Pési grallaraspói og Mangi vinur hans!

Mánudagur 18. janúar 2010

Þessa dagana eru við Magnús Árni að lesa saman söguna "Pési grallaraspói og Mangi vinur hans". Þessi saga er um 40 ára gömul og er eftir danska rithöfundinn Ole Lund Kirkegaard. Ole þessi er líklega þekktastur fyrir söguna um Gúmmí-Tarsan. Höfundurinn samdi nokkrar mjög skemmtilegar sögur fyrir 30-40 árum eins og Fúsi froskagleypir, Hodja og töfrateppið og Ottó nashyrningur. Þegar ég var strákur voru þessar sögur í miklu uppáhaldi hjá mér enda eru allar sögurnar um mikla prakkara sem þora alveg að bjóða hinum fullorðnu birginn sem og ýmsum sem eru ekki góðir. Við Magnús erum búnir að hlægja mikið af sögunni og byrjuðum nú bara á því að hlæja að nafninu. Það er alveg ljóst að við eigum eftir að lesa saman fleiri sögur eftir þennan skemmtilega höfund.

IMG_6818[1]

Mynd dagins sýnir Magnús Árna steinsofnaðan með hina stórskemmtilegu bók um Pésa grallaraspóa og Manga vin hans Cool


Mjallhvít og mýrarboltinn!

Sunnudagur 17. janúar 2010

Eftir hádegið í dag brugðum við Magnús Árni okkur í leikhús. Meðan Inga sat heima með Ágústi Loga, sem var að læra undir próf, héldum við Magnús í bæjarleikhúsið hér í Mosfellsbænum. Þar er Leikfélag Mosfellssveitar að sýna barnasýninguna um Mjallhvíti og dvergana sjö. Þetta var hin skemmtilegasta sýning eftir hefðbundnum söguþræði þessa fræga ævintýris. Búið var að semja nokkur lög og texta sem krydduðu sýninguna með fínum hætti. Eftir að komið var heim fórum við feðgar, allir þrír, út á fótboltavöllinn hér fyrir utan ásamt Elísabetu vinkonu Magnúsar. Þar var farið í fótbolta, sem fljótlega fór þó að breytast í mýrarbolta þar sem ferkar heitt var úti og smá væta. Við byrjuðum að renna á hausinn, eitt af öðru með tilheyrandi hlátrasköllum. Að leik loknum komu allir heim skellihlægjandi en blautir og skýtugir eins og vera ber í góðum mýrarbolta. Ótrúlega hressandi samt Smile

mjallhvít

Að lokinni sýningu á Mjallhvíti máttu gestir heilsa upp á ævintýrahetjurar og láta taka af sér myndir. Magnús Árni var alls ekki til í það og vild bara fara beint heim. Það tókst því ekki að mynda hann með ævintýrahetjunum. Mynd dagins er því fengin að láni hjá Leikfélaginu og sýnir Mjallhvíti ásamt ungum aðdáendum.


Góðir vinir í heimsókn

Laugardagur 16. janúar 2010

Um miðjan dag í dag komu góðir vinir í heimsókn til okkar í Hrafnshöfðann. Þetta voru þau Guðjón og Gunna vinafólk okkar. Með í för voru afkvæmin þeirra, Einar Gunnar (6 ára) og Ísey Björg (3 ára). Þetta var skemmtilegur dagur sem við áttum saman; krakkarnir léku sér á fullum krafti og við hinir fullorðnu áttu gott spjall enda allt of lang síðan við höfum náð að hittast. Svo snæddum við ljómandi kvöldverð sem Inga galdraði fram og komið var langt fram á kvöld þegar þau fjölskyldan kvöddu okkur. Mjög ánægjulegur dagur Smile

IMG_3659[1]

Mynd dagins tekin í heimsókn Guðjóns og Gunnu til okkar í dag (og kvöld). Þarna erum við að gæða okkur á ís og súkkulaðiköku sem er alltaf alveg ljómandi gott!


Alltaf gaman að ljúka áfanga sem lengi hefur verið stefnt að!

Föstudagur 15. janúar 2010

Í dag var skemmtilegur dagur í vinnunni. Kl. 10 í morgun var ég viðstaddur þegar Sjómannadagsráð, eigandi Hrafnistuheimilanna (vinnustaðar míns) og Kópavogsbær uundirrituðu rammasamning um starfsemi nýs hjúkrunarheimilis sem verður tekið í notkun við Boðaþing í Kópavogi nú í mars ásamt samtengdri þjónustumiðstöð og íbúðum fyrir aldraða. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Kópavogsbær byggja hjúkrunarheimilið við Boðaþing, en rekstur þess verður á vegum okkar á Hrafnistu og er sannarlega spennandi verkefni. Samhliða byggingu hjúkrunarheimilisins er Kópavogsbær nú að leggja lokahönd á byggingu samtengdrar þjónustumiðstöðar, en þar verða m.a. mötuneyti, félagsstarfi, dagvistun, endurhæfing, sundlaug, starfsmannaaðstaða og fleira. Þetta verkefni er búið að vera mörg ár í undirbúningi og því var mjög góð tilfinning þegar skrifað var undir samkomulagið. Það eru nú samt fjölmörg handtök eftir áður en hægt verður að opna starfsemina en þau verður bara að klára - eitt í einu.

Boðaþing

Mynd dagsins er tekin við Boðaþing fyrr í dag þar sem Sjómannadagsráð og Kópavogsbær undirrituðu samning um þjónustustarfsemi fyrir aldraða við Boðaþing í Kópavogi en þessi starfsemi hefst í mars. Á myndinni eru frá vinstir: Ármann Kr. Ólafsson og Gunnsteinn Sigurðsson frá Kópavogsbæ og Guðmundur Hallvarðsson stjórnarformaður Sjómannadagsráðs, ég og Ásgeir Ingvason forstjóri Sjómannadagsráðs.


Stúlkan sem lék sér að eldinum

Fimmtudagur 14. janúar 2010

Aldrei þessu vant ákváðum við Inga að leigja okkur DVD-mynd nú í kvöld. Þetta gerist reyndar mjög sjaldan því við verjum ekki miklum tíma í sjónvarpsgláp. Ég reyndi út í Snælands-videó og valdi fyrir okkur myndina "Stúlkan sem lék sér af eldinum " Myndin er framhald af myndinni "Karlar sem hata konur" eftir sænska metsölurithöfundin Stieg Larsson. Í myndinni er það hin magnaða Lisbeth Salander sem lendir í magnaðri atburðarás með blaðamanninum Mikael Blomkvist. Myndin er mjög mögnuð þó mér hafi ekki fundist hún jafngóð og fyrri myndin um "Karla sem hata konur". Nú er bara að bíða eftir þriðju myndinni sem væntanleg er í bíóhúsin fljótlega.

l_15d11a656bb14c33938ed1543d46b209

Mynd dagsins er auglýsingamynd fyrir kvikmyndina "Stúlkan sem lék sér að eldinum" sem við Inga leigðum á DVD nú í kvöld.


Þorrablótið að bresta á!

Miðvikudagur 13. janúar 2010

Nú styttist í  hinn skemmtilega mánuð, Þorra. Það hefur alltaf þótt góður og þjóðlegur siður að blóta Þorra með því að koma saman, snæða kjarngóðan íslenskan mat og eiga góða stund. Síðustu ár höfum við Inga mætt strax á öðrum degi Þorra á Þorrablót Aftureldingar hér í Mosfellsbænum. Þetta er risa-þorrablót sem haldið er í íþróttamiðstöðinni hér í Mosfellsbænum. Um 500-700 manns mæta í matinn og boðið er upp á fyrsta flokks skemmtiatriði. Félagarnir Sveppi og Auddi verða kynnar þetta árið. Á eftir er svo alltaf stórdansleikur, að þessu sinni með Ingó og veðurguðunum og þá bætast nokkur hundruð manns við. Knattspyrnudeild og handknattleiksdeild Aftureldingar halda blótið saman og rennur allur ágóði til uppbyggingar barna- og unglingastarfs í íþróttafélaginu. Við Inga munum mæta til að eiga góða stund með sveitungum okkar og styrkja gott málefni í leiðini.

þorrablot - midar

Mynd dagsins er tekin á bensínstöð N1 hér í Mosfellsbænum nú í kvöld. Þar hófst miðasala á risa-þorrablót Aftureldingar sem haldið verður á öðrum degi Þorra. Ég var mættur tímanlega til að krækja í gott borð fyrir minn hóp. Undirbúningsnefnd þorrablótsins var mætt á svæðið og bauð okkur miðakaupendum upp á nett staup af Brennivíni svona rétt til að kynda upp stemninguna! Á myndinni eru nokkrir af hinni samhentu og öflugu þorrablótsnefnd og í forgrunni er Hanna Sím að skenkja Rúnari forseta þorrablótsnefndarinnar af íslenskum öndvegisdrykk sem örugglega mun verða brúkaður frekar á þorrablótinu. Spennandi þorrablót framundan Smile


Afmælisnefnd Vífilsstaða stofnuð

Þriðjudagur 12. janúar 2010

Seinni partinn í dag tók ég þátt í skemmtilegum fundi. Forsagan er sú  að hið sögufræga hús, Vífilsstaðaspítali, sem upprunalega var kallað Vífilsstaðahæli, fagnar 100 ára afmæli í september á þessu ári. Vífilsstaðir voru upprunalega byggðir sem spítali fyrir berklasjúklinga en berklar, sem stundum hafa verið kallaður "Hvíti dauðinn", voru þá með illvígustu sjúkdómum sem fundust hér á landi. Upp úr miðri síðustu öld byrjuðu að koma fram lyf við berklum og í dag er sjúkdómurinn ekki vandamál hér á landi. Hlutverk Vífilsstaða hefur því verið að breytast. Hrafnista, vinnustaður minn, rekur nú  hjúkrunarheimili í húsinu og hefur gert síðustu 6 ár eftir viðamiklar breytingar á húsinu. Þó Hrafnista hafi því aðeins komið að sögu þessa merka staðar 6 ár af öllum 100 árunum viljum við gjarnan standa fyrir því að þessa afmælis verði minnst með viðeigandi hætti enda skipar saga Vífilsstaða merkilegan sess í sögu þjóðarinnar. Vegna þessa stóðum við í dag að stofnun afmælisnefndar í samvinnu við helstu aðila sem að sögu hússins hafa komið gegnum tíðina. Allir tóku vel í að vera með í afmælisnefndinni eins og SÍBS (B-ið stendur nefnilega fyrir berkla), Oddfellow-reglan sem stóð að byggingu hússins á sínum tíma, Garðabær, Landspítali og ýmsir áhugamenn um sögu staðarins. Við áttum fínan fund og ég varð margs fróðari um sögu þessa merkilega staðar. Það var mikill hugur í fólki og því er ljóst að 100 ára afmælis Vífilsstaða verður minnst með glæsibrag - bara gaman að taka þátt í því.

Vífilsstaðir

Mynd dagsins er af Vífilsstöðum. Þarna var reist glæsilegt hús undir spítala, læknisbústaður, fjós og fleira. Vífilsstaðir fagna 100 ára afmæli í haust og í dag var ég á fundi afmælisnefndar.

 

 


Ættingjar láta gott af sér leiða

Mánudagur 11. janúar 2010

Það var nóg að gera í vinnunni hjá mér í dag og í raun fram á kvöld. Í kvöld var ég gestur á stjórnarfundi Ættingjabandsins en það er ættingja- og vinasamband heimilisfólks á Hrafnistu í Reykjavík, eins af vinnustöðum mínum. Markmiðið er að stuðla að vellíðan heimilisfólksins á sem flestan hátt og geta að allir sem eiga ættingja og eða vini á Hrafnistu eru sjálfkrafa meðlimir sambandsins. Ættingjabandið stendur árlega fyrir ýmsum uppákomum s.s. aðventukvöld og skemmti- og fræðslukvöld fyrir heimilisfólk og gesti. Á sumrin hefur svo Ættingjabandið tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd sumarferðar heimilisfólksins á Hrafnistu þannig að þetta er stórmerkur og góður félagsskapur. Í kvöld var semsag fyrsti stjórnarfundur Ættingjabandsins á þessu ári en stjórnin hittist reglulega til þess að skipuleggja og undirbúa þau verkefni sem framundan eru. Það var því gaman að hitta þau nú í kvöld og heyra um það göfuga og skemmtilega starf sem framundan er. Mynd dagsins er fengin að láni af heimasíðu Hrafnistu og sýnir hörkustuð á einni af skemmtunum ættingjabandsins fyrir heimilisfólkið.

hrafnista

Þetta er hann KISS

Sunnudagur 10. janúar 2010

Eftir rólegan dag fórum við fjölskyldan saman í sund núna seinni partinn. Það var Lágafellslaugin hér í nágrenninu sem varð fyrir valinu eins og oft áður. Eftir ljómandi góðan þvott á allri fjölskyldunni fengu piltarnir að velja kvöldmatinn og fyrir valinu varð að fara á veitingastaðinn American Style við Bíldshöfða. Þar eru ljómandi góðir borgarar í boði fyrir okkur strákana og húsfreyjan fékk hollustu-sallad. Á veggjum vetingastaðarins eru myndir af ýmsum helstu stórmennum tónlistarsögunnar. Við tókum eftir að á einum veggnum var þessi líka fína mynd af hljómsveitnni KISS í öllu sínu veldi. Þessi hljómsveit var eftirlætishljómsveitin mín í mörg ár þegar ég var yngri. Fyrir utan að spila kröftugt og fjörugt rokk gerir hljómsveitin (sem ennþá er starfandi) mikið út á sviðsframkomu og eru til dæmis allir meðlimirnir málaðir sérstaklega í framan - alltaf á sama hátt og hafði hver meðlimur sveitarinnar eigin útfærslu sem gerir alla meðlimina auðþekkjanlega.  Hefur þetta haldið sér ennþá fram á daginn í dag. Kiss var ein vinsælasta hljómsveitin þegar ég var í skóla og andlitsmálningin gerði það að verkum að tiltölulega auðvelt var að teikna meðlimi hljómsveitarinnar. Hljómsveitarmeðlimir urðu því oft fyrir valinu þegar maður var í teikningu og myndlist í skólanum. Eftirminnilegt atvik átti sér stað þegar ég var í 10 eða 11 ára bekk í teikningu þegar margir okkar strákana völdu að teikna okkar uppáhaldsmeðlim í hljómsveitinni. Einn var þó ekki alveg með á nótunum en vildi þó falla í hópinn og teiknaði einn meðlim sveitarinnar. Það varð þó mikill hlátur í bekknum þegar myndlistarmaðurinn hafði ritað undir myndina: "Þetta er hann KISS".

 

IMG_6808[1]

Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum American style við Bíldshöfða þar sem við fjölskyldan fengum okkur í svanginn nú í kvöld eftir sundferð dagsins. Á veitingastaðnum eru myndir af ýmsum frægum tónlistarfólki rokk- og poppsögunnar og þarna hef ég stillt mér upp við myndina af hljómsveitinni KISS.


Kósý laugardagur

Laugardagur 9. janúar 2010

Í dag var ákveðið að hafa bara rólegheit á dagskrá fjölskyldunnar en það er nú stundum alveg dásamlegt að hafa ekkert sérstakt á dagskránni. Seinni partinn, þegar drengirnir voru komnir heim eftir að hafa leikið með vinum, drógum við fjölskyldan fram spil og spiluðum spilið "Sequence" sem er ágætlega skemmtilegt fjölskylduspil. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Magnús Árni (6 ára), gaf okkur hinum eldri ekkert eftir við spilamennskuna en spilið reynir nokkuð á útsjónarsemi. Held ég reyni ekkert að að útskýra spilareglurnar hér. Inga tók sig svo til og eldaði alveg ljómandi ljúffengan kjúklingarétt í kvöldmatinn. Mamma og pabbi kíktu við en þau voru að koma af Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar og snæddu með okkur kvöldmatinn. Bara ljúfur og rólegur dagur þar sem hægt var að hafa það svolítið kósý.

IMG_6798[1]

Mynd dagins er tekin við kvöldmatarborðið í kvöld þar sem snæddur var kjúklingaréttur að hætti Ingu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband