynd dagins er tekin á fótboltavellinum í Hrafnshöfðanum í dag. Frá vinstri: Magnús Árni, Ágúst Logi, Inga og Ólafur Snær, vinur Magnúar.

IMG_6955[1]

Óvissuverð æskufélaganna!

Laugardagur 6. febrúar 2010

Um miðjan dag í dag fór ég í óvissuferð með félögum mínum í félagsskapnum Club'71 (sjá nokkrar færslur á síðasta ári). Við erum nokkrir æskufélagar af Skaganum sem fæddir eru 1971 (og nokkrir aðrir) sem haldið höfum góðu sambandi með því að spila fótbolta einu sinni í viku og 2-3svar á ári gerum við okkur glaðan dag. Í dag var semsagt óvissuferð á dagskrá. Við hittumst fyrir utan skemmtistaðinn Players í Kópavogi en þar var okkur smalað upp í rútu sem ók með okkur á að Hitaveitu Suðurnesja við Bláa lónið. Þar tók mikill heiðursmaður á móti okkur sem sagði okkur ýmislegt frá starfseminni, sögu Bláa lónsins og sýndi okkur um staðinn. Þetta var mjög fróðlegt og gaman að heyra hversu vakandi þeir hitaveitu-menn eru fyrir nýjungum og ferkari nýtingu á þessari mögnuðu auðlind. Eftir heimsóknina í hitaveituna var haldið til Njarðvíkur þar sem við fórum í dekur; heita potta, gufubað, spiluðum bingó og fleira. Tek fram að spilun á bingói er hefð í þessum ferðum og helst á að spila það við óvenjulegar aðstæður eins og tókst vel í þessari ferð. Þegar allir voru orðnir hreinir og stroknir var okkur boðið í Þorra- og hátíðarhlaðborð inn í Keflavík. Þar áttum við félagarnir góða stundir áður en haldið var í höfuðborgina í kringum miðnætti. Þar héldu einhverjir áfram gleðskap fram á nótt en aðrir héldu heima á leið.

IMG_6909[1]

Mynd dagsins er tekin í óvissuferð Club'71 í dag. Þarna er hluti hópsins í kominn í heita pottinn í Njarvík þar sem fór vel um okkur Cool


Pizzuát á strákakvöldi!

Föstudagur 5. febrúar 2010

Inga var að vinna á kvöldvakt nú í kvöld. Við strákarnir voru því bara flottir á því og pöntuðum okkur pizzu í kvöldmatinn. Fyrir valinu varð að fá sér eldbakaða pizzu frá nýlegum pizzu-stað hér í Mosfellsbænum sem kallast "Eldhúsið". Þar er hægt að fá ljúffengar pizzur sem eru með þunnum botni og eldbakaðar. Við feðgar eru mjög hrifnir af þessum pizzum og þegar pantaðar eru pizzur á hemilið eru þær venjulega úr Eldhúsinu. Við feðgarnir áttum bara fínt strákakvöld; borðuðum pizzur og spiluðum tölvuleiki saman - bara mjög gaman!

Eldhusid

Mynd dagins er af pizzubakara Eldhúsins hér í Mosfellsbæ að smella ljúffengri pizzu í ofninn!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband