Föstudagskvöld í tölvulandi

Föstudagur 8. janúar 2010

Í kvöld var aldrei þessu vant ekkert sérstakt á dagskránni. Við fjölskyldan vorum því bara heima í rólegheitum í kvöld. Fljótlega beindist þó athygli mín af playstation-tölvu sonanna. Þar var eldri pilturinn að spila ægilegan tölvuleik sem heitir Call of Duty 4. Þetta er svona "1. persónu" byssuleikur og bannaður börnum. Einhvers konar "bófaleikur" eins og maður lék í gamla daga nema nú í tölvunni. Einhverra hluta vegna drógst ég inn í þessa veröld þar sem breskir og bandarískir sérsveitarmenn þurfa að brjóast framhjá ýmsum þrjótum sem ógna heiminum víðvegar um lönd - á sjó, inn í borgum og úti í sveit. Leikinn er hægt að spila á netinu, bæði í liði með og gegn öðrum spilurum víðsvegar um heiminn. Það fór nú svo að kvöldið fór meira og minna í spila þennan leik og heyra útskýringar sonarins hvernig hitt og þetta gengur fyrir sig i þessum heimi. Miðað við árangurinn minn í leiknum er ljóst að mér er ætlað annað hlutverk í lífinu en að vera sérsveitarmaður.  Maður skemmti nú bara konunglega í þessu og adrenalínið flæddi, þó tilgangur leiksins sé ekki mjög fallegur, og svo fór að komið var fram yfir miðnættið þegar leik var hætt - þá hæst hann stendur.

call_of_duty_4_modern_warfare-1940

Mynd dagins er af tölvuleiknum Call of Duty 4 sem við feðgar vorum að spila saman í "Playstation" í kvöld. Alveg ótrúlega magnað fyrirbæri að spila þennan leik þó hann hafi ekki beint fallegt uppeldislegt gildi og ég hafi ekki náð sérstaklega góðum árangri sem sérsveitarmaður.


Jólin tekin niður

Fimmtudagur 7. janúar 2010

Í kvöld byrjuðum við fjölskyldan að taka niður jólin. Þetta er ansi vænn skammtur af jólaskrauti sem heimilið okkar hefur innihaldið yfir hátíðarnar en það er jú mikilvægur hluti af því að gera jólin hátíðleg og skemmtileg. Það skal alveg viðurkennast að húsfreyjan, Inga, á eiginlega allan heiður af því að velja skrautið, koma því upp og taka niður - ég er bara sérlegur aðstoðarmaður í ferlinuSmile Alls eru 10-12 pappakassar í stærri kantinum sem er notaðir undir skrautið en þeir búa jafnan á háaloftinu hjá okkur. Þá eru ótaldið ýmsar öskjur og dósir undir smákökur og fleira sem ekki er sett í pappakassana. Ekki má heldur gleyma útijólaseríunum sem eru glærar en við ætlum að leyfa þeim að loga út janúar að minnsta kosti. Jólatréð okkar var ansi tómlegt þegar búið var að taka af því allt skrautið en þessi mynd af jólatrénu okkar, alveg "allsberu", hef ég valið sem mynd dagins í dag til heiðurs þess að við vorum að taka niður jólin.

IMG_6801

Þrettándagleði í Mosfellsbænum

Miðvikudagur 6. janúar 2010

Í dag er síðasti dagur jóla og jólin verður að kveðja með stæl. Síðan við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 1999 höfum við haft þann sið að fara hér á þrettándabrennu enda er hún jafnan ein sú glæsilegasta á landinu. Í för með okkur Ingu í kvöld voru synirnir, Ágúst Logi og Magnús Árni, ásamt mömmu og pabba og Guðrúnu mágkonu. Venju samkvæmt lögðum við upp frá Bryndísi frænku sem býr í Arnartanganum eða bara rétt við brennuna. Veður fyrir Þrettándabrennur var með allra besta móti. Fallegur jólasnjór yfir öllu, ekkert mjög kalt en algert logn. Gott veður hefur greinilega sitt að segja því um 5.000 manns mættu á brennuna þar sem var sungið og spjallað áður en Björgunarsveitin Kyndill hér í Mosó bauð upp á mjög glæsilega flugeldasýningu - þar var nú engin "kreppusýning" á ferðinni heldur þvert á móti - alveg ótrúlega flott flugeldasýning! Að lokinni brennu og flugeldasýningu fórum við fjölskyldan í árlegt Þrettándaboð Bryndísar frænku þar sem maður hitti fullt af skemmilegu fólki og gat gætt sér á heitu súkkulaði, ís, kökum og fleira gúmmolaði.  Upp úr kl. 11 þorðum við nú ekki öðru en að fara heim þar sem Magnús Árni (6 ára) var orðinn nokkuð þreyttur og allir þurftu að vakna snemma daginn eftir. Þetta var sannarlega glæsilegur endir á frábærum jólum!!!

IMG_6795[1]

Mynd dagins er tekin á glæsilegri Þrettándabrennunni í Mosfellsbænum nú í kvöld. Á myndinni eru frá vinstri: Ágúst Logi, mamma, pabbi, Bryndís frænka og Guðrún mágkona.


Að föndra "gogga"...

Þriðjudagurinn 5. janúar 2010

Dagurinn í dag verður án efa talinn mjög sögulegur en forsetinn var algerlega maður dagsins í dag. En þetta er semsagt dagurinn þegar Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir "æseif". Þar sem í síðustu færslum hefur verið fjallað nokkuð um forseta og Bessastaði ætla ég að gefa því frí. Seinni partinn í dag átti ég nefnilega ágæta stund með syni mínum Magnúsi Árna og Elísabetu vinkonu hans þar sem við vorum að föndra "gogga" sem er vinsælt sport hjá þessum aldri. Í gogginn eru svo skrifaðar tölur sem maður velur sér og undir tölunum er svo "spádómur" um persónuleika manns Tounge Eftir að hafa valið þrisvar sinnum tölur úr "goggi" eigandans kemur úrskurðurinn og í dag var ég ýmist "tveggja ára" eða "önd". Líklega nokkuð mikið til í þessu í báðum tilvikum Cool

IMG_6796[2]

Mynd dagins er tekin hér heima seinni partinn þar sem ég föndraði "gogga" með Magnús Árna og Elísabetu vinkonu hans!


Forsetinn Vigdís

Mánudagur 4. janúar 2010

Nú í kvöld lauk ég við að lesa nýju bókina um Vigdísi sem kom út fyrir jólin: Vigdís - kona verður forseti. Bókin er eftir Pál Valsson og lýsir lífshlaupi Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta. Lífshlaup Vigdísar er auðvitað mjög áhugavert og fróðlegt að lesa ýmislegt um þessa merku konu. Sérstaklega finnst mér nú mjög skemmtilegur en rosalega "íslenskur" aðdragandinn að ákvörðuninni um að fara í framboð. Þó bókin sé heldur löng fyrir minn smekk hafði ég nú bara mjög gaman af henni. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér að ég hitti Vigdísi í aðdraganda forsetakostninganna 1980 en þá var ég 9 ára gamall. Ég man vel eftir þegar ég hitti hana en hún var á sólríkum degi í kosningaferðalagi um Akranes. Mamma tók að sér að keyra hana hluta dagsins og ég fékk að sitja í bílnum milli tveggja eða þriggja staða. Ég man að ég var alveg sannfærður um að þessi kona yrði forseti þó hún hafi nú ekki verið neitt sérlega forsetaleg - heldur bara meira venjuleg kona í venjulegum fötum Smile

Vigdis-175x249
 

Mynd dagsins er fengin af láni af vefsíðu Forlagsins og sýnir bókarkápu Vigdísar-bókarinnar sem ég lauk við að lesa nú í kvöld! Merkileg bók um lífshlaup Vigdísar forseta.


Spila- og átveisla á Akranesi

Sunnudagur 3. janúar 2010

Við fjölskyldan áttum mjög skemmtilegan dag í dag. Upp úr hádegi fórum við upp á Akranes og heimsóttum þar vinafólk okkar Sævar og Hafdísi ásamt börnum þeirra Arnari, Katrínu og Helenu. Einnig voru með okkur góðir vinir, Ástþór og Sigrún ásamt Ástrósu dóttur sinni. Við vorum nokkurn veginn að borða allan daginn og meðan krakkarnir léku sér við að mála, spila og fara í heita pottinn voru við fullorðnu að spila (ásamt átinu) hið skemmtilega spil ALIANS sem var mjög vinsælt í jólapökkunum nú um jólin. Spilið Alians gengur út á að lýsa tilteknum orðum fyrir spilafélögunum sem þeir eiga að reyna að finna út án þess að notað sé í lýsingunni það orð sem finna á; nokkurs konar andstæða við það að leika látbragðsleik (ferkar flókin útskýring Smile). Þetta er mjög skemmtilegt spil sem ég mæli með!

IMG_6779[1]

Mynd dagsins er tekin í spila- og átveislunni á Skaganum í dag. Í tilefni dagsins bakaði Ástþór tvær "hnallþórur" sem við gæddum okkur á en áður en við fengum það kveikti kappin á blysum í tilefni af nýja árinu. Mjög ánægjulegur dagur hjá okkur fjölskyldunni á Skaganum í dag!


Dagur ljósmyndaranna

Laugardagur 2. janúar 2010

Dagurinn í dag hlýtur að vera dagur ljósmyndara. Þvílík veðurblíða og fegurð í náttúrunni! Við fjölskyldan höfðum fyrir löngu ákveðið að dagurinn í dag yrði "kósí"-dagur hjá fjölskyldunni þar sem ekkert hafði verið sett á dagskrá. Eftir rólegan morgun skelltum við okkur í gönguferð eftir hádegið. Við fórum um nágrennið en mestum tíma vörðum við þó í Leirvoginum sem er hér rétt fyrir neðan húsið okkar. Við eigum mjög flotta myndavél sem við notum allt of sjáldan. Hún var með í för og á leiðinni spreytti Inga sig á alls konar stillingum og uppstillingum enda ekki annað hægt en að draga fram vélarnar, fyrir þá sem áhuga hafa á ljósmyndun. Í sumar fjallaði ég hér um Leirvoginn en það sem er mjög gaman við voginn er að mjög mikill munur er á flóði og fjöru. Sögur segja að í gamla daga hafi skip jafnan siglt langt inn í voginn á flóði en á fjöru var og er ennþá nánast hægt að ganga yfir voginn þveran og endilegan. Í dag var fjara og þó við værum bara á gönguskóm gátum við farið víða um voginn.

Picture 173

Mynd dagsins er tekin í gönguferð fjölskyldunnar í dag í alveg ekta póstkorta og dagatalsveðri, en vil ég nú kalla daginn dag ljósmyndaranna. Inga tók þessa mynd af okkur Magnúsi Árna (erum fyrir miðri mynd) í Leirvoginum í dag á háfjöru með Esjuna í baksýn - Inga er nú bara nokkuð efnilegur ljósmyndari Smile


Og þá er það árið 2010!

Föstudagur 1. janúar 2010

Fjölskyldan náði nú að sofa alveg framundir hádegi á þessum fyrsta degi ársins eftir að hafa farið tiltölulega seint að sofa. Dagurinn var gríðarlega fallegur, aldeilis glæsilegt veður. Um kaffileitið var ég þó búinn að fara í nýársbaðið og klæða mig í mitt fínasta púss. Undanfarin ár hefur mér verið boðið í móttöku hjá sjálfum forsetanum á Bessastöðum á þessum degi og til heiðurs þessa æðsta embætti landsins finnst mér nú ekki annað hægt en að mæta - það er nú líka bara mjög gaman. Ýmsum forkólfum úr þjóðfélaginu er boðið þarna í stutta mótttöku, líklega í nokkrum hópum sem mæta á mismunandi tíma. Bessastaðir skörtuðu sínu fegursta í veðurblíðunni og ekki var hægt að sjá annað en Ólafur Ragnar gerði slíkt hið sama þrátt fyrir að hafa fengið ýmis skot á sig í Skaupinu kvöldið áður. Því miður var boðið ekkert í líkingu við það sem Skaupið kvöldið áður, hafði gefið til kynna um partýin á Bessastöðum - en mjög skemmtileg þó. Eftir að boðinu lauk fórum við fjölskyldan í heimsókn til mömmu og pabba á Akranes þar sem við snæddum gómsæta nýársmáltíð!

bessastadir
 

Mynd dagsins er af Bessastöðum sem skörtuðu sínu fegursta í dag. Þar kíkti ég við seinni partinn í dag í árlegt nýárshóf forsetaembættisins. Ekki var nein myndavél með í för en þessi fallega mynd er fengin að láni á "google"


Síðustu metrarnir af 2009...

Fimmtudagur 31. desember 2009

Jæja, þá er komið að síðasta degi ársins. Í morgun þurfti ég að kíkja í vinnuna en var kominn heim á hádegi. Stundvísilega kl. 13:14 var ég svo kominn yfir götuna, nánar tiltekið í Hrafnshöfða 2, hér í Mosfellsbænum. Þar var að hefjast árlegt gamlársdagspartý okkar karlanna í götunni. Þar er jafnan boðið upp á graflax, nýbakað rúgbrauð, ákavíti og fleira góðgæti. Alltaf er ætlunin að boðið sé búið um kl. 15:30 en það hefur nú ekki alltaf tekist að reka endahnútinn þáCool Ég var þó kominn heim upp úr klukkan fjögur eftir skemmtilegar stundir með nágrönnunum og var mikið hlegið eins og vera ber. Það var tæplega 6 kílóa kalkúnn í gamlársdagsmatinn en hjá okkur fjölskyldunni var Guðrún mágkona í mat. Fyrir skaupið höfðu mamma og pabbi bæst í hópinn og rétt fyrir miðnættið kom svo Bryndís frænka í heimsókn. Það var algert blíðskaparveður rétt fyrir miðnættið þegar við fjölskyldan hófum okkar hluta af stærstu flugeldasýningu í heimi. Nágrannarnir voru einnig nokkuð öflugir og um miðnættið höfðu systurnar Guðrún og Inga hellt kampavín í glös og fært okkur "skotmönnum" fjölskyldunnar. Við skáluðum því fyrir nýju ári úti á götu með fjölskyldunni og nágrönnunm sem var skemmtileg upplifun. Hið mjög svo fína og flotta ár 2009 var liðið en hið spennandi ár 2010 tekið við!

IMG_6763[1]

Mynd dagins er tekin nú rétt fyrir miðnættið. Þar sem veðrið var svo gott fögnuðum við fjölskyldan nýju ári útifyrir. Systurnar Inga og Guðrún mættu með kampavínið út á götu en hér eru þær ásamt Bryndís frænku á leiðinni út úr húsinu með áramótadrykkinn góða! Flott ár liðið og ennþá betra ár framundan!


Flugeldakaup!

Miðvikudagur 30. desember 2009

Þó ég hafi þurft að vinna langt fram á kvöld nú í dag þá gafst samt tími til að sinna mikilvægu erindi nú fyrir áramótin - að kaupa flugelda. Við feðgar fórum á stúfana og heimsóttum Björunarsveitina Kyndil hér í Mosfellsbænum þar sem úrvalið að slíkum gersemum virðist vera óendanlegt. Ég tel mig bara hafa sloppið nokkuð vel út aftur, amk var alveg hægt að bera afrakstur ferðarinnar í einni ferð út í bíl. Þó húsfreyjunni Ingu, finnist flugeldarnir nánast vera óþarfi á áramótum get ég nú sjálfur ekki hugsað mér áramótin nema sprengja gamla árið hressilega upp. Um kvöldið fóru svo synirnir ásamt frændsystkinum sínum á söngleikinn "Óliver" sem var jólgjöfin frá Guðrúnu frænku.

flugeldar

Mynd dagins er tekin í dag við flugeldakaup okkar feðganna. Þarna er Magnús Árni í söluskúr björgunarsveitarinnar Kyndils sem vonandi fær gott rekstrarfé út úr flugeldasölu þessa árs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband